18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

Ferðakostnaðarreikningar

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Eg álít, að háttv. þm. Árn. hefði verið sæmra að láta þau orð ótöluð, er hann lét sér um munn fara í garð dr. Valtýs, því það gæti gefið mönnum ýmsar hugmyndir um af hverjum ástæðum háttv. þm. hefir greitt atkv. með því að ónýta kosninguna. Hinn háttv. þm. talaði hér auðsjáanlega sem Hannes Þorsteinsson, en ekki sem forseti neðri deildar, ekki sem þeim manni sæmir, er skipar hið virðulegasta sæti þingsins.

Viðvíkjandi því, að ferðakostnaðarreikningur dr. Valtýs sé of hár, skal eg benda á það, að það hefir ekki verið venja þingsins að skifta sér af því, hvernig þingmenn ferðuðust, hvort þeir færu landveg eða sjóveg eða með hvaða skipi.

Eg get ekki álitið, að það geti réttlætt hin mjög óviðurkvæmilegu ummæli háttv. þm. Árn., að dr. Valtýr hefði kannske verið 3—4 dögum fljótari, hefði hann farið með »Sterling«, í stað þess að fara með »Ceres«. Hefði »Ceres« haldið áætlun, hefði hann komið á nálega sama tíma og með hinu skipinu, en að »Ceres« mundi seinka, gat dr. Valtýr ekki vitað, þegar hann fór frá Kaupmannahöfn. Mér finnast ummæli háttv. 1. þm. Ám. mjög illa viðeigandi, ekki sízt fyrir þá sök, að maður sá, sem um er að ræða, er hér ekki staddur og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Það virðist svo, sem mönnum hefði átt að nægja að gjöra hann þingrækan, þó menn ekki hefðu farið að bæta gráu ofan á svart, með því að svívirða hann hér í þingsalnum með lúalegum aðdróttunum og svigurmælum.