27.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Eg vil að eins gera athugasemd við breyt.till. við 7. gr. Þar hefir nefndin sett mismunandi tíma, um friðun. Eg þykist vita að tímatakmarkið, að því er það snertir Vestfirði, er sett samkvæmt tillögu háttv. þm. V.-Ísf, sem er kunnugur þar vestra. Þetta er til bóta, en þó virðist tímatakmarkið 1. júní of seint. Ef ekki er leyft að beita skóginn fyr, þá neyðist fólk til að brjóta lögin. Allflestir fjarðarbotnar inn úr Ísafjarðardjúpi eru lítt bygðir, en þar eru skógar og aðalbeit fyrir fénað. Að vorinu verða menn því annaðhvort að hýsa eða sleppa fé sínu inn í firði þessa. Í apríl sleppa menn vanalega fé sínu, og þá er í flestum vorum snjór að mestu leystur inn í fjörðunum. Eg vildi því, að tímatakmarkið yrði sett 1. maí í staðinn fyrir 1. júní, enda tel eg beit þá lítt skaðlega fyrir skógana eins og til hagar þar vestra.

Annars vil eg geta þess, að þótt lögin séu góð og stefni í rétta átt, þá óttast eg að þau verði meir á pappírnum en í reyndinni. Það þarf sjálfsagt marga skógarverði, ef að gagni á að verða. En eg vil leggja áherzlu á, að þessi breyt.till., 1. maí fyrir 1. júní, verði gerð.