27.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Steingrímur Jónsson:

Eg tel mál þetta þýðingarmikið og spor í rétta átt, og tel því rétt að samþykkja það. En eg er ekki sannfærður um, að það sé heppilegur tími nú að láta þessi lög koma í gildi. Eg held að það hefði verið holt, úr því að skógræktarstjóri er nú skipaður, að nota lögin frá 1894 og 1895. En úr því skógræktarstjórinn álítur þetta heppilegasta veginn, vil eg ekki greiða atkv. móti frv. En eg vildi gera athugasemd við l. gr. frv., eins og hún er orðuð í nefndarálitinu. Aðaltilgangurinn er að varðveita skógarleifar, og fyrirgirða uppblástur lands, með því að banna lyng- og melrif. En mér virðist farið lengra en nauðsyn ber til. Lögin þurfa ekki að vera svo hörð. Ef þau eru það og ganga of nærri rétti manna, þá er hætt við að þau verði pappírslög. Þar sem stendur »birkirunnum og birkirótum má ekki kippa upp«, þá er, að minni hyggju, þýðingarlaust að fyrirskipa það þannig, að ekki megi gera undantekningar. Eg er úr því héraði, þar sem kjarr er að breiðast út, t. d. jafnvel í tún og engjar, en þá er nauðsynlegt að stemma stigu fyrir því, og það ætti að vera hægt að gera undantekningar frá lögunum í samráði við skógræktarstjórann. Með því að banna að rífa fjalldrapa, víði og sortulyng, er gengið of nærri rétti einstaklingsins. Fjalldrapi breiðist sumstaðar mjög mikið út, eyðileggur annan gróður og spillir beit fyrir stórgripi. Gagnvart þessu verður jarðeigandi að hafa rétt til að verja sig. Eg þekki t. d. tún, þar sem stórgerður gulvíðir er kominn inn fyrir túngarðinn, og það kostar mikið að uppræta hann aftur.

Þá er og athugavert að banna að rífa víði og fjalldrapa, því að víða er það notað sem byggingarefni í þök, eins og kunnugt er. Sömuleiðis er það notað sem eldiviður, þar sem erfitt er um aðflutninga og mór er ekki, t. d. í uppsveitum Þingeyjarsýslu; með því sparast áburðurinn til túnræktar. Auk þess er það notað víða á Norðurlandi í stíflugarða. Þetta má ekki hefta. Það á að vera heimilt að rífa fjalldrapa og víði á þeim stöðum, sem þess þarf, og það getur ekki valdið eyðingu landsins.

Sömuleiðis sýnist lítil ástæða til að banna að rífa upp sortulyng. Það hefir frá fornu fari verið notað til litunar og er enn á Norðurlandi.

Aftur er alveg rétt að banna að rífa mel; auðvitað verður að mega slá mel og að nota hann til gjafar, því að það yrði til að fella verð jarða, ef bannað væri.

Eg vona, að nefndin taki þessar bendingar til íhugunar og beri sig saman við mig um breytingar.

7. gr. frv. hefði átt að vera svo, að eigendur og notendur jarða mættu eigi beita skóga og kjarr, þegar snjór er. Tímatakmarkið er og ekki heppilega valið, að því er kemur til Norðurlands. Þar er jörð venjulega, eða að minsta kosti mjög oft, auð í nóvember og desember. Féð liggur úti á nóttum, og oft ekki gengið til þess oftar en á vikufresti eða svo. Þess vegna væri betra að hafa alstaðar sama tímatakmark, nefnilega 1. janúar, eða hafa engan ákveðinn tíma, heldur að eins takmarka eftirlitið við það, hvort snjór er á jörðu. Þó er töluvert vandkvæði á þessu. Ekki geta lögin sagt mönnum að fella hjarðir sinar heldur en að beita. Í Þingeyjarsýslu eru margar jarðir, kostajarðir í snjóléttum vetrum, en í hörðum vetrum verður beitin aðallega á bruminu, og vafasamt er, hvort hægt er að varast það.

Sem sagt, um þessi atriði vona eg að geta borið mig saman við nefndina.