02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Háttv. 4. kgk. þm. tók fram, að bann gegn því, að rífa fjalldrapa og víði, gengi of nærri eignarréttinum. En gangi lagabann í þessa átt of nærri eignarréttinum, þá gengur bann skógaræktarstjóra það líka. Mér virðist hér því ekki gott að samrýma ummæli hans. Annars vil eg helzt, að aldrei sé leyft að rífa lyng eða fjalldrapa; það má skera það eða höggva. En hitt er að eyðileggja jörð og veita banasár þeim bletti, sem rifinn er. Eg er samdóma háttv. 4. kgk. þm., að heppilegra væri að banna þetta með samþyktum. Í samþykt þeirri, sem sýslunefndin í Norður-Ísafjarðarsýslu hefir gjört, er algjörlega bannað að rífa fjalldrapa, og ef skógræktarstjóri leyfði að rífa fjalldrapa þar, þá mundi sýslunefndin kunna honum litla þökk fyrir.