24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Sigurður Sigurðsson:

Mér þykir mjög leiðinlegt, vegna hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) að geta ekki greitt atkv. með frumv. þessu. Það fer fram á aukin útgjöld fyrir landssjóð alveg að óþörfu og til einskis gagns fyrir þjóðina. — Hins vegar á það að líta, að nú þegar er varið allmiklu fé til safnanna hér. Má nefna sem dæmi, að á fjárlagafrv. eru ætlaðar til landsskjalasafnsins 4450 kr., þar af laun skjalavarðar 1800 kr. Það var einu sinni sagt hér í þingsalnum um þetta safn, að það væri ekki til annars en að bera það út á tjörn og kveikja í því »fyrir fólkið«. Vel má vera, að hér sé of djúpt í árinni tekið, og að þetta hafi verið heldur ýkt hjá þeim, er það sagði. Eg læt það liggja á milli hluta.

Til forngripasafnsins eru nú áætlaðar 3800 kr., þar af laun forngripavarðar 1800 kr., og verð eg að álíta það fullsæmilega borgun. Frumv. þetta fer fram á, að laun hans séu hækkuð um 1000 kr. og að hann auk þess fái aðstoðarmann með 800 kr. Þetta álít eg að hægt sé að spara. Sparnaðurinn verður að koma niður á þeim liðum, sem ekki auka gjaldþol landsmanna eða framleiðsluna í landinu. Það er undarlegt að vera altaf að tala um að spara og vera svo að flytja frumv. um stofnun nýrra sýslana; verðum að láta staðar numið með það.