24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

15. mál, námulög

Gunnar Ólafsson:

Það voru aðeins örfá orð, sem eg vildi sagt hafa. Mér sýnast breytingartillögur nefndarinnar svo lítilfjörlegar og til svo lítilla bóta, að eg kysi helzt að þær væru feldar. Eg álít það meiningarlaust, að vera að láta málið fyrir þá smámuni hröklast á milli deildanna. Í sumum atriðum ræður nefndin til breytinga á frumvarpinu, sem að mínum dómi skemma frv., t. d. þar sem hún vill fella burt úr 3. gr. »með öðrum áhöldum en hökum og skóflum«, enda færir hún enga ástæðu fyrir þeirri breytingu. Það er hugsanlegt að við slíkan gröft þyrfti að nota sprengiefni, og tel eg þá heppilegra, að til þess þyrfti samþykki ábúanda. Þá getur það og verið óþægilegt, að vera, að því er breidd námuteigsins snertir, bundinn við 100 metra sem lágmark. Háttv. framsögum. færði þá ástæðu fyrir þeirri tillögu, að þar sem námurekandi ætti tilkall til tveggja teiga, yrði spildan óhæfilega löng, ef mjórri væri en 100 metrar, en eg sé ekkert á móti því, þótt teigurinn yrði lengri en 2000 metrar, þætti það hentara. Viðvíkjandi gjaldinu skal eg geta þess, að breytingin mun að minsta kosti ekki vera heppileg fyrir jarðeigendur; að öðru leyti er 17. gr. nógu ljós, og þarf ekki af þeim ástæðum breytinga við.