23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

16. mál, aðflutningsbann

Stefán Stefánsson (6. kgk.):

Það mætti virðast svo, sem það væri að bera í bakkafullan lækinn, að fara að halda langar ræður nú um þetta mál. Svo mikið hefir um það verið rætt og ritað. Enda mun það og hins vegar tilgangslítið, þar sem forlög þess munu þegar ákveðin. Engu síður skal eg leyfa mér að segja nokkur orð, einkanlega þar sem svo var ástatt, að eg stóð í nefndinni einn á móti öllum hinum; hinir voru allir fylgjandi framgangi málsins, þótt sú stefna kæmi fram hjá þeim mismunandi eindregin. En eg fyrir mitt leyti hlýt að vera algerlega á móti frumvarpi þessu fyrir þá sök, að í mínum augum verða lögin hin verstu þvingunarlög. Þau mundu ganga út fyrir takmörk hins almenna löggjafarvalds og alt um of náið inn á sérmálasvið einstaklinganna, inn fyrir vébönd heimilis-sjálfræðisins, þar sem einstaklingurinn á að öllu að stjórna sér; þau ganga hneykslanlega langt inn á svið samvizku og siðgæðis. Eg lít svo á, og er það föst skoðun mín, að lög þessi — ef lög verða — muni hafa hin óhollustu áhrif á þjóðina, þ. e. hugsunarhátt hennar og aðstöðu til löggjafarinnar og laganna í heild sinni. Og hefir ekkert það verið lagt til málanna frá gagnstæðri hlið, sem sannfært geti mig um hið mótsetta. Það má einu gilda, hvert efni laganna er, ef þau ganga of náið inn á sérmálasvið einstaklinga og heimila, þá er óhjákvæmilegt, að þau verða ekki haldin, hvernig svo sem þau eru að öðru leyti. Og þá hljóta þau einnig að verða til bölvunar. — Að vísu skal eg játa, að tilgangurinn sé góður. Það er aldrei nema gott og blessað, að ofnautn áfengra drykkja hverfi úr landinu. En þrátt fyrir það álít eg, að sá vegur, sem upp á hefir verið stungið hér til að koma því til leiðar, þ. e. aðflutningsbannið, sé svo rangur og fjarstæður, sem verða má. Hingað til hafa bindindismenn látið sér nægja, að gera mönnum ljósa með rökum þá skaðsemi, sem óhóf og ofnautn hefði í för með sér, og er sú aðferð lýtalaus og lofsverð í alla staði, að beita sannfæringarrökum. Virðist mér heppilegast að halda einmitt áfram á þeirri braut; hitt er að spilla góðu málefni, að hlaupa nú út af brautinni og fara að kúga mótstöðumennina með ofbeldi. Ef aftur á móti væri haldið áfram á þessari sömu braut, sem Góðtemplarar hafa hingað til farið, yrði afleiðingin sú, að menn breyttu smátt og smátt skoðun sinni á vínnautninni, og sá yrði endirinn, að víndrykkja hyrfi innan langs tíma algerlega með þjóð vorri. Eftir þeim miklu breytingum, sem orðið hafa á hugsunarhætti manna í þessum efnum, síðan Góðtemplarreglan hélt innreið sína hér á landi, má búast við því. Aftur þegar á að fara að kúga menn með valdi, verður afleiðingin alveg þveröfug: sú, að menn ekki að eins fyllast kergju við þessi lög og drekka alt að einu (ráðin verða alt af nóg að fara kring um lögin), heldur verður þetta einnig til þess, að minsta kosti hjá allmörgum, að þeir missa virðinguna fyrir lögum yfirleitt, og er þá ver farið en heima setið. Því þar sem hlýðninni við lögin er spilt, þar er einni af máttarstoðum þjóðsiðgæðisins burtu kipt.

Eg álít það þarft og gott verk, að sannfæra menn um, að ofnautn áfengra drykkja sé skaðleg, og af því mér hefir virzt bindindisstefnan ganga í þessa átt, hefi eg verið henni hlyntur, og af þeim ástæðum er það, að eg hefi jafnan, síðan eg fyrst kom á þing, greitt atkvæði með því að Góðtemplarreglunni væri veittur styrkur úr landsjóði. Eg hefi litið svo á, að takmarkinu ætluðu bindindismenn að ná — því takmarki, að útrýma áfengisnautninni með öllu — með frjálsum samtökum. Eg hélt að þeir treystu svo sínum málstað, að þeir vonuðust eftir að geta fengið alla menn með góðu til að hætta að neyta áfengis. En nú, þegar þeir hafa snúið við blaðinu, og í stað þess að leitast við að sannfæra menn um ágæti síns málstaðar, vilja knýja mál sitt fram með kúgun og ofríki, þá get eg ekki lengur verið þeim fylgjandi. Þegar bindindisstarfsemin og fylgi almennings við hana er notuð til þess að knýja fram þvingunarlög sem þessi, þá er ekki verið að vinna að því, að efla siðgæði í landinu, því að öll þvingun og kúgun hefir alveg gagnstæð áhrif. Og eg vona, að eg standi ekki einn uppi með þessa skoðun. Eg býst við, að ærið margir menn, er hingað til hafa verið bindindisstarfseminni hlyntir, snúi nú við henni bakinu, er gripið er til slíkra ráða sem þvingunarlaga.

Eg sagði áðan, að lög þessi gengju óhæfilega langt inn á sérmálasvið einstaklingsins — gengju alt of nærri einstaklingsfrelsinu. Eg skal að vísu játa, að örðugt er að finna því sviði skýr takmörk, og að oft er að ástæðulausu hrópað, að verið sé að skerða einstaklingsfrelsið, en ýms mál eru þó af öllum almenningi viðurkend sérmál einstaklinganna. Eg veit t. d. ekki betur, en að það sé alment viðurkent, að ekki verði með lögum fyrirskipað, hvernig menn skuli fara með sinn eigin líkama, hvernig þeir skuli ganga klæddir, að þeir skuli vera í þykkum og hlýjum fötum á veturna, en þunnum á sumrin, hvort þeir eigi að þvo sér einu sinni eða tvisvar á dag, eða hvað þeir megi borða. Og þó getur það haft afarmikla þýðingu fyrir þjóðfélagið, hvernig menn hegða sér í þessum greinum. Stórt böl getur af því leitt, víki menn hér frá réttum reglum, en eigi að síður snúa menn sér ekki til löggjafarvaldsins, heldur reyna með fortölum og fræðslu að fá menn til þess að laga það sem ábótavant er í fari þeirra í þessu efni. En með þessum lögum er gripið fram fyrir hendurnar á einstaklingunum í hinum allra þrengstu sérmálum — tekin af þeim ráðin með það, hvað þeir megi borða og drekka. Verði frumvarp þetta að lögum, er mönnum ekki að eins fyrirmunað að drekka áfenga drykki, heldur og að borða ýmsan mat, er ekki er hægt að búa til vínlaust. Gamlar húsmæður verða að fara að fylgja nýjum reglum, að því er matargerð snertir, menn geta ekki framar fengið uppáhaldsréttinn sinn, hófsmaðurinn ekki ölglas, templarinn ekki rommbúðing. Nær er varla hægt að ganga einstaklingsfrelsinu.

En áfengið er eitur — segja bannmennimar —, en þá er líka margt annað eitur, sem vér neytum daglega. »Coffein« er t. d. líka eitur. Annars köllum vér ekki annað eitur en það, sem hættulegt er lífi eða heilsu manna, þótt tekið sé í smáum skömtum, og það er áfengið ekki. Menn geta verið við beztu heilsu, þótt þeir hafi drukkið flösku af brennivíni daglega í 40—50 ár. En um þetta tjáir ekki að þrátta, því það er orðin trúarsetning hjá bindindismönnunum.

Afleiðingamar af þessum lögum hljóta að verða þær, að þegar menn finna, að þau brjóta eða koma í bága við eðlilegan og viðurkendan rétt einstaklingsins, þá missa þeir virðingu fyrir lögunum, en þar af leiðir að menn brjóta þessi lög, hvenær sem tækifæri gefst. Og það verða ekki að eins þessi lög, sem fyrir þessari lítilsvirðingu verða, heldur öll lög í heild sinni. Réttarmeðvitund þjóðarinnar er því stofnað í voða með lögum þessum, enda mun lagabrotum fjölga drjúgum. En þar sem búast má við, að menn treysti á fremsta hlunn til þess að brjóta slík þvingunarlög, og þar sem hinu opinbera er ómögulegt að líta svo vel eftir, að ekki takist að brjóta lögin, þá hlýtur öllum að vera það ljóst, að markmiðinu — algerðri útrýming áfengis — ná bindindismennirnir ekki á þennan hátt Það hefir verið sýnt og sannað svo oft áður, að þess gerist ekki þörf að fara út í það hér, að bannlög þessi hafa stórkostlegan tekjumissi fyrir landsjóðinn í för með sér, og það getur enginn sannað mér, að landsmenn græði að sama skapi. Eg er í engum vafa um, að menn leggjast á einhvern annan óþarfa, sé vínið frá þeim tekið, og undarlegt er það, að bindindismenn eru að öðru jöfnu vanalega ekkert efnaðri en hinir sem víns neyta, sé það í hófi. Þá ber þess að gæta, að mjög mikill hluti af andvirði áfengisins rennur í landsjóð sem tollur, leyfisgjöld og árgjöld. Því fé er í raun og veru alls eigi eytt í óþarfa, og missir þess er beinn skaði fyrir landsjóðinn. Ennfremur hafa margir menn atvinnu af sölu og veitingu áfengra drykkja, og þeir fá auðvitað tekjur sinar af því fé, er inn kemur fyrir áfengið; sá hluti andvirðisins fer því heldur ekki í óþarfa. Og síðast en ekki sízt mjög mikill hluti af áfengi því, er til landsins flyzt, er drukkinn af útlendingum. Missinn af toll- og atvinnutekjum af því víni, sem útlendingar kaupa, verður að telja beint peningatjón fyrir landið, og allan tekjumissinn, sem af bannlögunum flýtur, verður landsjóður að vinna upp með nýjum skattálögum.

Hvað undirbúning málsins snertir, felst eg algerlega á röksemdir minnihluta bannalaganefndarinnar í neðri deild, og um það er eg samdóma hinum háttv. þm. Akureyrar, að ekkert mál hefir fengið slíkan undirbúning. Undirbúningnum hefir verið þannig varið, að aðeins annar flokkurinn — bannmennirnir — hefir leitast við að afla málstað sínum fylgis, og til þeirrar »agitationar« hefir hann haft styrk úr landsjóði, en hinir, sem banninu eru andvígir, hafa bókstaflega ekkert gert; eftir slíkan undirbúning var ekki óeðlilegt, þótt ? hlutar kjósenda greiddu atkvæði með banninu; hitt er miklu undarlegra, að bannmennirnir skyldu ekki fá miklu stærri meirihluta. Og í þessum meirihluta eru ekki að eins þeir menn, er bann vilja hafa, heldur og fjöldi annara bindindishlyntra manna, en þessir ? er nei-atkvæðin greiddu, eru allir eindregnir andstæðingar bannlaganna. Það er því í meira lagi óvarlegt hjá háttv. þm. Akureyrar að fullyrða að meiri hluti myndi aftur fást fyrir bannlögum, væru þau borin undir kjósendur landsins að nýju. Eg býst einmitt við að menn færu því meira að hugsa um eðli málsins, að hér er meiri hluti að kúga minni hluta í máli, sem einstaklingamir eiga heimtingu á að ráða, án íhlutunar frá þjóðfélagsins hálfu. Allur undirbúningur málsins hefir verið svo vaxinn, að þeir sem banninu fylgja ættu að forðast að minnast á hann einu orði.

Hinn háttv. þm. Akureyrar sagði, að það væri undarlegt að vilja skjóta þessu máli aftur undir atkvæði þjóðarinnar, jafn skýrt svar og hún hefði gefið 10. september. En í mínum augum er það ekkert undarlegt. Eg vona að almenningur þá áttaði sig á, að hér ei að eins um byrjun að ræða, næst verður tóbakið tekið frá oss, svo ýms matur, sem óhollur er talinn, þá föt, sem ekki er álitið holt að vera í, svo sem lífstykki sem mörg konan hefir skemt sig á, og svo koll af kolli. Dæmin nefni eg bara af handahófi.

Þá skal eg víkja að breytingartillögunum. Eg vil styðja allar breytingartillögur nefndarinnar, því að þær eru allar til bóta, og gangi lögin fram á annað borð, verða þau þó heldur viðunandi, séu þær breytingar samþyktar. En hinn sanni andi bannlaganna kom fram grímulaus í frumvarpsóskapnaði þeim, er fyrst var lagður fyrir þingið, og það er ekki bannmönnum að þakka heldur andstæðingunum, að bætt hefir verið úr hneyxlanlegustu göllunum.

Þá hefi eg leyft mér að koma fram með breytingartillögu á þgskj. 620, er fer í þá átt, að lögin komi ekki til framkvæmda, nema 4/5 hlutar alþingiskjósenda greiði þeim atkvæði sitt við leynilega atkvæðagreiðslu, er fari fram síðari hluta ársins 1910, á sama degi um land alt. Reyndar er eg þeirrar skoðunar, að meiri hlutinn eigi ekki að ráða um slík einstaklingsmál sem hér er um að ræða, en eigi endilega að knýja fram lög, sem þvingi svo og svo marga einstaklinga til þess að eta og drekka annað en þeir vilja, þá er þó ranglætið því umfangsminna, sem mennirnir eru færri er fyrir þvinguninni verða. Eg álít, að greiði meira en ? kjósenda atkvæði gegn lögunum, eigi þau ekki að koma til framkvæmda, því að í raun og veru ætti ekki að lögleiða slíkt bann, þótt það væru að eins örfáir menn, sem í móti stæðu; því hefi eg komið fram með þessa breytingartillögu, og jafnframt með það fyrir augum, að svo mikil heilbrigð skynsemi sé til hjá þessari þjóð, að það verði meira en ? hluti hennar, er sjái hve sú braut er varhugaverð, sem lagt er inn á með lögum þessum, og ljái þeim því ekki atkvæði sitt. Bregðist þjóðin því trausti, verða hinir fáu í þetta skifti eins og oftar að líða fyrir skammsýni fjöldans. Annars finst mér það undarlegt af jafneindregnum þjóðræðismanni og háttv. þm. Akureyrar er, að berjast með hnúum og hnefum á móti því, að málinu sé af nýju skotið undir dóm þjóðarinnar. Hann verður þó að játa, að þótt meiri hluti fengist fyrir banninu 10. sept., þá er engan veginn full vissa fyrir, þegar litið er á undirbúning málsins, að það hafi verið sannfæring manna sem úrslitunum réði í það sinn. Atkvæðagreiðslan var leynileg, segir háttv. þm. — en hvað gagnar leynileg atkvæðagreiðsla, þegar að eins annari hlið málsins er haldið að mönnum.

Þar sem sama háttv. þm. þótti það undarlegt, að heimta nú stærri meiri hluta en þann, er fekst 10. sept, vildi eg að eins benda á, að einmitt hann sjálfur hefir haldið því fram, að ekki bæri að lögleiða aðflutningsbann, nema yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar tjáði sig því fylgjandi. Og fjöldi bindindismanna hefir lýst því yfir bæði í ræðu og riti, að þá fyrst ætti að banna aðflutning áfengis, er það væri að eins orðið örlítið brot af þjóðinni sem í móti mælti.

Eg býst við að háttv. þm. Akureyrar ef til vill svari einhverju af því, er eg nú hefi sagt, og skal eg því láta hér staðar numið að sinni, en tek kanske til máls síðar, gefi umræðurnar mér tilefni til þess.