13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

17. mál, kosningar til Alþingis

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Nefndin hefir álitið, að frumvarpið ætti skilið að verða að lögum, með því að breytingarnar, sem það gerir á lögunum frá 3. okt. 1903, væru til töluverðra bóta Og sumar breytingarnar eru bráðnauðsynlegar, t. d. breytingin í 4. gr. frv., er snertir kosningarrétt blindra manna og annara, sem ekki eru færir um að kjósa á fyrirskipaðan hátt. En jafnframt álítur nefndin að athuga þurfi og breyta enn ýmsum atriðum í kosningarlögunum frá 1903, um fram það, sem ræðir um í þessu frumvarpi. Enda er það mjög eðlilegt, að slík gerbreytingalög, sem kosningalögin, þurfi nokkurra lagfæringa við, eftir að menn hafa fengið tækifæri til að kynnast annmörkum, sem á þeim kynnu að vera í framkvæmdinni. Nefndin hefir sem sagt álitið, að fleira þurfi að athuga en gert er í frumvarpinu, og því hefir hún komið fram með nokkrar breytingartillögur.

Fyrst eru nokkrar breytingar á orðum og innihaldi 1. gr. frumvarpsins. Aðalbreytingin er innifalin í því, að aukakjörskrá skuli samin síðar á árinu en aðalkjörskrá, ekki fyr en í fyrri hluta maímánaðar, og liggja frammi 7 daga, frá 15. maí að telja. Nefndin álítur, að aukaskráin komi að betra gagni á þennan hátt, því að það er oft mjög erfitt fyrir þá, sem kjörskrár semja, að vita hverja ber að færa inn á aukaskrá, ef hún er samin um leið og aðalskráin, þegar í janúarmánuði. Það er ekki gott að vita það í janúar, hverjir kunni að vera búnir að uppfylla skilyrðin til að komast á aukaskrá í byrjun kjörtímabils. Auk þess er þá hægt að setja þá menn á aukaskrána, sem af vangá hafa fallið burt af aðalskránni og ekki geta komið fram með aðfinslur út af því í tæka tíð.

Um 2. breyt.till. er lítið að segja. Hún er að eins um það, að með kærur út af aukaskrá skuli fara sem kærur um aðalskrá, en þó þannig, að frestir allir séu ? styttri. Nefndinni þótti ekki ástæða til að hafa frestina eins langa á þeim tíma árs, sem og á vetrardegi, þegar samgöngur eru einatt erfiðar, og oft ilt að ná til sýslumanns eða bæjarfógeta í tæka tíð. En nauðsynlegt að aukakjörskráin komi til oddvita yfirkjörstjórnar fyrir 1. júlí.

3. breyt.till. er um það, er frambjóðandi deyr eftir að framboðsfrestur er liðinn, eða rétt áður en hann er útrunninn. Eins og nú er, getur oft svo farið, að sá flokkur, sem veitti kjörfylgi hinum dána frambjóðanda, geti engum greitt atkvæði. Úr þessu vill nefndin bæta með því, að þá megi annar maður bjóða sig fram innan 8 daga. Auðvitað getur hið sama líka komið fyrir þrátt fyrir þessa breytingu, nefnilega ef frambjóðandi deyr fyr en 3 sólarhringum áður en framboðsfrestur er liðinn, en þó svo seint, að ekki verði við komið að ná í nýjan frambjóðanda. En slík tilfelli hljóta að verða mjög sjaldgæf, og breytingin því til mikilla bóta. En rétt þennan vill nefndin ekki veita nema fylgjendur hins dána sýni verulegan áhuga og fylgi við hinn nýja frambjóðanda.

Loks er síðasta breyt.till. um það, hvernig fara skuli að þegar kosning ferst fyrir sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum. Í kosningalögunum er að eins gert ráð fyrir að kosning fyrirfarist af því að kjörseðlar glatist, en nefndin álítur réttara að taka það fram berum orðum, að sama gildi og, þó að það stafi af öðrum óviðráðanlegum ástæðum.

Þá er kjördagurinn. Nefndin gat ekki orðið á einu máli um það atriði, og hefir ekki komið fram með neina breyt.till. hvað það snertir, en nefndarmenn áskilja sér rétt til að gera það við 3. umræðu. Það eru mjög skiftar skoðanir um það, hvaða dagur sé heppilegastur kjördagur, og líklega er enginn sá dagur til á árinu, er hentugur sé fyrir alla landshluta.

Eg sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að sinni, en vona að háttvirt deild taki breytingartillögum nefndarinnar vel og láti frumv. ganga áfram sína leið.