27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

21. mál, vígslubiskupar

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Háttv. 5. kgk. þm. byrjaði á því, að það hefði verið nokkur ástæða til stjórnarfrumvarpsins, og þó ekki góð, en til þess að hafa 2 vígslubiskupa, eins og þetta frumvarp fer fram á, væri engin ástæða. Sami háttv. þm. tók það fram, að mjög mikið þyrfti að gera við dómkirkjuna á Hólum, ef þar ætti að geta farið fram vígsla á klerkum. En þetta er tómur misskilningur. Hólakirkja er í fult eins góðu standi og dómkirkjan hér í Reykjavík. Hún er helgur menjagripur og veglegur minnisvarði, sem einn af forfeðrum háttv. 5 kgk. þm. reisti sér. Það var Gísli biskup Magnússon, er lét gera kirkju þessa um og eftir 1750. Það myndi oft geta létt töluvert tilfinnanlegum kostnaði á fátækum prestsefnum norðanlands, ef vígsla gæti farið fram að Hólum. Og varla þyrfti að efa, að biskup myndi oft fela hinum norðlenzka vígslubiskupi að framkvæma vígslur í þeim fjórðungi. Auk þess getur slíkt fyrirkomulag verið mjög heppilegt, ef biskup forfallast, sem oft getur fyrir komið — og einmitt kom fyrir ekki alls fyrir löngu. Það hefir borið til fyrir skömmu, að annar maður hefir orðið að framkvæma vígsluathöfnina, sakir sjúkleika biskups.

Háttv. 5. kgk. þm. vék því að prestastéttinni, að hún hefði ekki verið þeim breytingum fylgjandi, er til bóta hefðu horft fyrir land þetta. En því verð eg að neita. Prestastéttin á engan veginn það álas skilið. Að ólastaðri þjóðhollustu allra verzlegu embættismannanna, sem hér hafa völd haft frá útlendu valdi, oft og tíðum oss miður hollu, hafa afskifti klerkastéttarinnar af landsmálum verið fult eins holl og þessara valdsmanna, og fult svo margir nýtir menn meðal prestastéttarinnar, sem meðal þeirra, já margfalt nýtari oft og tíðum.