04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

**) Eg hefi það að segja um breytingartillögurnar viðvíkjandi símunum, að eg er hvorki samdóma 4. kgk. þm. eða ráðherra um, að þar sé sparnaður rangur. Og hvað Siglufjarðarsímann snertir, þá er alt hið sama að segja, Eins og mér hefir skilist á 4. kgk. þm. og símastjóranum, þá er ætlunin, að þessi nýi sími verði ekki fullkominn, og óvíst að hverju haldi hann kemur. Eg mun þó vera með Valla-símanum. En eg skil hins vegar ekki, hvers vegna endilega þarf þar að vera koparþráður; og hlít eg að álíta, að stálþráður muni nægja, þar sem hann flytur nær eins vel og koparþráður. Ef því miklu munar á verði stálþráðar og koparþráðar að Völlum, þá er rétt að velja hinn ódýrari, og það því fremur, sem stálþráður mun að öllu samtöldu reynast alt að því jafngóður.

Hvað snertir athugasemdina við 13. gr. C., sem 4. kgk. þm. talaði á móti, þá hefir hæstv. ráðherra tekið af mér ómakið að svara því atriði, og skal eg ekki orðlengja um það, og hygg eg réttast að láta athugasemd þá standa. Og held eg að það geti orðið hvöt fyrir stjórnina til að fá betri kjör. Það; er óhugsandi, að nokkurt félag gangi að slíkum skilyrðum, þegar ekki er um lengri tíma að ræða en að eins tveggja ára tímabil. Félag sem hefir góð skip fer ekki að ráða sig upp á svo stuttan tíma. Finst mér alls ekki hætt við að stjórnin muni misbrúka þessa heimild. Yrði stjórnin búin á næsta þingi að koma þessu í kring, þá liggur næst að hún á því þingi leggi fram gjörðir sínar.

Háttv. 4. kgk. þm. mintist nokkuð á viðskifti við Hamborg. Eg hygg að það sé rétt, að það mundi verða oss til mikils hagræðis, að fá aukin viðskifti við Hamborg; og bjóst háttv. ræðum. við, að það gæti orðið hlutverk verzunarráðunautanna, að koma þeim á. En þó viðskiftin vaxi, til hvers væri það, ef flutningafærin vantaði; og er það í þessu efni hið fyrsta og sem mest á ríður, að koma þeim í gott horf. Einmitt þetta, að geta fengið beinar ferðir, er það sem svo afarmikið ríður, og tel eg það eitt hið vandasamasta mál og jafnframt nauðsynjamál, að ryðja til hlítar þær brautir. Eg skal játa, að mér þykir athugasemdin hvergi nærri svo nákvæm sem skyldi; en eg treysti því jafnframt, að stjórnin muni ekki misbrúka heimild sína. En það kalla eg að misbrúka, ef gömul skip verða notuð til ferðanna, þó ferðirnar verði fleiri. Það þurfa að vera góð skip, sem notuð eru til ferðanna; það kemur alls ekki alt upp á að hafa ferðirnar mjög margar, heldur miklu meira upp á hitt, að hafa skipin góð, samsvarandi tímans kröfum. Því tel eg vel til vinnandi, að hafa ferðirnar heldur færri, en fleiri ferðir með slíkum skipum sem dallar »Samein. félagsins« eru, og sömuleiðis mörg af skipum Thore. Einmitt þetta álít eg að sé gott að komi fram og standi í þingtíðindunum, svo að stjórninni gefist kostur á að sjá, að þessi athugasemd hefir fram komið í þessu sambandi.

Viðvíkjandi kröfum verkfræðingsins um að fá 1000 kr. í viðbót til að taka að sér vitana, þá hefir því verið breytt. Aðgætandi er, að hin föstu laun hans eru 3000 kr. auk þessara 700 kr. í launaviðbót; og er þá ekki annað sjáanlegt, en að það sé full sæmileg upphæð. Að hann geti betur passað að á vitunum logi ef hann hefir þeim mun meira fé að launum sem til var tekið, er ekki takandi í mál.

Ráðherra talaði um, að full langt væri gengið í sparnaðaráttina hvað vegabæturnar snerti. En býsna langt er farið að segja, að nú megi heita hætt við vegabætur, þar sem þó ekki minni upphæð en 240 þúsundir ganga til vegabóta. Ræða hans í þessu efni sannfærði mig ekki; og atkvæði mínu breyti eg ekki. Hann sagði, að Grímsnesbrautin væri ekki í áætluninni; það er að vísu rétt. En 10 þús. kr. eru þó ætlaðar til að bæta verstu torfærurnar á henni, svo hún getur tæplega talist algjörlega afskift, þótt ekki sé hún sett sérstaklega á fjárlögin. — Viðvíkjandi vagnflutningunum við Lagarfljót er það að segja, að ráðherra taldi það sama sem að þeir tækist af, ef vegur væri ekki lagður. Það er alls ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Að vísu skal eg viðurkenna, að torfærur eru talsverðar á þeirri leið af völdum vatns, sem yfir veginn rennur; en oft er líka bezta færð á veginum; og yfir höfuð má það heita gæða reiðvegur. Að svo mæltu skal eg ekki lengja umræðurnar lengur í þetta sinn.

) Ræða þessi virðist ekki hafa verið leiðr. Útg.