31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

36. mál, sala á Kjarna

Ari Jónsson:

Eg ætlaði að fresta að tala, þar til háttv. 5. kgk. þm. hefði talað í annað sinn, ef ske kynni, að hann segði eitthvað, sem eg þyrfti að svara, því að framsögumaður hefir þegar hrakið það, sem enn hefir verið fundið frumv. til foráttu. En ég vildi taka betur fram, en áður hefir gert verið skoðun mína á forkaupsrétti þjóðjarða og jarðeigna einstakra manna. Það voru nokkur orð hjá háttv. 5. kgk. þm., sem eg sérstaklega vildi taka til athugunar. Hann færði sem ástæðu móti því, að selja Akureyri Kjarna, að það stríddi á móti rétti ábúandans og hreppsins. Það skiftir nú engu í þessu máli, hvort menn vilja líta svo á, sem ábúandinn hafi forkaupsrétt eða ekki, því að hann hefir þegar afsalað sér þeim rétti og yfirfært hann á Akureyrarkaupstað. Og þá verður fyrir okkur spurningin, hvort Hrafnagilshreppur hafi forkaupsrétt að Kjarna? Og það er mjög þýðingarmikið atriði, — það er nefnilega spurningin um, hvort lögin um forkaupsrétt leiguliða gildi um þjóðjarðir eða ekki —, hvorki meira né minna. Eg skal játa það, að við fyrsta álit bendir texti laganna helzt til að þau eigi við allar jarðir, og er því ekki óeðlilegt, þótt hinum háttv. 5. kgk. þm. hefði virzt svo í byrjun, en hann hefði átt að hafa sömu aðferð til þess að leita að þýðingu laganna, sem aðrir lögfræðingar, þegar texti laganna er vafasamur. Fyrst og fremst athuga þeir, hvort ekki séu nein önnur lög, sem takmarki svæði það að einhverju leyti, sem hin einstöku lög gilda á. Síðan leita þeir að vilja laganna, með því að rannsaka athugasemdirnar, sem þeim fylgja, umræðumar, sem um þau hafa orðið á þingunum, og álit nefnda þeirra, er um þau hafa fjallað. Mín skoðun er sú, að lögin um forkaupsrétt leiguliða gildi alls ekki um þjóðjarðir, og það byggi eg meðal annars á sögu laganna, sem eg vona að háttv. deildarmönnum sé kunn, og skal eg því að eins drepa á örfá atriði. Lögin um forkaupsrétt leiguliða eru fyrst komin frá milliþinganefnd, og þá hét frumv.: »Frumvarp til laga um forkaupsrétt á jarðeignum einstakra manna«. Nefndin færir sem ástæðu fyrir frumv. þessu, að jafnframt komi lög um þjóðjarðasölu, og sé því sérstök ástæða til að tryggja leiguliðum á einstakra manna eignum forkaupsrétt, einkum þegar þess sé gætt, að kjör þeirra séu alla jafnan lakari en leiguliða þeirra, er á þjóðjörðum búa. Ennfremur áttu og lögin að miða að því að auka sjálfsábúð, og koma í veg fyrir, að einstakir menn eignist alt of miklar jarðeignir.

Alt þetta bendir ótvírætt í þá átt, að nefndin hafi að eins ætlað lögunum að ná til eigna einstakra manna.

Því næst fær stjórnarráðið málið til meðferðar, og eru athugasemdir þess í fullu samræmi við tillögur milliþinganefndarinnar.

Í athugasemdunum er meðal annars komist svo að orði: »Eins og í frumvarpi nefndarinnar, er forkaupsréttur leiguliða bundinn við það, að jarðeignir ganga kaupum og sölum (privat)«. . . . Eg get ekki hugsað mér, að nokkur stjórn komist þannig að orði, ef hún meinar þjóðjarðir. Ekkert sem um málið var sagt eða skrifað á þinginu — hvorki í efri eða neðri deild — raskar neitt gildi þess, er eg hefi tilfært til sönnunar mínu máli. Það var sama þingnefndin, sem fjallaði um lögin um forkaupsrétt leiguliða og þjóðjarðasölulögin, og er ólíklegt, að þeir hafi ætlað lögunum um forkaupsrétt leiguliða að ná til þjóðjarða, því að þá kemur 2. gr. þjóðjarðasölulaganna ekki að fullu gagni.

Hvortveggja lögin verða auðvitað að skiljast á þann hátt, að þau komi bæði að fullum notum, og það gera þau, ef lögin um forkaupsrétt leiguliða að eins taka til eigna einstakra manna, en ekki þjóðjarða.

Enn skal eg benda á eitt, sem út af fyrir sig er næg sönnun þess, að hreppurinn hefir ekki forkaupsrétt að því er þjóðjarðir snertir. Slíkt ákvæði, að hreppurinn skyldi hafa forkaupsrétt, stóð nefnilega upprunalega í þjóðjarðasölulögunum, en var kipt burt af löggjafanum, auðvitað af því að hann ætlaðist ekki til, að hreppurinn hefði slíkan rétt.