14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

46. mál, verslunarbækur

Framsögumaður (Ágúst Flygenring):

Það er talsverður kostnaður við að löggilda frumbækurnar, sérstaklega þegar þess er gætt, að nú er farið víða að nota litlar bækur, og rita aðeins eina úttekt á hverja síðu, sem er miklu greinilegra. Auk þess hefir reynslan ekki sýnt, að nein hætta stafaði af því, að hafa frumbækurnar ólöggiltar. Mér vitanlega hefir aldrei fallið grunur á nokkurn kaupmann um að hafa rifið upp úr frumbókinni. Hins vegar hafa oft orðið þrætur um viðskifti, vegna þess að ekki varð séð af frumbókinni, hver tók á móti vörunni, né við hvaða verði hún var seld, og jafnvel stundum ekki, hvað mikið hafði verið tekið út af henni. En eg skal reyna að hugsa um, hvort ekki er hægt að finna neitt praktískara form til þess að ná þeim tilgangi, er hér er um að ræða, heldur en að löggilda frumbókina. (Lárus H. Bjarnason: Færa gjaldið niður). Ef hinn háttv. 5. kgk. þm. getur fundið leið til þess, án þess að koma í bága við aukatekjulögin, þá skal eg ekki verða því mótfallinn, að skylt sé að löggilda frumbækurnar. Hvað snertir bréf, er verzlanir fá, sem háttv. 5. kgk. þm. vildi að færð væru inn í bréfabók, þá er það siður að raða þeim í möppur, þar sem mjög auðvelt er að finna hvert einstakt bréf, svo að óþarfi virðist að færa þau inn í sérstaka bók, sem væri mikill starfsauki fyrir allar stærri verzlanir.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 5. kgk. þm. sagði um hegningarákvæði 7. gr., skal eg geta þess, að það var talið nauðsynlegt, sakir þess að fölsun væri ekki nefnd í hinum almennu hegningarlögum, en ef svo er, þá er sjálfsagt að hafa greinina í samræmi við ákvæði hegningarlaganna. Eg felli mig vel við að vísað verði til 2. gr. í 8. gr., eins og háttv. 5. kgk. þm. stakk upp á. Annars mun nefndin taka þær athugasemdir og bendingar, sem fram eru komnar, til rækilegrar íhugunar, og gera sér alt far um, að öll ákvæði laganna verði sem skýrust, og geri viðskiftin tryggari.