17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

46. mál, verslunarbækur

Framsögumaður (Ágúst Flygenring):

Nefndin hefir tekið til athugunar uppástungur þær, er fram komu við 2. umræðu hér í deildinni, og sömuleiðis borið sig saman við nefnd þá, er hafði málið til athugunar í háttv. neðri deild.

1. br.till. á þsk. 486 um að ekki þurfi að rita í höfuðbók nema samanlagðar upphæðir þær í krónum og aurum, sem útá er tekið eða lagt inn fyrir í hvert skifti, er gerð í samráði við nefndina í neðri deild, enda tíðkast slík bókfærsla í útlöndum. Það virðist vera með öllu óþarft, að heimta að annað sé fært í höfuðbók, en upphæðirnar, því að allar nauðsynlegar upplýsingar um hina einstöku liði má fá af frumbókinni, sé hún rituð eftir fyrirmælum 2. gr. Meiningin er líka sú, að í höfuðbókinni sé vísað til blaðsíðu í frumbókinni, svo að auðvelt sé að finna hverja einstaka úttekt.

Breytingarnar að því er hegningarákvæðin í 4. og 7. gr. snertir — að fella betrunarhús burt úr 4. gr og setja »2 ár« inn í 7. gr., sem hámark refsingarinnar — eru gerðar eftir bendingum þeim, er komu frá háttv. 5. kgk. þm. við 2. umræðu þessa máls. Það er líka eftir bendingu frá sama háttv. þm., að nefndin stingur upp á, að það sé tekið fram berum orðum í 8. gr., að bókin hafi því aðeins sönnunargildi, að hún sé færð eftir fyrirmælum 2. gr.

Það komu fleiri bendingar fram við 2. umræðu; sérstaklega lagði einn háttv. þm. mikla áherzlu á, að nauðsynlegt væri að frumbækurnar væru löggiltar. Nefndin er því mótfallin nú eins og við 1. umr. og af sömu ástæðum. Eg hefi heldur aldrei heyrt þess getið, að deilur hafi risið út af því, að rifið hafi verið upp úr frumbók blað, eða grunur hafi fallið á nokkurn kaupmann um að falsa frumbókina, og þó eru enn minni líkur til að slíkt geti komið fyrir hér eftir, þar sem lög þessi ætlast til að viðskiftamaðurinn fá reikning í hvert skifti sem hann tekur eitthvað út. Eg hefi átt tal við verzlunarfróða menn í Nd., og eru þeir mér alveg samdóma um þetta atriði.

Eg tek þetta fram fyrirfram, því að eg býst ef til vill við, að á það verði minst í umræðunum, og vildi eg þá helzt komast hjá að þurfa að standa upp aftur.