14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

48. mál, eignarnámsheimild

Sigurður Stefánsson:

Eg skal leyfa mér að skýra hinni háttv. deild frá, hvernig á því stendur að eg hefi ekki flutt þetta frumv. fyr á þinginu. Bæjarstjórnin á Ísafirði vill bæta við skólahúsbyggingu sína, en hún stendur við eina aðalgötu bæjarins á jaðri lóðar sem er prívateign, og kaupstaðurinn hefir því ekki ráð yfir. Á bæjarstjórnarfundi hefir verið samþykt áskorun um það, að fá löggjafarvaldið til að veita bæjarstjórninni heimild til að láta eignarnám fara fram á lóðinni, en bæjarfógeti gleymdi að afhenda mér skjölin. Fyrir nokkrum dögum talaði bæjarfógeti við mig í síma og spurði mig hvernig stæði á því að frumvarpið væri ekki komið fram, og svaraði eg að það kæmi til af því, að eg hefði ekki enn fengið neina vitneskju um mál þetta. Það varð að samkomulagi með okkur, að eg skyldi samt flytja þetta frumvarp, þó áliðið væri þingtímans.

Bæjarstjórnin vill byrja á byggingunni á næsta ári, en vilji eigandi ekki selja lóðina, þá getur hún það ekki nema þessi heimild til eignarnáms fáist. Eg skal taka það fram, að lóðin er sérstakt tún, sem er eign einnar stærstu verzlunarinnar á Ísafirði, Tangsverzlunar. Jafnframt skal eg geta þess, að auðvitað mun bæjarstjórnin ekki neyta þessarar heimildar, ef hún kemst að góðum kjörum við eigandann. Eg vona að háttv. deild veiti undanþágu frá 18. gr. þsk. og leyfi að málið sé tekið til meðferðar í deildinni þó seint komi. Við 2. umr. mun eg gera grein fyrir hinum einstöku greinum frumv. Annars mun eg taka með þakklæti bendingum frá lögfræðingum um það.