25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

53. mál, sóknargjöld

Kristinn Daníelsson:

Ræður hv. deildarmanna um þetta mál í dag hafa allar lotið að málinu í heild sinni, og hefðu því átt að koma fram við 1. umræðu. Eg skal játa það, að eg felst að ýmsu leyti á athugasemdir háttv. þm. G.-K. En eg er ekki fullráðinn í því enn, hvernig atkvæði mitt muni falla í þessu máli. Eg mun nú greiða atkvæði með frumv. til 3. umræðu, en áskil mér rétt til að gera grein fyrir því, þegar þar að kemur, hvort eg verð með frumv. eða móti.

Í niðurlagi 3. gr. frumv. samkvæmt 4. breyttill. nefndarinnar er ákvæði um að prófastur geti haldið sóknarnefnd til að gera skil, með alt að 1 kr. dagsektum. Þetta ákvæði vildi eg leggja til að falli burt, því að eg veit ekki betur en að samskonar ákvæði í öðrum efnum hafi reynst alveg þýðingarlaus, t. d. um skil hreppsnefnda.

Í viðaukagrein, sem nefndin vill bæta við 8. gr. frumv. (sem verður 9. gr.), þætti mér fara betur að breyta: » — og er gjalddagi — « í: » — og er þá gjalddagi — «, af því að áður er ákveðið undantekningarlaust, hvenær gjalddagi sé. En þetta er auðvitað lítilfjörlegt atriði.

Fleira hefi eg ekki að segja um málið á þessu stigi.