18.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

56. mál, byggingarsjóður

Ráðherra (H. H.):

Eg veit ekki við hvað hv. þm G.-K. miðar »hjartastað« bæjarins og landsins. Ef hann ekki á við eitthvað, sem er of háfleygt fyrir almennan skilning, þá hygg eg að hann tali hér ekki af nægum kunnugleika, því að vissulega eru til þeir skikar aust-norðantil á Arnarhólseigninni og víðar á því svæði, sem engum mundi detta í hug að nefna slíku nafni, frá verzlunar- og viðskiftasjónarmiði eða fyrir sakir annara kosta; talsvert af því hefir fátt um fram aðra staði í Skuggahverfinu.

Mér dylst það ekki, að háttv. þm. halda að lóðir séu hér í hærra verði en raun er á. Stórar lóðir hér í bæ, er fyrir tveim árum var haldið í 3 kr. ? al., eru nú í orði kveðnu seldar á 2kr., en í rauninni aðeins á 1 kr. ? al. Lóðarverðið fyrir 2 árum síðan var óeðlilegt. Það var spent upp gengdarlaust, og oft aðeins á pappírnum. Hefir það alls ekki verið neinum til góðs, en orðið til þess að »villa heimildir« á viðskiftum og verðmæti. Það er óholt og getur aðeins aflað einstöku mönnum augnabliks ávinnings, en er almenningi tilskaða og getur ekki orðið til frambúðar.