22.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

57. mál, lögaldur

Sigurður Stefánsson:

Eg hefi ekkert á móti nefnd. Eg er þakklátur háttv. 5. kgk. þm. fyrir upplýsingar hans, sem eg veit að eru réttar. Það er mér ljóst, að þetta frumv., ef það verður að lögum, snertir mjög viðskiftalífið. Eg verð að álíta, að það sé ekki svo mjög varhugavert að leyfa mönnum 21 árs að taka á sig peningaábyrgðir. Eftir núgildandi lögum leyfist þeim að takast á hendur ábyrgðir, sem í raun og vera eru miklu meira verðar en allháar peningaábyrgðir, og það áður en þeir eru 21 árs. Karlmenn hafa leyfi til að kvongast og þar með leggja grundvöllinn undir þjóðfélagið með heimilislífinu. Hálfmyndugleikinn var leiddur hér í lög með tilskipun 21. des. 1831. Til þess tíma voru menn fullmyndugir 20 ára, en hálfmyndugleiki ekki til í íslenzkum lögum. Að vísu var viðskiftalífið ekki eins margbrotið þá og nú. En hins vegar ber þess að gæta, að þjóðin hefir þroskast á þessu tímabili. Það var ekki minni hætta þá að binda myndugleikatakmarkið við 25 ára aldurinn en nú við 21 ár. Tilsjónarmenskan er ærið hvimleið, bæði fyrir tilsjónarmanninn og hinn hálfmynduga. Tilsjónarmaður er alveg einvaldur gagnvart hinum hálfmynduga, er ekki getur rekið réttar síns gagnvart honum fyr en hann er orðinn myndugur.