15.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Steingrímur Jónsson:

Það er ekki rétt hjá háttv. þm. V.-Sk. að eg hafi sagt í nefndinni, að búið væri að semja áætlun fyrir bátinn, sem ekki mætti breyta. Eg skýrði frá því, að í febrúarbyrjun hefði komið tilboð með meðfylgjandi ferðaáætlun frá eigendum bátsins á Seyðisfirði til sýslunefndanna í Þingeyjarsýslu og Múlasýslunum, og að maður úr Norður-Þingeyjarsýslu hefði verið staddur undanfarið á Seyðisfirði, til að semja um þetta. Þegar tilboðið kom og samningarnir hófust, var að vísu engin von komin um styrk, en þegar verið var að semja á Seyðisfirði, höfðu menn góða von um hann. Bátnum var ætlað að fara frá Seyðisfirði 5 ferðir norður og 6 ferðir suður, og við það er engu hægt að bæta; þetta »plan« er ómögulegt, ef báturinn á að fara 3 ferðir til Víkur og Vestmanneyja, einsog samþykt var við 2. umræðu, og því kem eg með þessa breyt.till. Málið skiftir mig að vísu ekki miklu, því aðeins einn hreppur í Norður-Þingeyjarsýslu hefir gagn af þessu, en eg hefi tekið að mér að bera málið fram á þingi, og verð því að skýra frá málavöxtum, eins og þeir eru. — Eg hygg að háttv. deild ætti að fara varlega í það, að breyta frv., og tel ekki rétt að ætlast til, að Nd. athugi málið betur og breyti til bóta; það gæti farið svo, að frv. kæmi ekki hingað aftur.

Út af tillögu háttv. þm. Strand. um fjárveitinguna til Garðars Gíslasonar, skal eg geta þess, að eg tel auðvitað sjálfsagt, að stjórnin geri samning við hann, meðal annars af því, að í tilboðinu er ekkert ákveðið sagt um, hvað í boði er. Þar er aðeins talað um einhverjar ferðir, einhversstaðar í nánd við Reykjavík. En samt sé eg ekki, að þingið sé útilokað frá því, að heimta sjálfsagðar tryggingar um leið og það veitir féð. Þingið hefir vanalega veitt fé til slíkra fyrirtækja eftir á, en aldrei borgað fyrirfram fyrir tveggja ára verk. Eg kalla þetta fyrirfram borgun fyrir óunnið verk, af því að okkur er ekki ætlað að eiga vagninn, þó í tillögunni standi: »til mótorvagnskaupa«, heldur veitum vér féð í raun og veru til að halda uppi ferðunum, ef við veitum það. Eg stend við það, að mér virðist þessi fjárveiting áhættumikil, og get því ekki greitt henni atkvæði. Það má vera, að mótorvagnar séu flutningstæki framtíðarinnar, en eg þykist viss um, að þeir verða það aldrei á þeim vegum, sem við höfum nú; við verðum að leggja miklu betri vegi, ef mótorvagnar eiga að geta gengið á þeim. Auk þess vil eg benda á, að til þessa hafa mótorvagnar verið meir brúkaðir til mannflutninga og eru betur lagaðir til þess, en til þungavöruflutninga. Þess vegna geta þeir varla komið í stað járnbrauta. Að því er viðhaldsskylduna snertir, skal eg taka það fram enn, að eg get ekki skilið það öðru vísi, en að það sé skylda til að halda vegunum færum fyrir mótorvagna. Það liggur í hlutarins eðli, að þetta hlýtur að vera meint, og verði fjárveitingin samþykt, hefir stjórnin að mínu áliti enga heimild til að setja í samninginn það skilyrði, að vegirnir skuli aðeins vera slarkfærir fyrir hestavagna. Viðhaldsskyldan getur orðið okkur afar þung; og auk þess getur hún orðið til þess, að ekki verði hægt að heimta féð aftur, ef tilraunin mishepnast. Auk þess get eg ekki skilið að hægt sé að fá góðan mótorvagn fyrir 8000 kr.; þeir mótorar, sem eiga að brúkast hér á landi, verða að vera mjög sterkir; eg get hugsað mér, að 10 til 20 þús. kr. mundi vera hæfilegt verð. Sá eini mótorvagn, sem til er á Íslandi, kostaði á 6. þús. kr., en hann er ekki gerður til að fara upp fjöll, heldur aðeins fyrir slétta vegi. — Garðar lofar að annast póstflutning, en það er ekki

sýnt, hvernig það gengur. Eg hygg að póstflutningur til Odda sé meiri en svo, að einn vagn nægi. Og ef samið er við manninn um póstflutning og vagninn nægir ekki, eða tilraunin mishepnast, hvar stöndum við þá? Póstinn þarf að flytja eigi að síður.