13.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

64. mál, bókasafn vesturlands

Lárus H. Bjarnason:

Það gekk alveg yfir mig, þegar eg heyrði háttv. þingm. Ísfirðinga segja það beint á móti dagsbirtunni, að eigi gæti réttlátara mál en þetta. Mig furðaði að hann, presturinn, skyldi bera slíkt fram.

Það stendur nú að vísu öðrum nær en mér að verja bókasafnið í Stykkishólmi, en eftir atvikum, sem liggja að málinu, er frumvarp þetta svo ranglátt, að eg get ekki þegjandi látið það ganga fram hjá mér.

Nálega alt, sem háttv. þm. sagði í ræðu sinni, var málinu óviðkomandi. Að eins eitt atriði í ræðu hans snerti málið, en það atriði var ekki satt. Eg á við það er hann sagði, að bókasafnið í Stykkishólmi væri opinber eign eða landsjóðseign. Þetta hefði verið mikilvæg ástæða, ef það hefði verið satt. En það er þvert á móti. Því það nær engri átt að kalla safnið landsjóðseign eða opinbera eign. Það er eign nokkurra sérstakra tiltekinna héraða. Stofnanir einstakra manna, hreppa eða héraða verða ekki heldur opinber eign eða landsjóðseign, þó að þær njóti styrks af landsjóðsfé. Bókmentafélagið, t. d. að taka, er styrkt af landsjóðsfé. En hver vill halda því fram, að eignir þess séu landsjóðseignir, og alþingi bært um að ráðstafa þeim? Eða hússtjórnarskólinn og fleiri slík fyrirtæki, sem njóta eða notið hafa styrks af landsfé.

Sú ástæða, að Ísafjörður sé mannmargur, á ekki við á þessu stigi málsins, þar sem búið er að ráðstafa safninu. Það er ástæða, sem hefði mátt hreyfa, ef hún hefði komið fram á réttum stað og tíma, á amtsráðsfundunum, sem ráðstöfuðu amtsbókasafninu í Stykkishólmi. Á þeim fundum, fundunum 1906 og 1907, var málið löglega útkljáð. Á fundinum 1906 mættu fulltrúar úr öllum sýslufélögum amtsins, og þar var gerð svo hljóðandi samþykt um safnið:

»Út af framkominni málaleitun um ráðstöfun amtsbókasafnsins í Stykkishólmi, lýsir amtsráðið því yfir í einu hljóði, að það telji rétt, að safnið standi framvegis óskift í Stykkishólmi, þó að því tilskildu, að amtsbúar hafi eftir sem áður aðgang að safninu með sömu kjörum eins og nú, og að hreppsnefndin í Stykkishólmi og sýslunefndin í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, önnurhvor eða báðar, standist allan kostnað af safninu framvegis og auki það árlega eftir föngum«.

Þetta var samþykt með öllum atkvæðum. Að vísu mætti háttv. þm., sem átti sæti í amtsráðinu, ekki á fundinum, en varamaður hans mætti, og þannig voru báðir fulltrúarnir úr Ísafjarðarsýslu sammála öðrum amtsráðsmönnum um þessa ráðstöfun, sem þm. nú ræðst á. Þingm. hefði verið nær að mæta með þessi mótmæli sín á réttum stað og stundu, en hreyfa þeim nú eftir dúk og disk.

Enginn getur efast um að amtsráðið átti safnið og var því eitt bært um að ráðstafa því.

Árið 1907 var málið borið aftur upp á fundi amtsráðsins; þar mættu einnig fulltrúar úr öllum sýslufélögum amtsins nema tveimur, og þar var aftur ákveðið með öllum atkvæðum að afhenda sýslunefndinni í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu safnið samkvæmt tilboði hennar um að taka ein við því.

Hér er því enginn vafi á því að löglegri amtseign er ráðstafað á löglegan hátt. Og ef þingið ætlar að fara að gera nýja ráðstöfun þvert ofan í löglega ráðstöfun eigandans, þá er það hreinn og beinn ránskapur og brot á 50. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir eignarréttinn friðhelgan.

Það er því nokkuð undarlegt að heyra þann mann, sem gengst fyrir slíku, hæla sér af því göfuglyndi að hann taki ekki allar fjaðrirnar af fuglinum, hæla sér af því, að safnið eigi að fá að halda nokkrum ómerkilegum fjöðrum af þeim, sem það á eitt allar. Honum fer líkt og stigamanni, sem rænir vegfaranda inn að skyrtunni, og hælir sér svo af því að hann hafi þó lofað honum að halda nærfötunum.

Það er ekki svo að skilja, að eg sé neitt hræddur við það, þó þingið samþykki frumv. þm.; því að stjórnarnefnd safnsins í Stykkishólmi getur virt slík lög að vettugi. Það eru dómstólarnir sem skera úr því, hvort löggjafarvaldið hafi haldið sér innan réttra takmarka, og enginn dómstóll mundi álíta, að alþingi væri bært um að ráðstafa eignum einstakra manna eða stofnana þvert ofan í ráðstafanir eigenda.

Það er enginn vegur til að flytja safnið úr Stykkishólmi, meðan þau skilyrði eru uppfylt, sem réttur hlutaðeigandi, amtsráðið, hefir sett fyrir því, að safnið verði þar kyrt og óskift. Hins vegar getur meiri hlutinn náttúrlega neitað safninu um styrk af landsfé og þannig ef til vill svelt það í hel.

Háttv. þingm. Ísf. virtist sannfærast um þetta á þinginu 1907, þegar hæstv. ráðherra hafði lýst því yfir, að ráðstöfun amtsráðsins yrði ekki breytt, því þá sneri hann við blaðinu og beitti sér fyrir því, að þingið minkaði styrkinn til Stykkishólmssafnsins og veitti nokkuð af honum til safnsins á Ísafirði. Það lánaðist ekki að lækka styrkinn til Stykkishólmssafnsins, en hann fekk þó nokkur hundruð krónur til síns safns, og sé eg alls ekki eftir því.

Það er þannig svo langt frá því að þetta mál sé sanngjarnt, að það er þvert á móti óframbærilegt og enda ósæmilegt. Ef einu sinni er farið út á þá braut, að búa til lög til þess að ná lögmætri eign einstakra héraða eða stofnana frá þeim eða svifta þau á annan hátt umráðarétti yfir eignum þeirra, þá er löggjafarvaldið komið út á þá hálku, sem ilt væri að fóta sig á. Þá mætti fara eins með einstaka menn; þá væri í rauninni öll trygging fyrir eignarrétti og öðrum rétti úr sögunni.

Eg tek það upp aftur, að háttv. þm. hefði átt að koma fram með ástæður sínar á amtsráðsfundinum 1906. Annars er það ekki rétt að fara hér eingöngu eftir því, hvar flestir eru mennirnir. Safnið er ekki til fyrir einn kaupstað að eins, heldur fyrir alla íbúa amtsins, og þess vegna á að fara eftir því, hvar safninu er bezt í sveit komið, hvar það er bezt sett til þess að allir geti haft not af því, og að því leyti er Stykkishólmur hentugri staður en þessi Þorskafjörður, eg bið forláts, Ísafjörður. Auðvitað er Ísafjörður hentugri fyrir Ísfirðinga. En Mýrasýsla, Snæfellsness- og Hnappadalssýsla, Dalasýsla og Austur-Barðastrandarsýsla eiga allar hægra með að nota safnið í Stykkishólmi.

Það er líka rangt, að engir hafi notað safnið í Stykkishólmi nema kaupstaðarbúar þar og nágrennið. Mér er kunnugt um það, af því eg hefi verið í stjórn safnsins frá 1895—1906, að það var notað mikið af mönnum í ýmsum héruðum, einnig af samsýslungum hins háttv. þingm. Ísafjarðarkaupst. Þetta hefir hann því sagt af vanþekkingu. (Sig Stef: Nei). Þá vísvitandi ósatt. Það voru víða myndaðir »hringir« til þess að hagnýta sér safnið sem bezt. Menn fengu margar bækur í einu og létu þær ganga milli sín. Safnið var notað frá Dýrafirði, Önundarfirði, Ísafirði, Flatey, Búðardal, Ólafsvík og víðar að, í stuttu máli alstaðar að, nema eg man ekki eftir að það væri notað úr Mýrasýslu.

Alt, sem háttv. þingm. flutti fram í ræðu sinni með mikilli málsnild og ákefð, hefir þannig annaðhvort komið of seint fram, ekki átt við eða verið beint ranghermt.

Eg veit ekki hvað hann átti við með því að skjóta því fram, að safnið væri undarlega lítið, svo mjög sem það hefði verið styrkt af almannafé. Eg veit ekki hvort hann vill væna mig eða aðra stjórnendur safnsins þess, að eg eða þeir hafi hnuplað bókum frá safninu. En eg get frætt háttv. þingm. um það, að bindin eru fleiri en hann gerir ráð fyrir, og að eg lagði alt af meiri áherzlu á að kaupa góðar bækur en margar bækur. Það er ekki heldur rétt, að bókasafnið á Ísafirði hafi á stuttum tíma eignast öll þau bindi, sem þar eru nú, því að þar var komið upp töluvert safn þegar eg var á Ísafirði fyrir 15 árum. Annars sýndi það sig 1907 og sýnir sig aftur nú, að þingm. er mál þetta ofmikið kappsmál. Hann játaði því 1907, að sér hefði þá ekki verið kunnugt um ráðstöfun amtsráðsfundar á safninu 1906/07; játaði einnig, að ekki gæti orðið af flutningi úr því sem komið væri, eftir að ráðherra hafði frætt hann um ráðstöfun amtsráðsins á safninu, og þessu hefir hann annaðhvort verið búinn að gleyma eða hann hefir nú álitið sér alt fært, en »Littera manet« . Það gerir ekkert til þó að háttv. þingm. hafi ekki munað það sjálfur, það eru aðrir sem mundu það, og nú gefst háttv. deildarmönnum kostur á að dæma milli mín og hans.