03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

86. mál, Landsbankarannsókn

Ráðherra (B. J.):

Ef nokkuð væri að dást að í frammistöðu hávirðulegs fyrirspyrjanda í þessu máli, þá væri það þetta, hve þrautseigur hann er að berja höfðinu við steininn. Hver setning hans er óbein játun þess, að hann hafi rangt fyrir sér. Rétt rök hefir hann engin fyrir sig að bera, en verður að hlaða eintómum útúrsnúningum utan um þessa taumlausu þrákelkni sína. — Nú er hann að gefa í skyn, að eg sé sár yfir því, að þessari ráðstöfun minni til að kynna mér hag bankans, var ekki haldið leyndri. En eg hefi ekki sagt eitt orð í þá átt. Eg sagði aðeins eitthvað í þá átt, að það væri skylda allra starfsmanna bankans, að gera ekki neinum útífrá kunnugt um málefni hans.

Annað var það og, sem gekk alveg fram af mér í ræðu háttv. fyrirspyrjanda. Hann var að gefa í skyn, að eg hefði fundið að því, að reikningurinn yfir bygging bankahússins hefði ekki verið skrifaður af bankastjóra sjálfum, heldur hefði verið annars manns rithönd á honum. Svona fjarstæðu-útúrsnúning hefi eg aldrei heyrt. Mér hefir aldrei komið í hug að finna að því, hver rithönd væri á reikningnum, og veit vel að það skiftir engu máli. En að hinu hefi eg fundið, að byggingarreikningurinn hefir ekki verið gerður enn þann dag í dag. Það þarf mikla bíræfni til að snúa út úr þeim ummælum, á þann veg, sem þessi þm. gerði.

Þá var hávirðulegur fyrirspyrjandi að bera þessa ráðstöfun saman við það, ef bæjarfógeti færi að láta þjóna sína gera heimilisrannsókn hjá mönnum alveg upp úr þurru. Eg fer ekkert út í það, hve fjarstæð slík samlíking er, því að það sjá allir heilvita menn. En þetta sýnir bezt, hve gerþrotinn háttv. þm. er að röksemdum, því að ella færi hann ekki að grípa til slíkrar fásinnu, máli sínu til varnar.

Þá rangfærði hann orð mín um málið í Nd. Hann hélt því fram, að eg hefði sagt þar, að eg hefði ekki hugsað málið og væri óviðbúinn að verja gjörðir mínar. Þetta er alveg rangt hermt. Eg sagði aðeins, að eg væri ekki viðbúinn löngum umræðum um málið þá, vegna þess, að til þess þyrfti eg að afla mér frekari skýrslna. Að öðru leyti hefi eg aldrei sagst vera óviðbúinn, og hefi líka altaf verið viðbúinn að verja gerðir mínar í þessu máli.

Hávirðulegur fyrirspyrjandi heldur að hann geti talið mönnum trú um, að eg hafi séð eftir því, að eg skipaði nefnd til að rannsaka hag bankans. Og hann styður mál sitt með því, að eg hafi sjálfur gert ráðstafanir til þess, að afstýrt yrði illum afleiðingum af því fyrir bankann. Þetta ber hann enn fram, þrátt fyrir það, að eg hefi sýnt og sannað, að þessar ráðstafanir voru aðeins gerðar til þess að afstýra illum afleiðingum af því uppþoti, sem bankamennirnir sjálfir og minnihlutamenn höfðu komið af stað út af nefndarskipuninni. Það var fljótt auðséð, að þeir höfðu áformað að koma af stað aðsúg að bankanum. Þá fyrst þurfti ráðstafana við til að verja bankann, og þá fyrst voru þær gerðar, eins og skylt var.