08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kr. J.):

Það er að eins örstutt athugasemd, er eg vildi gera út af orðum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.). Hann nefndi nöfn manna hér í bænum í sambandi við »kritik« á einni skólastofnun, sem eg held að ekki hafi verið á rökum bygð. Hann var að finna að úthlutun á námsstyrk við lagaskólann og sagði, að einum pilti hér í bæ, sem hann nefndi, hefði ranglega verið veitt ölmusa á lagaskólanum, því faðir hans væri með ríkustu mönnum hér í bænum. Þetta er ekki rétt hjá háttv. þm. Þessum pilti hefir hvorki verið veitt ölmusa né húsaleigustyrkur, heldur 40 kr. verðlaun fyrir dugnað og iðjusemi. Þetta var honum veitt af því fé, sem skólinn hefir til umráða og víst má ráðstafa á þennan hátt. (Jón Ólafsson: Samkvæmt hvaða fjárlagaheimild?) Þessi piltur er bæði greindur, iðinn og reglusamur og átti verðlaunin því fyllilega skilin, enda voru honum líka veitt þau eftir einróma tillögum allra kennaranna. Eg vildi að eins leiðrétta þennan misskilning háttv. þm., því að hann fór nokkuð ítarlega út í þetta efni í ræðu sinni.