04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Jónsson:

Eg á hér brtill. á þgskj. 834 um lán, sem Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu var veitt til talsímalagningar fyrir nokkrum árum. Hér er ekki um eftirgjöf á láninu að tefla, heldur að eins lagfæring á áætlunar- eða reikningsskekkju. Þegar síminn var lagður frá Ísafirði til Patreksfjarðar, var gert ráð fyrir, að hann mundi kosta 100 þús. kr. og þar af áttu sýslufélögin að greiða ? part, en þegar til kom, kostaði síminn ekki nema 75 þús. kr., en þá höfðu sýslufélögin tekið lánið, sem var upphaflega 20 þús. kr., en það var 5—6 þús. kr. meira en þau áttu að leggja til símans í fyrstu. Það sem nú er farið fram á, er að lánið sé fært niður um 5 þús. kr., niður í 15 þús. kr., sem er einmitt 20% af því, sem símaálman kostaði. Að vísu er þetta ekki annað en lagfæring á áætlunarskekkju, en það þykir form réttara eða vissara, að fá það beint viðurkent í fjárlögunum.

Breytingartillagan á þgskj. 894 er um, að í staðinn fyrir »til gufuskipaferða«, komi: »til Thorefélagsins«. Þessu hefir verið breytt í efri deild. Þegar fjárlögin fóru héðan frá neðri deild, stóð þetta eins og breyt.till fer fram á. Efri deild virðist benda á með þessari breytingu sinni, að hún virði Thoresamninginn að vettugi. En það mun þó varla vera móðgandi að nefna samninginn í fjárlögunum.

Þá hefir efri deild felt burtu Bjargtangavitann. Eins og eg tók fram við 3. umr., þá er kostnaðurinn settur eftir ágizkun vitaumsjónarmanns. Hér er að eins stungið upp á vita á 1 af 5 útnesjum, sem eru milli Breiðafjarðar og Ísafjarðardjúps og öll þarfnast vita. Efri deild hafði það á móti þessu, að málið væri óundirbúið. En það er svo lítill kostnaður að rannsaka þetta í samanburði við svo margt annað, að það mætti gera, þótt féð væri veitt til þess að gera vitann síðara árið. En kostnaðurinn getur orðið miklu minni en þetta. En eg held því fast fram, að þessi viti verði gerður, því allur vesturkjálkinn er vitalaus.

Eg þarf ekki að fara mörgum orðum um breyt.till. á þgskj. 923. Eins og húsið er kallað nú Safnhús, þá munu flestir skilja það svo, að það sé sama og safnþró með skýli yfir. Ef þessu er haldið, þá gæti fólkið haldið að þetta væri sama og mykjuhaugur. En að kalla húsið Mentahús er stutt og laggott. Landsbókasafn er óþarflega langt orð. Það eru líka fleiri söfn í húsinu en landsbókasafnið.

Eg skal taka það fram, úr því eg stóð upp, að eg er meðmæltur því, að fella burtu sem mest af lánsloforðunum í 22. gr, Ef fullnægja ætti þessum lánum, þá yrði að segja upp svo og svo miklu af eldri viðlagasjóðslánum, sem er neyðarúrræði og oft alls ekki hægt.