04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Einar Jónsson:

Eg ætla í þetta sinn að brúka þá reglu, sem eg er reyndar vanur að beita, sem sé að láta atkvæði sýna afstöðu mína til málanna. Þó get eg ekki látið hjá líða í þetta sinn að minnast á nokkur atriði, og skal eg ekki vera langorður um þau.

Mér lízt satt að segja illa á það, þegar nokkrir þm. eru nú búnir að skýra frá því, að ef breytingartillögur þær, er hér liggja fyrir, verði samþ., þá muni það hleypa útgjöldunum upp um 180 þús. kr., og það fyrir utan breyt.till. fjárlaganefndar, og eg skal segja það strax, að eg er flestum þessum breyt.till. móthverfur, nema brtill. nefndarinnar, sem eg mun greiða atkvæði með í mörgum liðum.

Hér er ein tillaga af þeim, sem frammi liggja, sem eg stend sjálfur á ásamt fleirum. Það hefir þegar verið minst á hana, og eg hefi engu við það að bæta, nema að taka undir það sem sagt hefir verið. Hún er á þgskj. 890 og og hljóðar svo: »Aftan við 13. gr. B. H. 7. lið komi svohljóðandi athugasemd: Sparist svo mikið fé við brúargerðina á Ytri-Rangá, að nægi til brúargerðar á Varmadalslæk, má verja því til þess«. Það hafa verið færð greinileg rök fyrir því, að hér er ekki um neina skyldu að ræða, heldur að eins heimild til þess, að ef afgangur verði af fé því, sem veitt er til Rangárbrúarinnar, þá megi verja því til þessa, sérstaklega af því að það er ódýrara að gera nú brú á þennan læk, sem allir viðurkenna að nauðsynlegt er að gera, einmitt í sambandi við hina brúargerðina. Hér er ekki um nein aukin útgjöld að ræða, þótt það sé reyndar rétt hugsað, að ef þessari tillögu yrði hnekt, þá yrði fé það, sem afgangs kynni að verða frá Rangárbrúnni, kyrt í landssjóði.

Eg hefi tekið hér út úr bunkanum fáeinar tillögur, og skal eg taka þær eftir röð. Vil eg þá fyrst taka till. á þgskj. 981, um lán til verksmiðjunnar Iðunnar, að upphæð 6 þús. kr. Eg finn ástæðu til, eins og síðast, að mótmæla þessu, og vil setja það í samband við aðra lánveitingu í 22. gr. 10. lið til niðursuðuverksmiðju á Ísafirði. Eg álít þess konar hæpið, því að verksmiðjum, sem einu sinni eru komnar á stað, og ekki geta borið sig, er varhugavert að lána úr landssjóði. Eg hefi ástæðu til að álíta þetta, þar sem eg kom fram með eina líka tillögu í hitt eð fyrra, þótt um nokkuð annað mál væri að ræða, sem sé lán til kaupfélagsins Ingólfs á Stokkseyri. Því var illa tekið þá, og eg skoða svo, sem hér sé nokkuð líkt ástatt, og úr því að þessu var þá hrundið fyrir mér, þá hefi eg enga ástæðu til þess að samþykkja þessu líkt nú. Eg álít, að hér sé líkt ástatt og um bónda, sem byrjar búskap, en hefir ekki lag eða möguleika til að búa. Ef hann fær lán, þá getur það að vísu treint í honum lífið í nokkur ár, en meira ekki.

Þá er tillaga á þingskjali 893 frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um, að fella burt 22. gr. alla. Hún er allstórkostleg, og vona eg að hún verði ekki samþykt, því að í þessari grein er margt gott. Í sambandi við hana vil eg minnast á tillögu frá háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.). Hún fer skemra, en þó of langt. Hún fer fram á, að 3. og 11. liður þessarar greinar haldist, en alt hitt falli burt. Henni er eg líka mótfallinn.

Þá er tillagan á þgskj. 887, sem kemur bændum hér í deildinni illa fyrir sjónir. Hún er viðvíkjandi smjörbúunum. Eg álít það skakt, að þessi styrkur falli burtu alt í einu, enda þótt búast megi við því, að honum sé einhvern tíma lokið. Eg álít að búin þurfi styrksins við, þangað til þau hafa borgað skuldir sínar. Þá er sjálfsagt að hann hætti, og mun eg því vera því fylgjandi, að hann haldist ekki nema 10 ár. Auðvitað ræður hver sínu atkvæði um þetta, en eg fyrir mitt leyti álít, að sanngjarnara sé að tiltaka 10 ár, en 5.

Þá skal eg nefna till. á þgskj 898, aðallega af því að viðskiftaráðunauturinn hitti mig áðan og spurði mig rækilega út úr um það, hver mín skoðun væri á því máli. Eg sagði fátt, og skal ekki segja öllu fleira nú, af því að maðurinn er ekki viðstaddur. Eg ætla ekki beint að álasa honum, en eg er á móti því, að þessi fjárveiting sé bundin við nafn hans, enda þótt það sé óvíst, hvort aðrir hefðu gert meira gagn en hann í þessari stöðu að ýmsu leyti, þótt hann hafi ekki verið starfi sínu vaxinn að öllu leyti. Hann mun vera með fremri mönnum, sem vér eigum á að skipa til þess að halda fyrirlestra og kynna oss öðrum þjóðum, en aftur á móti ónýtari en aðrir í verzlunarsökum, sem ef til vill riði þó mest á. Annars skal eg ekki fara lengra út í þetta mál, úr því að maðurinn er hér ekki viðstaddur.

Um styrkinn til heiðurs Sighv. Árnasyni fyrv, alþm. er það að segja, að eg er honum hjartanlega hlyntur, og vona eg, að enginn verði á móti því, að veita þessum merka og gamla manni sómasamlegan styrk, enda má vænta þess, að sá styrkur vari ekki nema stutta stund. Eg hefi séð hann nýlega, og eftir því sem mér leizt á hann, býst eg við því, að guð muni bráðum taka hann heim til sín, heldur en að geyma hann öllu lengur hérna hjá okkur.

Þá eru á þingskjali 905 ætlaðar 2000 kr. til starfrækslu við loftskeytastöðvar. Er þetta auk kostnaðar við að koma upp loftskeytastöðvum í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Eg sé enga sanngirni í þessu, einkum þar eð þeir sem eiga að hafa notin af þessu vilja ekkert með það hafa. Við höfum ekki efni á að vera að troða upp á menn hlutum, sem kosta ærnafé.

Á þgskj. 919, seinasta atriði, er tillaga, sem mér þykir varhugaverð. Hún fer fram á, að fjárveitingin til Flóaáveitunnar falli niður. Mér finst það bæði varhugavert og ósanngjarnt, og spursmál, hvort nokkur önnur fjárveiting er þarfari. Ef háttv. þingmenn væru kunnugir þar, þá mundu þeir ekki sjá eftir því. Mun það bæði vera af ókunnugleik háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og svo að hann vilji hefna sín á háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), því það virðist svo, að hann finni sig ekki færan að svara háttv. 2. þm. Árn., en er alt af að senda honum hnífla.

Eg vildi áður en eg sest niður beina örfáum orðum að h. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) Hann var með samanburð á flokkunum. Eg minnist að hann í hitt eð fyrra með stífum orðum bar hinum fyrverandi meiri hluta á brýn hlutdrægni, og að sú fyrverandi stjórn hafi matað sína menn. Hvaða dæmi kom hann svo með? Sneið af læknishéraði og sneið af prestakalli í Ísafjarðarsýslu.

Eg skal svo ekki þreyta menn með fleiri orðum, en gera grein fyrir skoðun minni við atkvæðagreiðsluna.