27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Eg sé að komin er fram tillaga um að setja inn á fjáraukalögin fjárveitingu til loftskeytasambands milli Rvíkur og Vestm.eyja. Eg heyrði ekki, að háttv. framsögumaður fjárlaganna (B. Þ.) mintist á það, að hér á lestrarsalnum liggja frammi mótmæli frá Vestmanneyingum gegn loftskeytasambandi og beiðni um að vera heldur laus við alt hraðskeytasamband, en eiga að eins að una við loftskeytasamband. Mér þykir harla kynlegt, að hann skuli hafa gengið fram hjá þessu, þar sem hann læst vera svo mikill sparnaðarmaður. Vestmanneyingar vilja heldur ekkert samband en loftskeytasamband. Samband við skip getur eins vel verið frá einni stöð sem tveimur. Eg býst ekki við að skip, sem hafa loftskeytaáhöld, hafi þau svo veik, að þau geti ekki sent skeyti frá Ingólfshöfða til Reykjavíkur. Það er því óþarft að hafa fleiri en eina stöð vegna skipa. Það er ekki þörf á að setja upp loftskeytastöð í Vestm.eyjum vegna Skaftafellssýslna, þær gætu og haft loftskeytasamband við Reykjavík, ef til vildi með millistöð undir Fjöllunum. Það er auk þess mjög óvíst, að þær kæri sig um loftskeytasamband. Eg hefi heyrt að Vestur-Skaftfellinga langi ekki til slíks og muni lítt þakka það. Úr því að Vestmanneyingar vilja vera lausir við loftskeytasamband, því á þá að neyða því upp á þá, einkum þegar altaf er verið að kvarta um fjárþröng landssjóðs? Því hefir verið mótmælt af 109 kjósendum þar af alls 150. Það eru einir 3—8 kjósendur, sem eru að einhverju leyti sinnandi loftskeytasambandi. Eg skal ennfremur geta þess, að áður en langt um líður mun koma beiðni til þingsins frá Vestmanneyingum um leyfi til þess að mega sjálfir láta leggja síma á eigin kostnað. Eg skil því ekki, að þingið skuli vilja nú neyða þessum loftskeytum upp á eyjabúa. Hér er að eins að ræða um að lofa þeim að vera lausum við þetta, en ekki að veita fé til þráðskeytasambands. Ef menn kynnu að segja að eyjabúar geti ekki lagt síma upp á eigin spítur, væri slíkt einungis fyrirsláttur. Þeir geta það mjög vel; jafnvel einn maður þar gæti gert það. Það ætti ekki að þurfa að taka það fram enn, að loftskeytasamband væri þeim ónógt. Eg hef ekki orðið var við, að hvorki Austur- eða Vestur-Skaftfellingar hafi óskað eftir loftskeytasambandi. En hitt álít eg óhæfu að neyða upp á þá loftskeytum.