28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Eg vildi fara örfáum orðum um háskólann, og skal eg þá fyrst þakka háttv. þm. Snæf. (S. G.) fyrir þau fögru orð, sem hann mælti, og fyrir mótmæli hans gegn háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) Ein af mótbárum þess háttv. þm. var sú, að ekki væri fært að stofna háskóla strax vegna þess að langan tíma þyrfti til undirbúnings fyrir væntanlega prófessora og vitnaði hann í því sambandi til þess, þegar lagaskólinn var settur hér á stofn. En þar er um allt annað að ræða. Það hefir hér á landi aldrei áður verið kent neitt, eða ritað um íslenzk lög, svo að þar var alveg óplægður akur, en um sögu landsins, og íslenzka tungu og menningarsögu er öðru máli að gegna. Ef við höfum stundað nokkrar fræðigreinar til hlítar, þá er það sagnfræði og saga landsins, og ef eitthvað í þessum greinum og íslenzku máli hefir skarað fram úr öðru á seinni tímum, þá hefir það flest verið eftir Íslendinga. Mér er því torskilin sú ástæða háttv. þm., að ekki sé hægt að stofna háskólann í október vegna undirbúningsleysis í þessum greinum. Það er ekki annað en brígsl til fræðimanna okkar, að alt þeirra starf hafi orðið þeim til skammar. Í þeim brígslum vil eg ekki gera mig sekan og eg get sannað það, að hér á landi er nægur kostur á mönnum til þess að halda góða fyrirlestra í Íslandssögu. Eg get t. d. bent á hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), og eg vil spyrja háttv. þm. þess, ef hann væri kallaður til Noregs eða Svíþjóðar og beðinn að taka að sér kenslu í þessari grein, hvort hann mundi neita því og bera fyrir sig undirbúningsleysi, Þá fyrst sæist, hve mikill veigur er í röksemdaleiðslu hans hér á þinginu, ef hann tæki við boðinu, sem eg hygg að bæði hann og fleiri mundu gera og telja sér sóma að. Með íslenzka málfræðinga erum við heldur ekki í vanda staddir. Þar má benda á B. M. Ólsen, sem allir vita, að mun hafa einna bezta þekkingu núlifandi manna í því efni og sömuleiðis er eg viss um það, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) gæti haldið góða fyrirlestra í þeirri grein. Þetta, að oss skorti menn til að gegna háskólaembættunum er því auðsjáanlega ekkert annað en fyrirsláttur. Einmitt af þessu leiðir, að rétt er að hafa samkepni milli umsækjenda, þegar embættin eru veitt — það eru svo margir færir um að takast þau á hendur, og þá er aðeins að dæma um hver er allra færastur. Það voru nokkuð undarlegar mótbárur háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) móti samkepninni — kostnaðinum sleppi eg alveg, því að hann verður aldrei svo mikill, að hann margborgi sig ekki, og sýnir einmitt, hvílíkt kapp við leggjum á að hafa góða kennara. Háttv. þm. sagði, að sögu og bókmentasögu landsins þektum við langbezt af öllum og svo vel, að útlendingar kynnu svo lítið, að þeir væru alls ekki færir um að dæma um okkar þekkingu, þeir hefðu að eins lítið eitt verið að gaufa í fornöldinni, annað vissu þeir ekki. Það verður dálítið einkennileg ályktunin, sem maður fær, þegar maður ber þessi orð háttv. þm. saman við önnur orð í ræðu hans. Hún verður svona: Af því að Íslendingar þekkja bezt allra sögu og bókmentasögu landsins, eru þeir ekki færir um að kenna þær fræðigreinar. Þessi ályktun háttv. þm. mælir með sér sjálf, svo að eg þarf ekki að fara um hana fleirum orðum. Annars gæti eg bent háttv. þm. á menn í útlöndum, sem væru fullfærir að dæma milli umsækjenda. Það þarf ekki að fara lengra en til þeirra Finns og Valtýs, en þá vildi eg ekki nefna áðan, því margur mundi kannske halda að þeir yrðu nokkuð hlutdrægir. Ef menn því vilja þá ekki, er hægt að fara til annara landa. Það sem þar er talið sómasamlegt getur ekki orðið til skammar hér.

Þar sem h. þm. var að tala um hrakyrði margra manna fyrir nokkrum árum um háskólastofnunina, þá er það ekki til mín mælt, og þegar háttv. þm. var að tala um, að eg hefði ekki barist fyrir háskólamálinu frá upphafi, þá finst mér, að hann ætti nú einmitt að gleðjast af því að eg og fleiri erum orðnir sannfærðir fyrir rök hans og annara forgöngumanna háskólastofnunarinnar. Það ætti að vera honum til hugarhægðar og ánægju. Eg skil því ekki í því, hvers vegna hann dregur sig nú í hlé á seinustu stundu; er það vegna þess, að málinu hefir aukist fylgi mitt og annara manna? Eg tel þetta mál svo mikilsvert og vel undirbúið, að skólinn á að komast sem fyrst á, og þó við færum að styrkja menn til undirbúnings í 2 ár, þá yrði það ekki betra fyrir því. Þeir, sem ekki eru færir um að kenna það, sem þeir hafa verið að læra alt sitt líf, yrðu ekki fremur færir, þótt þeir fengjust við námið 2 ár í viðbót.

Annar háttv. þm. sagði, að okkur vantaði húsrúm fyrir háskóla, þó að margoft hafi verið bent á, að hér væri nóg rúm á neðsta lofti í alþingishúsinu, og ef menn vilja kalla það ósæmilegt húsnæði fyrir háskóla, þá mótmæli eg því. Margir háskólar hafa ekki veglegra hús, og eg get ekki séð, að það sé til neins ósóma, þó að alþingi sé háð í því líka. Það mundi heldur ekki rekast hvort á annað, nema þá á aukaþinginu, því að háttv. Ed. hefir nú breytt þingtímanum svo, og ekki er sennilegt, að sú breyting nái ekki fram að ganga í þessari háttv. deild, því að hún hefir alt af verið með færslu þingtímans. Sami háttv. þm. sagði og, að þessi alda um stofnun háskóla einmitt á þessu ári, væri runnin frá þeim mönnum, sem hefðu fjárhagsgróða af háskólastofnuninni. Ekki get eg tekið þetta til mín, því að enga von hefi eg um embætti við háskólann, þar sem eg ekki einu einu sinni var álitinn hæfur til þess að gegna aukakennaraembætti við lærða skólann hér. Engir mér skyldir eða vinveittir eiga von á prófessorsembætti heldur.

Hvað því viðvíkur, að málinu hafi fyrst verið hreyft af einum manni á fundi í Jóns Sigurðssonar nefndinni, þá er það heldur ekki rétt. Því hefir verið hreyft löngu áður, að stofna skólann á þessu ári.

Þá hefir verið gert lítið úr því að stofna skólann 17. júní, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) taldi þar til þá ástæðu, að Jón Sigurðsson hefði lítið barist fyrir þessu máli. Það hefir aldrei verið færð sú ástæða fyrir háskólastofnuninni 17. júní, að Jón Sigurðsson hefði mest barist fyrir því máli beinlínis, en eg get tekið undir það með háttv. þm. Snæf. (S. G.), að öll hans barátta hneig að því sama og háskólastofnunin hnígur að, endurreisn og sjálfstæði Íslands. Einmitt þess vegna viljum við láta háskólastofnunina vera bundna við hans nafn og háskólahátíðina falla saman við afmælishátíð þessa manns. Það er hans starfsemi að þakka, að við erum komnir þangað, sem við nú stöndum, og hefði hans ekki við notið, þá efast eg um, að við værum nú komnir svo langt, að við værum að tala um stofnun þessa skóla, og því er ekki óviðeigandi, að við kennum háskólann við Jón Sigurðsson — enda er alt það, sem við gerum til minningar látnum ágætismönnum ekki síður gert fyrir þá lifandi, það kennir þeim að bera virðingu fyrir kostum feðranna og kennir þjóðinni að meta sjálfa sig.

Eg get ekki skilið þá ástæðu sumra háttv. þm., að betra sé að stofna skólann seinna árið, vegna þess, að kennararnir við mentastofnunina verða litlu færari til þess að takast embættin á hendur, þó þeir læri tvö árin til heldur en nú, þegar þeir hafa stundað vísindagreinarnar alla sína æfi. Eg hygg, að betra sé að nota góða krafta þeirra til þess að kenna öðrum, heldur en að þeir fari að læra hjá þeim, sem minna kunna.