04.04.1911
Efri deild: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Stefán Stefánsson (6. konungkj.) Við höfum leyft okkur, háttv. þingm. Akureyrar og eg, að koma fram með breytingartillögur við mál þetta; nokkrar hefir nefndin tekið upp, en hún hefir verið á móti þeim tillögum, er okkur var sárast um. Eg veit ekki, hvort mér tekst að skýra fyrir hinni háttv. deild, hvers vegna okkur var sárast um þessar tillögur. Máli þessu var fyrst hreyft á aðalfundi Ræktunarfélags Norðurlands 1909, og það kom einnig fyrir á síðasta fundi félagsins, og þess þá óskað að lögum félagsins yrði breytt í þá átt að öll búnaðarfélög á félagssvæðinu gengju í samband, þannig að Ræktunarfélagið yrði í raun og veru samband allra búnaðarfélaga norðanlands; þau félög, er í sambandið gengju, skyldu greiða til þess eitthvert fastákveðið gjald, en fá í staðinn t. d. Ársrit félagsins og mann til þess að mæla og meta jarðabætur félagsmanna ókeypis og leiðbeina þeim í öllu, sem að búnaði lýtur. Þessi maður, eða menn, yrðu þá nokkurskonar búnaðar farkennarar — búnaðarfélögin intu af hendi eitthvert ákveðið árgjald, en fengju í stað þess nauðsynlega en ódýra fræðslu. Enn fremur var ætlast til að sýslurnar á félags- eða sambandssvæðinu styrktu félagið með árlegu tillagi, er miða mætti við býlatölu sýslunnar. Ræktunarfélagsfundurinn lagði til að sýslutillagið yrði sem næst 50 aurum fyrir hvert bygt ból, sem grasnyt hefði, en Búnaðarþingið taldi það of hátt og vildi hafa það 25 aura.

Þessu var hreyft á búnaðarþinginu, og allir hljóta að vera sammála um það, að bráðnauðsynlegt sé að reyna sem allra fyrst, að koma öllum búnaðarfélögum undir umsjón og yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands, koma föstu skipulagi á allan búnaðarfélagsskap landsins, og löggjafarvaldið getur flýtt mjög fyrir framgangi málsins, ef það felst á tillögur og gerðir búnaðarþingsins síðasta, sem hér að lúta. Með því að hafa að eins einn eftirlitsmann í sýslu hverri, fást miklu nákvæmari og betri skýrslur en ella mundi. Maður þessi skal að sjálfsögðu vera búfróður.

Fyr meir var ástandið þannig, að búnaðaðarfélögin baukuðu hvert í sínu horni, hugsuðu varla um annað en hirða styrkinn. Skýrslurnar um jarðabæturnar voru mjög ófullkomnar og óáreiðanlegar, en á þinginu 1901 var ákveðið eftir minni tillögu, að eg held, að þeir menn, sem mæla skyldu jarðabæturnar, mættu þó aldrei vera fleiri en þrír, og var það fyrsta takmörkunin, en nú er hér farið fram á að maðurinn skuli vera einn í sýslu hverri útnefndur af sýslunefnd, eftir tillögum búnaðarsambands þess sem sýslan er í. Allir hljóta að viðurkenna, að það, að hafa einn góðir mann til slíkra starfa, hlýtur að vera til mikilla bóta, og með því er fengin trygging fyrir því, að mæling jarðabótanna verði sem ábyggilegust og er það ekki lítils vert, og meira samræmi hlýtur að komast í jarðabótaskýrslurnar með þessu móti.

Hin tillagan, að þau búnaðarfélög, sem ekki eru í neinu sambandi, skuli engan styrk fá, eftir víst árabil, er að okkar dómi bæði sanngjörn og sjálfsögð, því með henni mundi vaxa hvöt hjá þeim félögum til þess að ganga í sambandið, er þau ættu enga styrks von annars.

Þau félög, sem nú eru ekki í neinu og sambandi, eru Búnaðarfélög Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, Mýra-og Dalasýsla og nokkrir hreppar í Kjósar- og Gullbringusýslu. Á Norðurlandi vona eg að sambandið komist á innan skamms, ekki sízt ef þessi tillaga verður samþykt. Öll búnaðarfélög landsins þurfa að verða eitt órjúfanlegt kerfi, ein organisk, lífræn heild. Eg er ekki í neinum vafa um að það mundi verða þjóðinni til stórkostlegra heilla í framtíðinni.

Eg skal ekki fara út í hinar breytingingartillögurnar, þær miða allar til þess að herða á skilyrðunum, og álít eg það til bóta.