29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Háttv. framsm. minni hl. (J. Þ.) hefir ekki gert mikið að því, að færa rök fyrir máli sínu. Flest af því, sem hann sagði, hefir eingöngu verið orð fyrir fólkið, svo sem, að undarlegt væri, ef stöðulögin væru svo friðhelg, að ekki mætti við þeim hreyfa og þar fram eftir götunum. Það er ástæðulaust að bregða oss um þá skoðun, við höfum enga átyllu gefið til þess, heldur þvert á móti. Það er heldur ekki neitt hreystiverk að vera að koma inn í stjórnarskrána breyt. óviðkomandi mál­inu, sem hafa það eitt í för með sér að spilla fyrir henni. Hv. þm. ættu held­ur að koma með frv. til sambandslaga, þá gætu þeir séð hvernig við tækjum í það. En eins og eg sagði, alt þetta gaspur um aukinn landsrétt o. s. frv. eru bara orð fyrir fólkið. Annars vildi eg gjarnan spyrja, hvorir álíta stöðulögin friðhelgari, þeir, sem viðurkenna þau, ef ekki í orði þá á borði, eða við, sem ekki viljum minnast á þau? Hv. þm. sagði, að ef deildin samþykti ekki ákvæði brtill. hans við 1. gr., þá lokaði hún augunum fyrir hættunni. Hvaða hættu? Þeirri, að lifa undir stöðulög­unum, eða hvað? En eg álit að það sé að loka augunum fyrir hættunni, að vilja viðurkenna gildi stöðulaganna á borði. Annars ber okkur víst ekki milli, að því er stöðulögin snertir, annað en það, að við viljum ekki vera að grauta því inn í þetta nauðsynjamál, sem getur orðið því að fótakefli, en það hefir, eins og eg sagði, enginn neitt á móti því, að hv. þm. beri fram frv. til sambandslaga, og þá getur hver tekið sína afstöðu.

Hv. minni hl. nefndarinnar kvað till. hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um »referendum« eða málskot nauðsynlega, þeg­ar um sambandslög milli landanna væri að ræða. Hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) var með tillögunni yfirleitt, en hv. þm. Dal. (B. J.) á móti henni að öðru leyti en þessu. Eg er honum alveg sammála alment, nema hvað eg skil ekki hvers vegna hann vill hafa inn í frv. ákvæði um málskot í sambandsmálinu. Við höfum nú þegar í frumvarpi voru þess konar ákvæði, því að svo er fyrirskipað, að alþingi skuli rofið, þegar sambandslög eru samþykt. Eftir till. hv. þm. Dal. (B. J.) þyrfti þá að hafa 3 þing til þess að sambandslög yrðu samþykt til fullnustu. Eg hygg, að hv. þm. hafi ekki athugað þetta nægilega vel.

Hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) var að minnast á þekkingarskilyrði fyrir kosningarrétti, eða pólitíska fermingu, eins og hann komst að orði. Mér virtist hann vera henni samþykkur í sjálfu sér, einungis vildi hann ekki hafa þar að lútandi ákvæði í stjórnarskránni, en vildi láta taka það upp í fræðslulögin. En þetta er algerlega röng skoðun hjá hv. þm. Það er stjórnarskráin, sem kveður á um kjörgengi og skilyrði fyrir kosningarrétti. Í fræðslulögunum gæti slíkt ákvæði því ekki staðið, án þess að koma í bága við stjórnarskrána. Annars vorum við víst sammála um efnið. Sumir álíta þekkingarskilyrðið alveg óþarft, en eg vil leyfa mér að benda á, að þekkingarskilyrði til alþingiskosn­ingarréttar á ekki að verða og verður ekki neitt einstakt og óheyrt. Lík skilyrði eru líka sett í öðrum málum, t. d. er kosningarréttur í safnaðarmálum bund­inn við það, að viðkomandi sé fermdur. Það þýðir meðal annars, að skilyrðið fyrir að njóta réttarins er, að kjósandi hafi staðist próf í kristilegum barnalærdómi, eða með öðrum orðum í trúfræði. Sé nú þetta nauðsynlegt skilyrði fyrir kosningarrétti í safnaðarmálum, þá virðist ekki síður áríðandi að heimta ein­hverja þekkingu á skipun stjórnar og landsmála af þeim mönnum, sem eiga að fara að hafa áhrif á landslög og rétt. Og sé hægt að kenna unglingum aðalinnihald af trúarkerfinu og siðfræðiskerfinu, því skyldi þá ekki vera eins einfalt eða miklu einfaldara að kenna þeim hvernig oss er stjórnað. Það grípur inn í það eitt, sem menn sjá alt af í kringum sig, en hitt nær yfir miklu djúpsettari hluti, sem okkur meiri maður hefir sagt um, að vitringunum væri óráðin gáta.

Það var minst hér á kver Jóns Hjaltalíns. Það er minni bók en kverið og mikið auðskildari. Það er ekki meira að skylda menn til að taka próf í þessum veraldarvísdóm en að láta þá ganga undir fermingu. Og þekkingarskilyrði er ekkert nýtt eða óheyrt. Í Bandaríkjaskólum eru börn látin læra yfirlit yfir stjórnartilhögun landsins, og víða er það skilyrði fyrir kosningarrétti að geta lesið stjórnarskrána og svarað svo út úr, að það sjáist, að kjósandaefni skilji það, sem hann les. Og það er ekki örðugt að kenna aðalatriðin í stjórnarskipun okkar í litlu ágripi. Eg hefi heyrt því hreyft, að ekki sé áhættulaust að setja slíkt ákvæði, því að hlut­drægni vegna flokksfylgis gæti svo hæglega komist að við prófið. Eg held, að þetta sé hégóminn einber, því að í fyrsta lagi gengju menn helzt undir prófið á unga aldri, þegar þeir eru ekki orðnir við neinn flokk riðnir, og í öðru lægi er ekkert því til fyrirstöðu, að menn geti, ef þeim virðist hlutdrægni beitt, gengið undir prófið í annari sveit. Það er viðurkent hjá hinum vitrustu þjóðum, sérstaklega þegar um rýmkun kosn­ingarréttar er að ræða, að nauðsynlegt sé að auka fræðsluna, sjá um að kjósendur séu sæmilega uppfræddir. Í öðr­um löndum eru til ágætar kenslubækur um þetta efni, og ætti okkur ekki að verða skotaskuld úr að eignast slíkar bækur líka. Eg get minst á frönsku kenslubókina eftir Poul Bert, og »Politics for young Americans« eftir Charles Nordhoff.

Þá vík eg mér að háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) með málskotið. Hann sagði, að þingræðinu væri í mörgum efnum mjög áfátt. Það er satt. En eg vil ekki svara honum með því að segja, að öllu stjórnarfyrirkomulagi sé að nokkru ábótavant og verði seint fullkomið. En þegar einhverju er ábótavant, þá á að reyna að bæta úr hinum þektu göllum. Eg get nú ekki séð, að málskot bæti úr göllum þeim, sem á þingræðinu kunna að vera. Það er ekki bót á þingræðinu að bana því, því að annað gerir málskotið ekki að verkum. Mér dettur í þessu sambandi í hug sagan um manninn, sem hafði iðrakveisu og leitaði ráða hjá lækni. Lækn­irinn gaf honum það ráð, að eta hvorki súrt eða sætt, steikt, soðið eða hrátt. »Dó hann þá ekki?« var læknirinn spurður. — »Jú, víst dó hann — það gerum við allir — en sjukdómurinn fór úr honum!«. Eins má segja um þingræðið, að með því að drepa það, hverfa gallarnir, en kostirnir hverfa líka og eg held, að alment málskot sé ekkert annað en banatilræði. Háttv. þm. sagði, að ný stórmál kæmu iðulega fyrir milli kosninga. Það er að vísu satt, en eg vil mótmæla því, að þingmenn eigi að eins að vera básúna fyrir skoðanir kjósenda sinna. Þeir eru sjálfstæðir menn, sem borið er traust til og eru kosnir sakir þektra aðal-skoðana sinna og mannkosta. Það er líka skýrt tekið fram í stjórnarskránni, að þeir séu að eins bundnir við sannfæringu sína, en ekki við neitt umboð frá kjósendum. Ef þeir í hverju sem er eiga að vera svínbundnir við vilja kjósenda, þá gef eg lítið fyrir þingfrelsi og stjórnfrelsi. Það mætti þá alveg eins afnema þingið og láta stjórnina með ákveðnu millibili senda atkvæðamiða um frumv. út um landið. Það hefir verið vitnað í Sviss, sem er eina landið hér í álfu, sem hefir málskot. Það er lítið land, með mörgum fylkjum, þar sem auðvelt er að ná saman. Í minstu fylkjunum eru ekki einu sinni kosnir þingmenn, heldur koma allir fylkisbúar saman og heyja þing. Það er því hér mjög ólíku saman að jafna. Og hvernig hefir nú málskotið reynst þar? Það er svo langt frá, að það hafi verið, eins og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) virðist halda, knýjandi afl til framfara; þvert á móti hefir það altaf verið íhaldssamt og afturhaldssamt. Eg get því ekki skilið, að þetta fyrirkomulag geti fallið í geð háttv. þm. Rvk. (J. Þ.) og hinum öðrum framfara- og frelsishetjum, sem ekki vilja stöðva neinn straum í landinu. Þetta hefir verið svo mikið íhald, að það hefir ekki aðeins tafið fyrir hinum þörfustu framfaramálum miklu lengur en 12 ár, það hefir oft og tíðum riðið þeim alveg að fullu.

Hv. þm. (Ó. Br.) gat þess og, að við hefð­um málskot í sumum sveitamálum. Það er mikið rétt, en þar er alt öðru máli að gegna. Menn lifa og hrærast í sveitamálunum og hreppapólitíkinni, en hafa ef til vill ekki neitt hugboð um þing­málin og hvorki tíma eða tækifæri til að hugsa þau rækilega. Setjum nú svo, að eitthvert gott og þarft mál væri samþykt hér á alþingi og síðan borið undir alþýðuatkvæði, þá gæti ein grein um mjög svo smávægilegt atriði felt alt málið, hversu þarft sem það að öðru leyti er. Bændur greiða því ekki atkv. af því þessi agnúi er á þeim, vinnumenn ekki vegna annars agnúa, og lausamenn ekki vegna hins þriðja o. s. frv., og þó mundu allir álíta það hin þörfustu lög, ef aðeins þessir, ef til vill ímynduðu agnúar væri ei á þeim. Svona er hætt við að oftast færi.

Við skulum taka annað dæmi, segjum sem svo, að í stað ferðaáætlana kæmu lög frá alþingi um viðkomustaði strandferðaskipanna, væri þeim lögum skotið undir alþýðuatkvæði, mundu þau ekki ná samþykki í 10–20 ár, því að einn vildi hafa fleiri viðkomur á þessum stað, annar á hinum o. s. frv., þangað til væri búið að horna alla firði og vík­ur landsins. Það er líka óhætt að telja það víst, að hefði fjárveitingunni til Ölfusárbrúarinnar hér á árunum verið skotið undir alþýðu, hefðu að eins nærsveitirnar samþykt hana, og brúin væri líklega ekki gerð enn þann dag í dag. Þetta er líka mjög svo eðlilegt, því að hreppapólitíkin blindar menn, þeir verða svo þröngsýnir að þeir sjá ekki, að það, sem verður einu héraði að gagni, getur líka orðið til gagns öllu landinu. Réttlætistilfinning manna er ekki orðin svo rík ennþá og eg hygg, að margar af okkar þörfustu framkvæmdum, sem allir una vel við núna, lægu steindauð­ar, ef málskot hefði verið í lögum okkar. Málskotið kæmi ekki til leiðar þjóðræði, heldur hreinasta skrílræði. Háttv. þm. tók til dæmis, að sjálfsagt væri að bera ábúðarlögin undir alþjóð­aratkvæði. Hann sagði, að allir bænd­ur væri eins færir eða færari til að dæma um þau og við. Jæja! Það getur nú verið, en háttv. þm. gætir þess ekki, að alþýða manna eru ekki tómir bænd­ur, hver lausamaður og lausakona, hver vinnumaður og vinnukona hlyti að dæma um þetta mál líka. Svo er og þess að gæta, að í Reykjavík er nú ¹/? hluti allra landsmanna og þar verður, eftir að nýju kosningalögin eru komin á, ¼ hluti allra kjósenda landsins. Þó að nú allir bændur standi öðru megin og aðrir kjósendur skiftist jafnt í sveitunum, þá getur Reykjavík ein kollvarp­að lögunum. Fleiri dæmi mætti nefna, en þetta er nóg til að sýna, að málskot­ið getur haft alveg óútreiknanlegar afleiðingar.

Háttv. 2. þm. Arn. (S. S.) vill banna öllum dómurum þingsetu. Eg hefi nú ekki svo ýkjamikið á móti því. Við höfum svo mikið af lögfræðingum, að ekki er hætt við, að skortur verði á þeim, þótt dómarar séu útilokaðir. En hefir háttv. þm. gert sér grein fyrir, hverja hann útilokar með þessari tillögu sinni. Hann útilokar ekki einvörðungu yfirdómara, sýslumenn og bæjarfógeta, heldur líka alla þá, er í sáttanefndum sitja, því að þeim hefir með lögum verið gefið dómsvald í nokkrum málum. Eg held því, að tillagan sé víðtækari en hann hefir hugsað sér.

Sami háttv. þm. vill heldur leyfa en bjóða fjölgun ráðherra og verði þeim ekki fjölgað úr hófi fram, liggur mér það í léttu rúmi.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um frumvarpið sáluga, sem hann og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) flutti. Það er nú orðið ljóst af sjálfs hans orðum, að það var aldrei neitt frumvarp, en að eins stefnuskrá flokks þeirra. Ef svo hefir verið, þá er það nokkuð kynlegt, að flokkurinn skyldi afneita því um leið og það var borið fram. Annars hefi eg aldrei fyrri heyrt þess getið, að nokkuð frumv. til laga hafi verið borið fram í þeirri meiningu að samþykkja það ekki, en hafi það verið tilgangur háttv. flutnm., að þetta ætti að eins að vera stefnuskrá, þá áttu þeir að bera það fram sem tillögu til þingsályktunar, eða frumvarp til sambandslaga, en alls ekki sem breyting á stjórnarskrá.

Sami háttv. þm. sagði, viðvíkjandi stofnun hæstaréttar, að það væri íslenzkt sérmál. Það getur vel verið, að svo sé, en Danir munu nú líta öðru vísi á það. Æskilegt væri því, að ákvæði um stofnun hæstaréttar væri ekki sett inn í stjórnarskrárbreytinguna, því að það væri áreiðanleg leið til að hindra staðfestingu hennar.

Þá er eitt kjörgengisskilyrði háttv. minni hl., fæðingjaréttur settur af alþingi. Ef nokkuð mál er sambandsmál, þá er þetta það. Ef þesskonar ákvæði væri sett inn í stjórnarskrána mundi koma þvert nei við staðfestingu. Það verður að kveða á um það mál með sambandslögum. Eg geng að því vísu, að tilgangur þingsins sé að koma á þeim breytingum stjórnarskrárinnar, sem nauðsynlegar eru og þjóðin hefir krafist, en ekki að vera að hampa ríkisréttarkröf­um, sem ekki koma málinu minstu vitund við. Þess vegna á ekki að taka nein þau ákvæði upp í stj.skr.br., sem líklegt er að verði staðfesting hennar til fyrirstöðu.

H. þm. (B. J.) var óánægður yfir orðum mínum um goluþytinn. En það var einmitt hið rétta hugtak. Það er ekki annað en goluþytur þegar æsingastraumur grípur þjóðina snögglega og hjaðnar svo niður og verður að engu eftir litla stund. Háttv. þm. sagði, að goluþyturinn gæti orðið að stormi. Veit eg það, Sveinki, en Ed. á alls ekki að hindra það, að hann verði að stormi, en hún á að vera prófsteinninn fyrir, hvort hann getur orðið það. Eg er ekki vanur, að vera svo myrkur í máli, að eg hélt að flestir hefðu skilið orð mín áðan, að þessi var meiningin. Háttv. þm. sagði, að Ed. gæti tálmað góðu máli, ef ekki væri tækifæri nema einu sinni. En það er ekki síður goluþyturinn, sem getur verið því til tálma, að hægt sé að nota tækifærið, eins og sýndi sig á seinasta þingi þegar við áttum kost á að grípa það, en bárum ekki vit né gæfu til. (Bjarni Jónsson: Var ekkert tækifæri, góði!).

Hann sagði og, að framgjarnir menn eins og eg væri í aðra röndina, ættu ekki að verða alt of værukærir. Það er fjarri því, að eg se það. En hitt er rétt, að eg vil að þjóðinni gefist tími til að hugsa málin og flana ekki að þeim í augnabliksæsingu. Og það sjá allir, og háttv. þm. Dal. (B. J.) líka, að það er sitt hvað, að hafna einhverju máli, eða skjóta því á frest um stutta stund.

Eg skal ekki fara langt út í það, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði um gjaldþrota menn. Eins og nú er, fá þeir kosningarrétt eftir að skiftum er lokið. Það er rétt eins og verið sé að vinna eitthvert níðingsverk með því að útiloka þá menn frá kosningarrétti meðan á skiftum stendur. Þessi suspension er eðlileg vegna þess, að á meðan er fógeti að rannsaka, hvort gjaldþrotið er sviksamlegt eður ekki. Þetta er eingöngu frestur og tekur mest ½–1 ár.

Hinn h. þm. (B. J.) spyr, hvort vér viljum níðast á fátækum mönnum. Eg kveð nei við því. Eg hygg, að ekki sé hægt að saka oss í meiri hluta nefndarinnar um nokkura harðleikni. Það er nógu margt, sem er til sölu, nógu mikið, sem verzlað er með hjá oss, þó að vér aukum ekki varninginn með gjaldþrota mönnum eftir að þeir eru ný-orðnir gjaldþrota.

Um tillögu háttv. samþingism. míns (J. J.) er það að segja, að eg tel hana skynsamlega, ef á það er litið, hvernig kvenþjóðin notar þennan rétt sinn, sbr. bæjarstjórnarkosningarnar hér í Reykjavík síðast. Það hlýðir ekki, að konur fái þennan rétt hvort sem þær eru færar um að hafa hann eða ekki, og því er réttast að veita þeim hann smám saman. Og þótt eg sé kvenhollur, þætti mér ekkert gaman að því að mega búast við einum 20 konum á þing alt í einu.

H. hv. þm. Dal. (B. J.) var illa við tillögu okkar nafnanna um að frumkvæðið í fjármálum væri hjá ráðherra einum, og sagði, að með henni væri lagt beizli á þingið. Það eru nú svo mörg beizli á þinginu, stjórnarskráin, þingsköpin o. s. frv., að þessi ástæða hans verður ekki þung á metunum. Og að við séum að taka þetta upp eftir Bret­um, eins og hann sagði, ætti ekki að vera ástæða móti heldur með tillögunni, því að Bretar eru hin fjárglöggvasta þjóð í heimi. Það er reynslan, sem hefir kent þeim.