03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Eg skal að eins vekja athygli á fáeinum ummælum hv. þingmanna. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að það væri betra að þingið væri þannig samsett, að fyrir gæti kom­ið, að það samþykti vanhugsuð lög, heldur en það tefði fyrir áhugamálum þjóðarinnar. Eg held eg hafi tekið rétt eftir þessu. Hann sagði þetta skýrt og blátt áfram, eins og hans er vandi. En hér er eg alveg á gagnstæðri skoðun, og eg hygg, að margir séu mér þar sammála. Eg álít, að það sé heppilegast, að þingið sé þannig skipað, að sem mest trygging sé fyrir því, að það hlaupi ekki í gönur, jafnvel þótt það geti komið fyrir, að það tefji fyrir málum. Og á þessum grundvelli var bygt frumv. það, sem eg og hv. samþingism. minn (J. Ól.) komum fram með í þingbyrjun. Þarna hefir hv. þm. N-Ísf. (Sk. Th.) ein­mitt í raun og veru tekið glögt fram það, sem veldur aðalágreiningnum um málið, og það er þessi aðalágreiningur, sem veldur hinum mismunandi skoðunum um deildarskipun þingsins, og það er hann, sem ætti að leggja hreint og blekk­ingalaust fyrir kjósendum, svo að þeir geti úr því skorið, hvor stefnan er hyggilegri. Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og þeim, er honum fylgja að málum í þessu, hefir því miður tekist að raska þessum grundvelli allmjög frá því sem hann var í frv. okkar í fyrstu, svo að eg tel frv. miklum mun verra nú en það var þá, þótt ekki hafi þeim enn tekist að kippa honum burt með öllu, eins og þeir hafa reynt hvað eftir annað og eru að reyna enn.

Háttv. þm. Dal. (B. J.)-sagði sína skoð­un á skiftingu þingsins og á kosningarréttinum. Hann áleit að hagfeldast væri að hafa þingið óskift og að kosið væri sem oftast, hvað oft talaði hann ekki um. Eg er mjög á annari skoðun um þetta, og eg held fast við það, að till. okkar hafi verið betri en alt sem nú er búið að setja í staðinn. Við vildum láta kjósa alla efrideildarmenn með hlutfallskosningum um land alt, þriðjunginn 4. hvert ár. Sú röskun, sem hefir verið gerð á þessu, álít eg að sé mjög til spillis.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) talaði um hina afturhaldssömu efri deild, sem mundi tefja fyrir málunum, gætandi ekki þess, fremur en aðrir, að hún er kosin af hinum sömu kjósendum. Hann áleit, að þjóðin mundi telja það mikilsverðara atriði heldur en að fá þessa miklu rýmkun á kosningarréttinum, sem hér er gert ráð fyrir. Mér þótti vænt um að heyra hann segja þetta. Eg var dögunum að reyna að benda á það samband, sem er á milli kosningarrétt­arins og deildaskipunarinnar; en eg varð ekki var við, að neinn gæfi því gaum. En nú sé eg, að hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) skilur þetta, og er mér það gleði. Væri kosningarrétturinn ekki rýmkaður svo mjög, sem hér er gert, þá væri miklu minni vandi að skipa deildunum, og þá hefði eg líklega getað felt mig við einhverja af þeim till., sem fram hafa komið. En með þessum takmarkalausa kosningarrétti er hrein lífsnauðsyn að hafa einhversstaðar í stjórnarkerfinu eitthvað það, sem geti aftrað stærstu og vanhugsuðustu gönuhlaupunum, og til þess ætluðum við efri deild.

Nú er þessu, eins og eg sagði, talsvert raskað og breytt til hins lakara, og enn eru gerðar alvarlegar tilraunir til að kollvarpa því með öllu. Eg vil nú áður en eg sest niður gefa þá yfirlýsing, að fari nú svo við atkvæðagreiðsluna, að skipun Ed. verði gerð enn fjær því, er við upphaflega lögðum til, þá finn eg mér skylt að greiða atkv. á móti málinu. Eg mun gera það með góðri samvizku og góðri von, þeirri góðu von, að næsta þing verði ekki lakar skipað til að ráða fram úr þessu merkilega máli.