09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherra (Kr. J.):

Tilefnið til þess, að eg stend upp aftur, er ræða háttv. þm. Seyðf. Mér virðist hún ólík honum, að því leyti, að hann leit allbjart á fjárlagastarfið, sem við erum nú að lúka við, og á fjárhagsástandið. Eg hefi ávalt litið svo á, að þessi vinur minn og frændi sé glöggur á þær sakir og sjái fljótt, hvað þar er athugavert, en nú held eg þó, að vér getum ekki litið með bjartsýni á fjármálaástandið, eins og það er. Eg vil leiða athygli þingmanna að því, að tekjuhallinn verður á þessum fjárl. nær 450 þús. kr., ef samþyktar verða þær brtill. sem hér liggja fyrir og eg tel engan vafa á, eftir því sem fram hefir komið áður hér á þingi. Þar við tel eg að megi bæta ofhátt reiknuðum tolltekjum, sem nema hér um bil 110 þús., og svo allri aukafjárl. fúlgunni, sem er um 105 þús. kr. Hinn rétti tekjuhalli verður þá nú yfir 660 þús., eða nánar tiltekið 663,367 kr. og nokkrir aurar, eftir því sem mér telst til. Þar við bætast gjöld þau, er ýms lög, er nú hafa verið samþykt af þinginu, hafa í för með sér, svo að óhætt mun vera að færa upphæðina upp í liðug 700 þús. kr. Þetta kemur nú ekki sem bezt heim við álit hv. þm. Seyðf. á fjárhagsástandinu. Ofan á þetta bætist nú einnig það, sem þingið virðist taka alt of lítið tillit til, en það er það, að peningaforði landsj. hefir verið mjög lítill, óhæfilega lítill, síðan í byrjun þessa árs. Áður voru menn ekki ánægðir, eða öruggir, væri hann minni en 600 þús., eða í lægsta lagi 400 þús. Eitthvað þar á milli var hann venjulega, þó jafnaðarlega nær hærri upphæðinni. Nú er hann þetta 2—300 þús., og það er engin sæmilegur peningaforði, þegar þörfin er svo mikil, eins og nú á sér stað, einkanlega með tilliti til þess, að vér stöndum í mjög hárri viðskiftaskuld við ríkisféhirzluna dönsku, og má heimta hana fyrirvaralaust hvenær sem vill. Það þarf ekki annað en að líta á fjárl. og fjáraukal. til þess, að sjá hve mikil peningaþörfin er. Í dag hefi eg t. d. að nefna gefið út skipun um að borga út 2 allstórar upphæðir undir eins og þær séu samþyktar á fjáraukalögunum. Þótt viðlagasjóður sé orðinn veruleg upphæð, þá er hann allur bundinn í lánum, sem flest eru þannig vaxin, að ekki verður með nokkru móti hreyft við þeim, og loks skal eg geta þess, til þess að alt geti orðið sem ljósast um fjárhagshorfurnar, að það er nú orðinn siður, að teygja tekjurnar hærra og hærra ár frá ári, til þess að sem minst beri á greininni aftarlega í fjárlögunum, sem hljóðar um tekjuhallann, og eg sé ekki betur, en að nú sé farið svo hátt í þessu efni með tekjurnar, að lengra sé ekki fært, Áður var það venja að fara mjög varlega í þessar áætlanir og þá aflaðist viðlagasjóði fé, en nú eru þær settar svo hátt, sem frekast verður. Og eg vil minna á enn eitt, sem sagan kennir oss í þessu tilliti. Það má segja, að nú hafi verið góðæri hér á landi í nálægt því 20 ár. Á öllum þeim árum hefir varla komið hafís, svo teljandi sé. Þegar svo hefir lengi árað, þá sýnir sagan oss, að þá er von á hinum mögru árunum; þá má búast við hörðum árum. Eg vil engu spá um þetta, og eg óska að sem lengst mætti haldast góðærið, en eftir reynslu þeirri, er sagan kennir oss, gætum vér nú búist við því að næstu 10 árin yrðu oss erfið. Vér megum búast við aflabresti og grasbresti og þar af leiðandi alls konar skorti öðrum, og ef svo færi, þá mundi lækka á könnu landssjóðs, og það meira en lítið.

Að endingu skal eg taka það fram, sem eg hefi áður sagt í Ed., að þar sem sífelt er verið að vitna í frv., sem virðist hafa átt að vera bót allra vorra fjárhagsmeina, farmgjaldsfrv. sem sé, þá er það svo lagað, að engin stjórn gæti tekið við því, og ekkert þing látið það frá sér fara, með því það yrði gersamlega óframkvæmanlegt eins og málið er nú úr garði gert, og álít eg rétt að taka það fram hér enn þá einu sinni, úr því að enn er verið að hampa þessu lagasmíði, og benda á, að það muni ráða bót á öllum fjárhagsvandræðum.