04.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

13. mál, almennar auglýsingar

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! — Eg minnist þess ekki að hafa nokkru sinni séð í íslenzkum blöðum auglýsingar um innkallanir eða skifti í búum manna, sem búsettir hafa verið í útlöndum. Ekki er mér heldur kunnugt um, að nokkurt löggjafarvald í heimi lögbjóði embættismönnum sínum eða öðrum að birta slíkar auglýsingar eða aðrar því líkar í blöðum útlendra þjóða.

Það er því torvelt að finna nokkra sennilega ástæðu til þess, að lögbjóða oss Íslendingum að birta auglýsingar vorar í útlendum blöðum.

Ekki er heldur gott að sjá sennilega ástæðu fyrir því, að vér skulum birta slíkar auglýsingar í dönskum blöðum, úr því að viðskifti vor eru nú ekki fremur við Danmörku, heldur en t. d. við Bretland, Þýzkaland og jafnvel Bandaríkin í Ameríku, Frakkland, Spán og ýms önnur lönd.

Þessi ákvæði stafa vitanlega frá þeim gömlu tímum, er viðskifti vor voru bundin við Danmörku og Danir settu oss lög og gættu síns réttar en eigi vors.

Þetta er í löggjöf vorri líkt og botnlanginn í manninum, gamalt líffæri, sem einu sinni vann nytsamt starf meðan mennirnir voru grasbítir, en er nú orðið óþarft og skaðlegt, eftir að lifnaðarhættir vorir eru orðnir svo breyttir, að ekki þarf á því að halda.

Nú er vér höfum sjálfir löggjafarvald í málum vorum, þá er það sjálfsagt, að vér skerum þennan danska botnlanga úr löggjöf vorri. Og þeir eru fleiri botnlangarnir í henni, bæði danskir og íslenzkir, sem sömu leið mega fara.

Vænti eg svo góðs byrs um deildina fyrir frumv. — Brtill á þgskj. 62 tekur nefndin aftur.