06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Ari Jónsson:

Eg ætla að eins með örfáum orðum að færa ástæður fyrir atkvæði mínu um einn lið í fjáraukalögunum, nefnilega fjárveitinguna til háskólans. Eg hefi frá byrjun verið hlyntur því að háskólinn kæmist á hér og er sömu skoðunar, því að eg álít þetta eitt hið ákjósanlegasta framfaraspor, sem við getum stigið. En þegar um fjárveitingu til hans er að ræða, þá kemur ekki einungis til greina reksturskostnaðurinn, það er kostnaður við áhöld, húsnæði og fleira, heldur eru hér einnig 2 flokkar manna, sem taka verður tillit til kennarar og nemendur. Nú er farið fram á launaviðbót fyrir núverandi kennara og er þar með hugsað fyrir þeim útgjaldaauka, sem launahækkun kennaranna hefir í för með sér fyrir landið. En á hinn bóginn hefir ekkert verið hugsað um hinn flokkinn, nemendurna, og eg vil geta þess, að eg greiði atkvæði með fjárveitingu til háskólans að eins með því skilyrði, að nú

á þessu þingi verði hækkuð að mun fjárveitingin til þeirra. Sá styrkur, sem nú er í fjárlögunum, eins og þau komu frá nd., ætlaður presta-, lækna- og lagaskólastúdentunum, er svo lágur, að það er að mínu áliti ógerningur að samþykkja fjárveitingu til háskólans, ef þessi styrkur er ekki hækkaður. Það þarf ekki síður að hugsa fyrir styrkhækkun til nemenda en launahækkun fyrir kennara. Eg greiði því að eins atkvæði með fjárveitingu til háskólans vegna þess að eg geri fastlega ráð fyrir að brtill. um hitt atriðið komi fram, þegar fjárlögin verða til umræðu hér í deildinni.