07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vil þakka háttv. þm. Dal. (B. J.) fyrir mótmæli hans gegn ummælum háttv. þm. G.-K. (B. Kr.). Eg er sammála honum í öllu, sem hann sagði, en vil leyfa mér að bæta við nokkrum atriðum. Háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) talaði um nýjar leiðir í læknisfræðinni, og benti sérstaklega á christian science. En þekkir hann christian science? Getur hann sagt, hver er kjarni þeirrar hreyfingar? (Björn Kristjánsson: Andlegar lækningar). Þó að eg sé ekki fróður í þessum efnum, hygg eg að eg viti meira en hinn háttv. þm. Höfundur hreyfingarinnar er kona, sem dó fyrir 1—2 árum; hún hefir gefið út mikið af bókum og hafa flestar þeirra verið sendar landsbókasafninu, og þess vegna hefi eg getað aflað mér nokkurrar þekkingar á þessu máli. Hér er um trúarbragðakenning að ræða, en ekki um neina nýja leið í læknisfræðinni. Þeir, sem í þennan félagsskap ganga, skuldbinda sig til að leita aldrei læknishjálpar og nota aldrei læknislyf; þeir trúa því, að allir sjúkdómar séu sjúkdómar á sálinni, og að alt verði læknað með föstum og bænahaldi. Um árangurinn er það að segja, að vitanlega hefir mörgum orðið að trú sinni og þeir fengið fullan bata, en fjöldi hafa líka dáið. Það er fjöldi manna, sem að eins þjáist af ímyndunarveiki, eða þá af þeim sálarsjúkleik, sem hugarfarið hefir áhrif á; þeir læknast af trú. Mikið af lækningum allra skottulækna (og líklega eitthvað af lækningum lærðra lækna) eru trúarlækningar. — Ekki tjáir að fullyrða, að skottulæknar hverfi úr sögunni, þó að lærðum læknum fjölgi. Það er kunnugt, að hvergi hér á landi eru svo margir og góðir læknar, sem í Reykjavík. Og þó þrífast skottulæknar hér afbragðsvel. »Grasagudda« (sem reyndar heitir víst Ólöf) og fleiri njóta hér mikils trausts, bæði hjá æðri og lægri. Eg vil leyfa mér að bæta hér við dálítilli sögu. Fyrir nokkru kom heim til mín hálfvaxinn drengur og beiddi mig að útvega sér eitthvað að gera. Eg fór að spyrja hann eitthvað um föður hans, sem eg þekti, og sagði hann mér, að hann hefði legið l½ ár, en nú hefði hann leitað til L. hómópata, sem þegar hefði séð, hvað að honum gekk: það var »40 álna langur bendilormur«! En ekki gat hann sagt mér, hvernig L. hefði farið að mæla þetta kvikendi. Nei, það er ekki hætt við, að hjátrúin hverfi á þessu svæði; þeir sem örvænta um heilsu sína grípa eftir slíku, eins og druknandi maður fálmar eftir hálmstrái, aðrir leita sér slíkra lækninga, af því að þær eru ódýrari, eða þá af fávizku; og margir fá bata af þeim, af því að margir þjást af ímyndunarveiki og læknast af trúnni.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) fann það frv. þessu til foráttu, að það hefði ekki verið rætt á þingmálafundum, — mér heyrðist hann jafnvel tala um »referendum« í þessu máli. En einmitt slík mál, sem eru vísindalegs eðlis, eru mjög illa til þess fallin, að útkljást á þann hátt. Það væri eins og að skipa barn í dómarasæti eða láta blindan dæma um lit. Eg er því fyllilega samdóma hinum hv. þm. Dal. (B. J.) um, að það er hin mesta furða, að slíkar skoðanir skuli koma fram á löggjafarþingi siðaðrar þjóðar. Mér kemur það því mjög á óvart, ef það skyldi reynast satt, sem mér barst til eyrna rétt í þessu, að hv. meiri hl. ætli sér að skipa háttv. þm G.-K. (B. Kr.) fremstan í nefnd í þessu máli. Ef svo ólíklega fer, þá er það vottur þess, að meiri hl. telji háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) æzta dómara í þessu máli, og vil eg leyfa mér að skjóta því undir flokkinn, hvort hann telji menningarástandi sínu og alþingis virðingarauka að slíkri kosning.