27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Magnússon:

Eg get skrifað undir hvert orð af því, sem háttv. 1. þm. N.-M.

(J. J.) sagði. Það var neyðarúrræði fyrir suma okkar, sem í nefndinni vorum og sem vorum sömu skoðunar og háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) að ganga að sumum breytingum hennar. En við vildum heldur samkomulag en eiga það á hættu, að frumv. félli og á sama máli var landlæknir. Við teljum frumv., jafnvel með breytingunum, svo mikla lagabót, að okkur þótti vissara að koma okkur saman við hina, sem í rauninni engar breytingar vildu gera á því, sem er. Aðalkostur og tilgangur frv. er, að koma því svo fyrir, að allir læknar séu háðir eftirliti og að hægt sé að hindra þá frá að gefa sig við lækningum, sem sýna það, að þeir eru skaðræðisgripir; auk þess er það tilgangur frumvarpsins að leggja þá skyldu á alla lækna að gefa skýrslur um sjúkdóma, og hefir það meiri þýðingu en margur heldur. Að öðru leyti skal eg ekki orðlengja um þetta.