23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

70. mál, forgangsréttur kandídata

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Eg vona að hin háttv. deild verði nefndinni sammála um, að frumv. þetta sé gott og nauðsynlegt. Allar aðrar þjóðir tryggja háskóla sína með því að veita þeim einum rétt til embætta, sem leyst hafa af hendi próf við þá. Undantekning er að eins gerð, þegar nafnfrægir vísindamenn eru kvaddir til kennaraembætta, þótt útlendir séu. Þessari reglu er fylgt um öll Norðurlönd, ekki síður en annars staðar, og svo varkárir eru t. d. Danir í þessu efni, að kandídatar frá læknaskólanum héðan hafa ekki veniam practicandi þar í landi, og það þótt vitanlegt sé, að íslenzkir kandídatar hafa reynst vel á sjúkrahúsum í Khöfn og gengið þar óátalið í stað danskra kandídata. En hér á landi hefir það farið fjarri, að hinar æztu mentastofnanir væru lögverndaðar; þvert á móti hafa kandídatar frá háskólanum hingað til haft forgangsrétt til embætta hér á landi. 2. eink. háskólamanna í guðfræði og læknisfræði hefir verið látin jafngilda 1. einkunn héðan. Þegar lagaskólinn var stofnsettur, brugðu Íslendingar þó út af þessari furðulegu reglu, og í reglugerð hans er mælt svo fyrir, að eigi geti aðrir fengið lögfræðingsembætti hér á landi en þeir, sem tekið hafi próf við hann.

Frumv. það, sem hér liggur fyrir, á nú að girða fyrir, að háskólinn íslenzki verði markaður sama fyrirlitningarmarki, sem hinar eldri mentastofnanir, prestaskólinn og læknaskólinn, og að Íslendingar þannig driti í sitt eigið hreiður. Enda verða væntanlega allir samdóma um, að slík lög séu háskólanum nauðsynleg, því að hann yrði oss til vanvirðu, en ekki til sæmdar, ef þeir sem þar lúka námi væru gerðir réttlægri við embættaveitingar en menn, sem leyst hafa próf af hendi við aðra háskóla. Samkvæmt frv. geta útlendingar eða þeir sem lokið hafa prófi við útlenda háskóla ekki orðið embættismenn hér á landi, nema hvað landstjórnin getur veitt útlendum mönnum kennaraembætti við háskólann eftir tillögum háskólaráðsins, og útlendir læknar geta fengið leyfi til að stunda lækningar hér á landi, ef þeir fá meðmæli frá læknadeild háskólans. En auðvitað er undanþága þessi ekki bundin við neitt einstakt land, útlendir læknar og háskólakennarar, sem hér fengju embætti gætu t. d. eins vel verið tyrkneskir eins og danskir. Það er allsendis ástæðulaust að láta danska háskólann hafa nein forréttindi hér á landi; að vísu skal því ekki neitað, að hann er mjög fullkomin mentastofnun, en þó munu háskólar hinna Norðurlandaþjóðanna fyllilega jafnast við hann. Og ekki ættu danskir háskólakandídatar að njóta hér forréttinda fremur fyrir það, að Danir veita ekki læknum héðan lækningaleyfi í Danmörku, þótt þeim sé um fátt tíðræddara, en að Ísland sé hluti Danaveldis. Það er líka annað mikilsvert atriði í þessu máli, að þeir Íslendingar, sem fara til útlanda til þess að afla sér fullkomnari mentunar, en hér getur fengist, leiti ekki allir til sama háskólans, heldur dreifist víðar um mentalönd álfunnar. Á þann hátt mundi íslenzk menning verða fjölbreyttari og þekking annara þjóða á landinu og þjóðinni aukast. Það er mikilsvert, að sem flestum verði kunnugt, að Íslendingar eru sjálfstæð menningarþjóð, og að vér þó þrátt fyrir alt erum einráðir um mentamál vor. Það verða aðrar þjóðir að vita, ef þær eiga að viðurkenna rétt vorn til þess að verða fullvalda þjóð, en það er sameiginlegt takmark vor allra, hvern flokk sem við fyllum.

Að lokum vil eg óska, að frv. fái að ganga mótmælalaust og með öllum atkv. til 2. umr., því að þessi lög eru sjálfsögð.