13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

67. mál, réttur kvenna

Flutningsmaður (Hannes Hafstein):

Báðir háttv. þm., sem móti þessu frumv. hafa talað, eiga sammerkt í því, að það er eins og þeir haldi, að hér sé um það að ræða, að veita kvenmönnum einkarétt til allra embætta, en útiloka karlmenn frá þeim. Það er eins og þeir gangi út frá því, að velja skuli um það, hvort að eins karlmenn eða að eins kvenmenn séu embættismenn. En þetta er alger misskilningur. Hér er ekki farið fram á annað en það, að konum verði ekki synjað um námsstyrk við æðri mentastofnanir, ef þær hafa sömu skilyrði að öðru leyti eins og karl­menn, og að þær séu ekki útilokaðar frá embættum, fyrir það eitt, að þær eru ekki karlkyns, þótt þær að öðru leyti séu hæfari til starfsins, heldur en karlmaður, sem á móti þeim sækir.

Það hefir engum komið til hugar, að skylda konur með lögboði til að gegna nokkuru embætti, en ef konan tekur starfið að sér, þá liggur það í augum uppi, að á henni hljóta að hvíla sömu skyldur og karlmanni, sem embættið fengi. Þetta er tekið beint fram í frv. til þess að veitingarvaldið geti í það og það skiftið tekið til greina, hvort kona sú, er um embættið sækir, sé fær um að gegna því að öðru leyti, án þess að litið sé á kunnáttu hennar eingöngu. En hitt viljum við koma í veg fyrir, að kona, sem sækir um embætti og bæði að andans og líkamans burðum er hæf­ari en mótkandídatinn, sé útilokuð af þeirri ástæðu einni, að hún er kona. Slíkt er hið hróplegasta ranglæti, sem mér finst heilög skylda að nema úr lög­um sem fyrst.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) gat þess, að það væri undarlegt, að eg hefði aldrei meðan eg var ráðherra, komið fram með líkt frv. og þetta. Gat hann þess til, að eg hefði líklega raknað úr rotinu við það, að dóttir mín gekk í Mentaskólann í fyrra haust. Einnig fann hann mér það til foráttu, að eg hefði ekkert gert fyrir dóttur ekkju einnar hér í bænum, sem sat í Mentaskólanum, meðan eg var ráðherra, en nú er orðin stúdent. Eg vil að eins svara þessari seinni ásökun. Af hinni ásökuninni má hann njóta heiðursins í friði fyrir mér. Það er eins og svo oft hjá þessum háttv. þingm. Hann talar digurt um það, sem hann hefir ekkert vit á. Stúlkan, sem hann talaði um, naut einmitt námsstyrks í Mentaskólanum, en þegar hún var orð­in stúdent, sigldi hún til Khafnarháskóla og þar hefir hún engan styrk fengið. Það er einmitt móðir þessarar ungu stúlku, sem hefir vakið mig til þess að flytja þetta frumvarp nú, og eg geri það í sambandi við þau pólitísku réttindi, sem eg býst við að þetta þing samþykki konum til handa. Meðan eg var ráðherra var engin stjórnarskrárbreyting á seyði og naumast von um, að koma þessu frumv. fram.

Á síðasta þingi er mér sagt, að einn háttv. þm., eg veit ekki, hvort háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) kannast við hann? — hafi lofað frú þeirri, er eg gat um — sem stendur mjög framarlega í kvennréttindabaráttu þessa lands — að flytja frumvarp í þessa átt inn á þingið. En hann sveikst um það. Ástæðuna fyrir því veit eg ekki.

Eg lít svo á, að jafnvel þó það kunni að mega segja með nokkrum rétti, að það sé varhugavert að kasta öllu kvenfólki undirbúningslaust inn í stjórnmálaþrefið og pólitískar kosningaæsingar, þá sé jafnréttið til þess að njóta námstyrks og gegna embættum svo sjálfsagðar, að það megi ekki lengur eiga sér stað, að kon­um sé bægt frá því, ef þær uppfylla sömu skilyrði og karlmenn, að því er hæfileikana snertir. Það er fjarri öllu viti, að vera að tala um þau forföll, að konur geti lagst á sæng og því eigi gegnt embættum. Karlmenn geta líka forfallast, þó þeir forfallist ekki af þess­ari ástæðu. Eg skil ekki slíka röksemda­færslu.

Eg hefi áður leitt athygli manna að því, að það er mjög ósennilegt, að gift kona, sem heimilisstörfum hefir að gegna, fari að sækja um embætti eða haldi áfram embættisstörfum, ef hún kemst í þær kringumstæður. Og ógift kona, sem embætti hefði að gegna, mundi, eftir þeirri reynslu, sem við höfum um kvenlega starfsmenn við opinberar stofnanir, leggja embættið niður, þegar hún giftist. Þá held eg, að aðalatriðunum í ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sé svar­að. Sumt af því, sem hann sagði er þess eðlis, að gagnslaust er að vera að eyða tíma deildarinnar í að ræða það.