06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

15. mál, verslunarbækur

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það er ekki rétt hjá hinum háttv. þm.

S.-Þing. (P. J.), að eg hafi sagt, að breyt.till. hans væri ekki til skaða, það sagði eg ekki, heldur þvert á móti, að hún skaðaði lögin, en ekki svo mikið, að eg fyndi ástæðu til þess að gera það að kappsmáli. Hann talaði um það, hversu mikil tímatöf þetta væri, og skírskotaði til reynslu sinnar, en eg ímynda mér, að eg hafi alt eins mikla reynslu í verzlun eins og háttv. þm., því eg hefi verið við verzlun, bæði hér heima og vestan hafs, og notað þessar kalkibækur; og eg er satt að segja hissa á þingm að halda því fram, að þetta sé tímatöf, því það er honum þó kunnugt um, að alt sem út er tekið og ekki borgað þegar í stað, er skrifað í bók, og ef kalkipappír er á milli blaðanna, þá er fyrirhöfnin engin önnur, en að kippa í burtu blaðinu og fá það þeim sem kaupir. Þetta á sér alstaðar stað, nema hér á Íslandi. Eg þykist hafa eins mikla reynslu fyrir mér í þessu efni og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), en af því að hér er um lítilræði að ræða, sé eg eigi ástæðu til þess að fara lengra út í það.