28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

63. mál, Húsavík með Þorvaldsstöðum

Björn Sigfússon:

Mér þykir ástæða til að geta þess, að fyrir mér hefir vakað í nefndinni, að verð jarðarinnar Húsavíkur væri of lágt sett, ef kúgildin væru með í kaupinu. Nú er því svo varið, að verð það, að upphæð 25,000 kr., er farið er fram á að jörðin verði seld fyrir, stendur heima við lóðargjöldin í kauptúninu Húsavík, eins og þau eru nú, eða því sem næst. Það eru nokkrar líkur fyrir því, að jörðin hækki í verði, þar eð lóðargjöldin munu aukast við nýjar lóðaútmælingar. En þó að líkur séu til, að eftirgjaldið kunni að aukast eftirleiðis, er eg samt sem áður ekki á móti því, að kauptúnið fái jörðina keypta, af því það er svo mikilsvert fyrir það, að geta ráðið yfir hinu óræktaða landi, sem nú er og skifta því niður til ræktunar handa þurrabúðarmönnum. Gæði þess og verðmæti mundu vaxa stórkostlega við það, að þorpsbúar leggi fé sitt og vinnu í ræktunina, en þá eiga þeir líka að njóta verka sinna, og er það landssjóði skaðlaust. Haldi landssjóður áfram að vera eigandi, mundu leiguliðarnir miklu síður beita sér til að rækta þetta land.