20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

97. mál, eftirlaunahækkun

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Eg vil leyfa mér að gera stuttlega grein fyrir því, hvers vegna þetta frumv. er fram komið. Eg þykist vita, að sumum þingmönnum muni virðast það óþarfi, að flytja nú frumv. um niðurfærslu eftirlauna, meðfram af því, að nú er á ferðinni stjórnarskrárbreyting, er gerir ráð fyrir því, að afnema megi eftirlaun með öllu. En nú skal eg gera nánari grein fyrir þessu. Fyrsta ástæðan er sú, að á þingmálafundum meðal kjósenda okkar flutningsmanna var skorað á okkur að flytja málið um lækkun eða afnám eftirlauna á þinginu, til þess að það yrði íhugað þar, og sams konar óskir liggja frammi hér á lestrarsalnum úr fjöldamörgum kjördæmum öðrum. Nú er á það að líta, að ekki mun unt, eins og nú stendur, að afnema eftirlaunin fyrir fult og alt. Hins vegar spurning um það, hvort það er hyggilegt að öllu leyti, að það sé gert. Skoðanir manna um það efni eru allskiftar; sumir vilja lækka þau mikið, aðrir afnema þau með öllu. Eg verð nú að játa það fyrir mitt leyti, að hér er úr vöndu að ráða. Eg kannast við það, að gagnvart öðrum stéttum í landinu væri það eðlilegast og hugsunarréttast, að afnema öll eftirlaun embættismanna. En ef það er gert, má búast við ýmsum óþægindum, er af því gæti leitt. Eftirlaunin mundu naumast fást afnumin, nema þá með því að hækka um leið laun ýmsra embættismanna. Einnig mundu þá, ef eftirlaunin væru með öllu numin í burtu, rigna inn á þingið sífeldum bænum um eftirlaun handa þeim, sem þykjast hafa lág laun, og sem lítið eiga til.

Þessar fyrirsjáanlegu afleiðingar gefa ástæðu til athugunar, áður en eftirlaun verða afnumin. Það er spurning um það í fjárhagslegu tilliti, hvort nokkurt gagn yrði að því að afnema öll eftirlaun, ef það hefði í för með sér mikla hækkun á launum embættismanna landsins.

Þá vil eg geta þess, að í þessu frv. er að eins farið fram á að miða eftirlaunin við embættisár þau, er viðkomandi embættismaður hefir gegnt embætti. Hér er því um nýjan grundvöll að ræða í þessu efni.

Í núgildandi lögum um eftirlaun eru eftirlaunin miðuð sumpart við embættisár og sumpart við embættistekjur hlutaðeigandi embættismanns. Eftirlaunin eru með öðrum orðum bundin við ákveðið krónutal fyrir hvert embættisár, og svo ? hluta af árslaunum mannsins, meðan hann var í embætti. En í þessu frv. er að eins og eingöngu miðað við árafjöldann, án tillits til launa-upphæðarinnar. Þetta er nýmæli, bygt á fylstu sanngirni og réttlæti.

Það gefur að skilja, að það er ekki aðalatriðið, hve hálaunuð staðan hefir verið, heldur hitt, hvernig henni hefir verið gegnt. Það fer ekki saman nema stundum há laun og samvizkusamur embættisrekstur. Auk þessa er og á það að líta, að embættin með lágum launum eru oft fult eins erfið og erfiðari en hin, sem betur eru launuð, og þeir, sem í þeim sitja, hafa oft orðið að leggja meira á sig í þarfir lands og þjóðar, heldur en hinir, sem hærra eru settir, og betur eru launaðir. Það er því óréttlátt að miða eftirlaunin við embættistekjurnar, eins og gert hefir verið að nokkru leyti til þessa. Þess vegna vill frumv. nema burt þennan ójöfnuð, og eg vona að mönnum skiljist, að það er réttlátt, þegar þeir athuga það. Sams konar ákvæði og þetta gildir nú um eftirlaun presta. Eftirlaun þeirra eru 15 kr. fyrir hvert embættisár, er þeir hafa gegnt embætti. En í frumv. þessu er þó farið hærra; þar er gert ráð fyrir 25 kr. fyrir hvert embættisár. Þó mega eftirlaunin aldrei vera hærri en 1000 kr.

Þá er á það að minnast, að eftirlaun embættismanna hafa meðal annars komið inn hjá almenningi þeirri skoðun, að það sé mjög eftirsóknarvert að gerast embættismaður og eiga von á góðum launum, og síðan að loknu embættisstarfinu ríflegum eftirlaunum. Þetta hefir leitt til þess, að fjöldi manna hefir tekið þá stefnu, að ganga skólaveginn, og það miklu fleiri en æskilegt hefði verið. En afleiðing af því er orðin sú, að hingað hefir safnast stór hópur af »lærðum« mönnum, með prófi og próflausum. Og það er ekki fyrirsjáanlegt, að þessir menn geti fengið embætti í nálægri framtíð. En þetta er skaði fyrir þjóðina og tjón fyrir mennina sjálfa og aðstandendur þeirra, er lagt hafa fram námskostnaðinn.

Nú eru þeir margir, einkum lögfræðingar, sem ekkert hafa að gera, og afleiðingin af því verður sú, að þessir menn fara þá að búa sér til atvinnu, sem oft er misjafnlega séð og misjafnlega holl þessum bæ og þjóðinni í heild sinni.

Það, hve margir ganga lærða veginn, á einmitt rót sína að rekja til þess, að þeir eiga von á hærri launum en menn fá alment í öðrum stöðum, og vissu um lífeyri eða eftirlaunin í ellinni, að loknu starfi.

Eg skal ekki fara út í einstakar greinar frumvarpsins að sinni. Eg hefi að eins viljað skýra hér frá aðaltilgangi frumvarpsins, sem er sá, að málið sé tekið til rækilegrar íhugunar, svo séð verði, hvort heppilegra muni að afnema eftirlaunin með öllu eða lækka þau að miklum mun.