03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

158. mál, eftirlaunaafnám

Jón Ólafsson:

Háttv. 1. þm. S,-Múl. (J. J.) mintist áðan á öldu þá, sem reis hér á landi fyrir 30 árum á móti eftirlaunum. Eg vil játa, að eg er sekur í því máli, eg var mjög hvetjandi þess, að. sú hreyfing væri vakin. Eg var einmitt í gær að lesa gamla ritgerð eftir sjálfan mig um þetta mál. Eg spurði þar: Hver sér fyrir bóndanum, hjúinu, lausamanninum á elliárunum? Og þá var full ástæða til að bera slíka spurningu fram. En nú er öldin önnur; nú hefir sú réttláta stefna rutt sér til rúms, að allir eigi að komast á eftirlaun, og virðist þá ósanngjarnt að hafa embættismennina eina að olnbogabörnum að því leyti. Það er hart, ef sú stétt, sem er í þjónustu landsins á að verða harðar úti, en hjú eða iðnaðarmenn.

Í Bandaríkjunum eru embættismenn eftirlaunalausir. En nú er mikil hreyfing komin í þá átt, að veita embættismönnum eftirlaun. Þar er reynsla fyrir því fengin, að embættismenn láta freistast til að »gera sér vini af hinum rangláta Mammoni«, en svo mundi síður verða, ef þeir fengju eftirlaun. Það er hættuminna, að sjá þeim borgið með eftirlaunum, heldur en að þeir dragi sér fé ranglega.

Ef litið er á seinni hluta tillögunnar, sést að nefndinni hafa þótt laun embættismanna of lág til þess, að þeir geti keypt sér ellistyrk. Eins og háttv. framsm. (S. S.) tók fram, voru laun embættismanna lækkuð fyrir nokkrum árum. Síðan hafa peningar fallið í verði um ¼—? og launin að sama skapi orðið í reyndinni lægri. Mér finst það vera að taka úr einum vasanum og láta í hinn, að afnema eftirlaunin og hækka launin. Mér hefði fallið tillagan betur svo, að skorað væri á stjórnina, að koma með tillögur um nýja skipun eftirlauna og breytingar á launakjörum samkvæmt því. Þótt launin væru hækkuð og embættismönnum gert að skyldu að sjá sér fyrir ellistyrk, mun sú raun á verða, svo sem hefir verið á þessu þingi og endranær, að embættismenn munu koma með styrkbeiðnir til þingsins. Eg tel skaðlaust, að tillagan falli, þótt eg játi, að hún sé í góðu skyni fram borin. Umræðurnar um málið veita stjórninni nægar bendingar, ef hún vill sinna málinu.

En svo er önnur hlið á málinu, formið. Það er ekki löglegt samkvæmt stjórnarskránni að afnema eftirlaun. Nú liggur fyrir þinginu stjórnarskrárbreyting og ef það frv. fellur, sem vel má vera, því miður, þá er það andhælislegt að skora á ráðherra að búa til frumv. móti stjórnarskránni. Eg tel því réttara að taka málið út af dagskrá, þangað til útséð er um stjórnarskrármálið. Raunar ætti slík tillaga sem þessi þó ekki að koma fram fyr en á síðara þinginu, sem hefir stjórnarskrárbreyting til meðferðar.