18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

120. mál, farmgjald

Framsögum. meiri hl. (Benedikt Sveinsson):

Það er hvorttveggja, að fundur er orðinn nokkuð langur, enda hefir nú flutningsmaður þessa máls 1. þm G.-K. (B. Kr.) gert rækilega grein fyrir frv. og rökstutt sitt mál vel, svo að eg þarf ekki að vera langorður.

Því verður varla neitað, að þær mótbárur, sem komið hafa fram gegn þessu frv, snerta það harla lítið. Fyrst og fremst eftirlitið, það væri ekki hægt í svona strjálbygðu landi að hafa nægilegt tolleftirlit, ef frumv. þetta yrði að lögum, nema að setja á stofn eitthvert tolleftirlitsbákn. Til þessa er því að svara, að engu óhægra getur verið að hafa eftirlit með þessu fyrirkomulagi, heldur en þótt vörutegundirnar væru færri og tollurinn hærri. Þá er freistingin einmitt mest að svíkja og hægra að koma við hrekkjunum. Setjum nú svo, að altaf sé svikinn tollur á einhverju, en þá gerir það landssjóði miklu minna til, þegar gjaldið er lágt, skaðinn er þá ekki svo tilfinnanlegur.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) fann frv. þessu það til foráttu, að hér væri skift um »princip« í tollmálunum. Það er að vísu svo, en þrátt fyrir það er enganveginn sjálfsagt, að það eigi að verða frv. þessu að falli. Hv. þingmaður hefir sjálfur viljað taka upp nýtt »princip« til þess að afla landssjóði tekna. Hann mælti með »monopol« á nokkrum vörutegundum fyrir landssjóð, og er eg honum sammála um það mál. Ekki hefir honum þá fundist »nýtt princip« nein dauðasök.

Þá benti hinn háttv. sami þm. á, að í þessu frumv. væri lægra gjald af gimsteinum, heldur en væri af kaffi og sykri. Þetta er að vísu satt, en eg veit ekki betur, en hið sama eigi sér stað nú, að allhár skattur sé lagður á kaffi og sykur, en alls enginn á gimsteina, svo að hér er ekki verið að auka neitt misrétti, enda held eg nú satt að segja, að svo lítið sé flutt inn í landið af þessari vöru, að litlu mundi muna, þótt tollurinn væri all-miklu hærri.

Þá vildi hann gera frv. þetta óvinsælt með því að sýna, hversu þungt gjaldið kæmi niður á fátæklingunum. Þessu skal eg ekki svara miklu, en vona, að háttv. þingm. muni eftir ræðu, er haldin var hér á þingi fyrir fáum árum, þá er hækka átti kaffi- og sykurtoll, — hún var svo sem töluð úr hugskoti þeirra, sem sá tollur kemur þyngst niður á, og þrungin gráti og tannagnístran stórra barnahópa í tómum hreysum fátækra mæðra og snauðra gamalmenna. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) lét þá ræðu ekki mýkja sitt harðúðga hjarta, og kvað þá heldur við annan tón. Nú hefir ræðan rifjast upp fyrir honum og sakir breyttrar aðstöðu hans hefir hann nú tekið hana sér að vopni. — Það er oft skemtilegt að hlusta á slíkar ræður, en betra er þó að þær séu á dálitlum rökum bygðar, ef þær eiga að hafa veruleg áhrif.

Hinn háttv. þm. vildi gera mikið úr, hversu tollur þessi væri gífurlega hár, og fann þá upp á því snjallræði, að telja vörurnar í ekki smærri einingum en heilum smálestum. Kvað hann farmgjaldið nema alt að 40 kr. af hverri smálest. En þá skulum við nú athuga hversu hár tollurinn er af smálestinni nú af tollskyldum vörum, sem fátæklingar kaupa. Af smálest af kaffi er nú 300 kr. tollur, af smálest af sykri 150 kr. tollur, og þannig mætti halda áfram, og kemur þetta þó þyngst niður þar sem barnahóparnir eru stærstir. Eg bendi á þetta til að sýna fram á, að ekki er mikill vandi að mikla fyrir áheyrendum tolla-álögurnar, þegar beitt er þessari og þvílíkri rökleiðslu-aðferð.

Hinn háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat þess ennfremur, að þetta væri tilraun — því að óvíst væri, hve tekjurnar yrðu miklar — þetta er að nokkru leyti satt. Tekjuáætlun þessari getur skeikað frá því sem áætlað er; hún getur orðið meiri eða minni, þótt eg búist við, að hún muni sanni nær. En svo er um allar tekju-áætlanir landssjóðs, að þeim skeikar oft allmjög, enda þótt um gamla og reynda tollstofna sé að ræða. Hygg eg, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) megi vel minnast þess, að honum kom það oft í góðar þarfir, meðan hann var ráðherra, að tekjurnar af tollum reyndust jafnvel hundruðum þúsunda hærri, en hann hafði ráð fyrir gert í fjárlögunum.

Háttv. þingm. talaði og um það, að »þetta bákn« væri sett að eins til bráðabirgða. Þetta er rangt. Það verður ekki til bráðabirgða, heldur til langframa, ef það reynist vel. Ef það reynist ekki vel og þjóðin finnur annað betra ráð til þess að auka tekjur landssjóðs, þá er öðru máli að gegna. Þá er reynslan fengin og hún er mikils verð.

En eg heyri á umræðunum, að þingmenn búast við því gagnstæða, þeir hyggja farmgjöldin langgæð, ef þau komast á, ella væru þeir ekki að tala um verndartolla, sem þessi stefna mundi innleiða og »leiða langvarandi böl yfir þjóðina«.

Hvaða samræmi er í þessu: Í öðru orðinu að segja: »Þjóðin er þessu andvíg«, — í hinu: »Þjóðin vill ekki missa farmgjöldin, svo að þau verða sjálfsagt ævarandi verndartollur!

Þá gat háttv. sami þm. þess, að lítill vandi væri að fara ofan í vasa manna, en vandinn væri, að féfletta ekki gjaldendur; en því er nú svo farið um allar álögur, að fara verður ofan í vasa manna til þess að ná þeim. Það hefir háttv. þm. gert sjálfur frýjulaust í tollmálum, meðan hann var við stjórn. Og jafnvel þótt þjóðsala væri upp tekin, þá yrði landssjóður að sjálfsögðu að leggja á þær vörur, og þá peninga yrðu svo landsmenn að greiða. Eg er hræddur um, að háttv. þingmanni yrði það ekki jafnauðvelt fyrir sem hann lætur, að afla landssjóði nægra tekna, án þess að einhverjum þætti seilst í pyngju sína.

Eg get annars ekki séð, hvernig svona lágt gjald gæti nefnst verndartollur, — gjaldið yrði þá að hækka stórum. Einn þingmaður nefndi til iðnaðarvarning. Gott. Vér skulum þá taka til dæmis skófatnað. Meðalskór munu vera um tvö pund. Farmgjald: fjórir aurar. Vatnsstígvél 5 pund; farmgjald 10 aurar. Barnaskór hálft pund; farmgjald einn eyrir! — Það yrði háskalegur verndartollur » a’ tarna«!

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) benti ennfremur á, að skip gætu haft margar farmskrár, svo að ótullnægjandi væri að tala um »farmskrá« (í eintölu) í frv. en eg get ekki séð, að orðið geti ekki átt við, þótt það sé notað í eintölu.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) taldi það stórgalla á þessu frv., að vörur mætti taka upp í toll, án undangengins fjárnáms, en þetta sama ákvæði er eins í núgildandi tolllögum. (Jón Ólafsson: Galli eins fyrir því). »Galli eins fyrir því«, segir háttv. þm., en ekki sérstaklega á þessu frv. og eg er hræddur um að þessa ákvæðis þurfi, til þess að menn hafi ekki undanbrögð með greiðslu gjaldsins.