10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

18. mál, sóknargjöld

Framsögum. (Eggert Pálsson):

Það er nú, að eg hygg, nokkurn veginn skýrt og skilmerkilega tekið fram í nefndarálitinu (þgskj. 460), hverri niðurstöðu nefndin hefir komist að frv. þessu viðvíkjandi, og hver rök hún færir fyrir skoðun sinni, svo að eg býst við, að eg hafi þar litlu við að bæta.

Að vísu eru brtill. komnar fram við brtill. nefndarinnar á þgskj, 532 og 533. Nefndin hefir ekki haft neina sérstaka fundi til að ræða þær, enda virðist þess engin þörf, þar eð þær hafa ekki að innihalda neitt nýtt, heldur algerlega hið sama að efninu til og í frumv. sjálfu stendur, svo að um leið og nefndin athugaði frumv. sjálft, hefir hún óbeinlínis athugað brtill. þessar. Það liggur því þannig nokkurn veginn í augum uppi, að meiri hluti nefndarinnar hlýtur að tjá sig á móti breyttill. þessum, eins og hann hefir verið mótfallinn efni þeirra í frv. sjálfu. Breyt.till. á þgskj. 533 er algerlega hið sama, sem stendur í frv. sjálfu 1. gr., fyrri liðar, annarar málsgreinar, sem sé að undanþegnir öllu gjaldi til prestlaunasjóðs skuli þeir vera, sem ekki eru í, eða réttara sagt, segja sig ekki vera í þjóðkirkjunni. Nefndin eða meiri hluti hennar þykist hafa fært skýr rök fyrir því í nefndarálitinu, hvers vegna hún geti ekki aðhylst þannig lagaða breytingu frá því sem nú er. Og sú röksemdafærsla hefir sama gildi gagnvart brtill. á þgskj. 533. Það getur ekki talist rétt eða tilhlýðilegt, að löggjafarvaldið leysi sérhvern spjátrung eða oflátung frá gjaldi til þeirrar stofnunar, sem því lögum samkvæmt, já, samkvæmt sjálfri stjórnarskránni, ber að hlynna að, ef hann að eins sjálfur fyrir »smánarlegs ávinnings sakir« neitar að inna gjaldið af hendi. Að vísu má nú ef til vill halda því fram, að réttur þjóðkirkjunnar sé ekki eða þurfi ekki að vera á neinn hátt skertur, eftir því sem högum er nú háttað, þótt slíkt ákvæði, sem hér er um að ræða, væri lögleitt, þareð sú upphæð, sem prestlaunasjóður misti í við þessa breytingu, yrði að bætast honum aftur úr landssjóði. Sé þannig litið á, er það hið sama sem að segja við hvern sem vera skal: »Heyrðu, kunningi, gerðu sem þér sýnist, að borga sjálfur eða landssjóður borgar fyrir þig«. Ef slíkir kostir væru boðnir af löggjafarvaldsins hálfu, getur þá nokkur maður efast um, að þeir yrðu í mörgum tilfellum með þökkum þegnir? — Til þess að þiggja slíka kosti, þarf maðurinn ekki að vera neitt andvígur kirkjulegum málum í hjarta sér, heldur aðeins hugsa sem svo: Það er nógu breitt bakið á landssjóði, það er bezt að hann borgi fyrir mig, fyrst hann býðst til þess. En að beita slíkri aðferð, væri vitanlega einmitt hið herfilegasta ranglæti. Því að hverjir eiga að fylla skarðið, sem við þetta myndast í landssjóði? Það yrðu vitanlega landsmenn allir í heildinni að gera. Það yrði að hvíla jafnt á þeim, sem hefðu borgað sitt skyldugjald, sem hinum, er ekkert hefðu int af hendi, svo að þeir kæmu þannig til að borga tvöfalt, en hinir ekki. — Slíkt getur því ekki með nokkuru móti gengið svo, að rétt og sanngjarnt geti talist. Ef leysa ætti nokkra innan þeirra aldurstakmarka, sem löggjafarvaldið kann að setja, og ósjálfráðar ástæður hamla ekki frá að nota prest og kirkju, þá verður að leysa alla undantekningarlaust; en það er sama sem öll gjöld til kirkjunnar skuli greiðast úr landssjóði. En til þess getur nefndin ekki ráðið, þar eð það mundi ríða í bága við þá hugsun, sem fyrir mörgum vakir, að leysa sundur ríki og kirkju, og á hinn bóginn veitast erfitt að bæta landssjóði þau útgjöld. Gengur illa að afla honum tekna, eins og er, þótt þau útgjöld öll bættust ekki við.

Af sömu ástæðu, að tekjur prestlaunasjóðs mundu skerðast til mikilla muna og landssjóður bíða afarmikinn hnekki, ef brtill. á þgskj. 532 eða sams konar ákvæði frumv. sjálfs yrðu samþykt, hlýtur meiri hluti nefndarinnar að vera á móti því hvorutveggju.

Hvað vitfirta menn áhrærir, þá virðist svo, sé vitfirring þeirra viðloðandi, að þá megi fullkomlega reikna þá sem fábjána. En sé hún að eins um stundarsakir, þá er hana að eins að skoða, sem hvert annað sjúkdómstilfelli. En að leysa þá alla undan umræddu gjaldi, sem vegna sjúkdóms eða annara atvika geta ekki unnið fyrir sér meiri hluta ársins, er með öllu óútreiknanlegt, hverju munaði, auk þess sem sóknarnefndir yrðu í vanda settar að dæma um slíkt. Og þessvegna hlýtur meiri hluti nefndarinnar að ráða frá því, að slíkt ákvæði verði samþykt.

Ef manntalið 1908 er lagt til grundvallar, sést það, að þeir, sem voru yfir 70 ára, voru þá 3270 manns. Af þessum 3270 má gera ráð fyrir, að fullur ?, falli á árin 70—75, svo að nær sanni sé, að það yrði nálega 2 þús. manna, sem losnuðu við gjöld til prestlaunasjóðsins, eftir uppástungu meiri hluta nefndarinnar að sleppa þeim við gjöld, sem orðnir væru 75 ára að aldri, og gera mundi þannig nálægt 3 þús. kr. Og er það eigi meira en svo, að prestlaunasjóðinn munar ekki mikið um það, ef það reyndist vinsælla. Aftur á móti hlyti að muna mikið um það fyrir prestlaunasjóðinn, ef aldurstakmörkum þeim, sem stungið er upp á í frumv. og í brtill. á þgskj. 532 væri fylgt. — Eftir sama manntali eru þeir, sem eru 15—20 ára 8562 menn. Og taki maður ? af því, sem lætur nærri, þar sem stungið er upp á, að færa aldurstakmarkið að neðan úr 15 árum upp í 16, þá gerir það 1712 menn. Og sé aldurstakmarkinu að ofan þokað svo mikið niður, sem breyt.till. fer fram á, ofan í 60 ár, mundi mega gera ráð fyrir, að af þeim 14448 manns, sem eru yfir 50 ára aldur, væru full 5 þúsund manns, sem losnuðu við gjaldskylduna, ef miðað væri við 60 ára aldurinn, svo að þetta hvorttveggja til samans, færsla aldurtakmarksins að neðan um 1 ár og að ofan niður í 60 ár, mundi óefað rýra tekjur prestlaunasjóðs um gjöld ca. 7000 manna eða 10—11 þús. kr. En það er stærri upphæð en svo, að nefndin geti ráðlagt háttv. deild að hallast að því.

Auk þess ber á það að líta, að það að leysa svo marga undan gjöldum til kirknanna mundi leiða til hinna mestu vandræða fyrir eða með hinar ýmsu kirkjur landsins, sem margar eru í höndum einstakra manna. Af því hlyti að leiða annaðhvort, að þær töpuðu miklum tekjum, eða það yrði að íþyngja þeim með svo miklum gjöldum, sem eftir yrðu, að þeir fengju vart undir risið og neyddust máske til að segja sig úr þjóðkirkjunni, þótt ekki vildu.

Nefndin getur ekki verið með því að jafna þessu gjaldi niður. Niðurjöfnun er alt af allmjög af handahófi, og það þekkja þeir menn, sem við niðurjöfnun hafa fengist, að það er eitthvert hið versta verk, og óvinsælt að sama skapi. Innheimta á því yrði og mjög ógeðfeld. Nefndin vill því ekki breyta þeirri innheimtu, sem nú er í lögum.

Frá meira hluta nefndarinnar er nokkur breyting á 11. gr. laganna, þannig að skýrara sé tiltekið, við hvern dag gjaldskyldan skuli miðast. Í lögunum er ekkert um það sagt, en stjórnarráðið hefir úrskurðað, að miðað skuli við fardaga. Eins og gefur að skilja deyja menn á tímanum frá því í fardögum þangað til manntal fer fram, ?: í desember, eins og öðrum tímum ársins, en eftir úrskurði stjórnarráðsins á einnig að heimta gjöld af þeim, sem dáið hafa á þessum tíma. Þetta þótti nefndinni óeðlilegt og leggur því til, að gjaldskyldan skuli vera í desember. Þetta er svo sjálfsögð breyting, að eg þarf ekki að ræða um það frekara. Það virðist vera alveg sjálfsagt Það er óaðgengilegt ef gjalddagi er ekki fastákveðinn í lögunum, eins og nú á sér stað.

Nú hefir verið útbýtt nýjum breyt.till. á þgskj. 616. Nefndin hefir ekki haft þessar breyt.till. til meðferðar, eins og þær liggja fyrir, en nefndinni hafa borist skjöl þau, sem þessar tillögur eru bygðar á og hún hefir athugað þau skjöl. Því hefir verið þannig varið með marga presta, að þeir hafa tapað við þá breytingu, sem gerð var á gjaldinu með lögunum frá 30. júlí 1909. Á næstu árum á undan lét ávalt betur og betur í ári og tekjur presta stigu því þau árin mikið. Og þegar lögin frá 1909 ákváðu, að tekjurnar skyldu miðast við meðaltekjurnar á 5 síðustu árunum, þá urðu tekjur prestanna lægri en þær höfðu verið næstu árin á undan, áður en lögin gengu í gildi. Sérstaklega höfðu dagsverk og lambsfóður verið hærri allra síðustu árin, en þau urðu eftir meðaltali 5 áranna.

Meiri hluti nefndarinnar getur því ekki ráðið til, að breyt.till. á þgskj. 616 verði samþyktar, þótt hún játi, að þær séu bygðar á sanngirni að ýmsu leyti og hafi við talsverð rök að styðjast. En það mundi auka svo mikið útgjöld prestlaunasjóðsins, ef þær væru samþyktar og breyta svo mikið frá því ástandi, sem nú er, að nefndin getur ekki gefið þeim meðmæli sín.

Eg finn svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta að svo komnu, en óska þess fyrir nefndarinnar hönd, að breyt.till. hennar á þgskj. 460 verði samþyktar.