27.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Eggert Pálsson:

Eg efa ekki að frumv. þetta sé af góðum rótum runnið, en þó er það mislukkað, eins og horfellislögin, sem nú eru til, eru mislukkuð frá upphafi til enda. Það er tilætlunin, að frumvarpið ráði bætur á löggjöfinni, sem er til í þessum efnum. En beztar hefðu þær bætur verið; ef frumv. hefði ekki verið nema að eins síðasta greinin, sem sé að fella úr gildi horfellislögin og ekkert annað komið í staðinn. Horfellislögin eru gersamlega gagnslaus lög, þau kosta að eins fyrirhöfn og peninga. Lög eins og horfellislögin og frumv, þetta geta alls ekki komið að tilætluðum notum, það er svo margt, sem hamlar því, að sama regla eigi alstaðar við: Staðhættir mismunandi, ólíkar kringumstæður. Og svo ekki hvað sízt að menn greinir á í þeim sökum, sem hér að lúta, eins og öðru. Einum virðist of sett á hey, sem öðrum sýnist ekki. Ef einhver drepur úr hor af ásettu ráði, er peningasekt ekki nægileg refsing; en sé það gert, annaðhvort af fávizku eða vegna óhappa á engin sekt að eiga sér stað. Það er bæði óeðlilegt og ranglátt að sekta þann mann, er vegna fávizku sinnar eða af óhappi missir búpening sinn úr hor, það er að bæta gráu ofan á svart að sekta þann mann, er þannig hefir beðið efnatjón og á máske þar af leiðandi ekkert til að greiða sektina með. En það eru einnig fleiri annmarkar á frumv. þessu, en sektarákvæðið, sem þarf að lagfæra, ef frumvarpið á að ganga fram og vil eg t. d. benda á ákvæðið um skoðunarmennina. Þeim er gert að skyldu að annast um, á kostnað fénaðareigenda, að horfellir eigi sér ekki stað. En þó að þeim sé gefið slíkt vald að ráðstafa eignum manna, sem þeim sýnist, skal samkv. frumv., þeim manni, sem fellir úr hor, refsað, en skoðunarmönnunum alls ekki Slíkt er algerlega rangt, því að það ætti einmitt að refsa skoðunarmönnunum fyrir brot á skyldu þeirra, ef nokkrum ætti að refsa.

Ef frumvarp þetta á fram að ganga, þarf að breyta því á margan hátt og þar á meðal sektarákvæðunum.