13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Framsögum. minni hlutans (Sig. H.):

Eg býst við að menn hafi nú fengið nóg. Eg var með því áðan að slíta umræðum. Og skal því ekki þreyta með langri ræðu, enda mun svo um hnúta búið að ekki tjái að koma með skýringar.

Annars verð eg að segja, að eg er ósamdóma háttv. 5. kgk. um 43. gr. stjórnarskrárinnar, er segir að „dómendur eigi rétt á að skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvaldanna“. Embættistakmörk ráðherra eru þar að engu undanskilin. Þótt annað standi í 3. gr. stj.skr., þá er það annað mál, og tekur ekki til þess máls, sem hér liggur fyrir, nefnilega fógetaréttargerðarinnar. Eg get ekki séð, hvernig hæstiréttur getur dæmt um það mál, ,nema með því að dæma um kompetencesvið ráðherra. Þar hlýtur að koma fram, hvort ráðherra hafi farið út fyrir embættistakmörk sín eða ekki.

Það þótti mér vera léttvæg sönnun hjá háttv. 5. kgk. þm. að dönsku bankastjórarnir hefðu ekki getað dæmt neitt um, hvernig bankanum hefði verið stjórnað, af því að þeir hefðu ekki átt nema hálftíma fund með gömlu bankastjórninni. Eg hygg að meira sé um vert það sem þessir menn hafa rannsakað í bankanum sjálfum. Skjöl hans bera svo mikið með sér, að það þarf ekki að vera að spyrja neina ákveðna menn, hvernig bankanum sé stjórnað.

Háttv. 5. kgk. þm. mintist á eitt mál, sem eg hafði ekki hreyft og það af ásetningi, það var um sjálfskuldarábyrgðarlánsskjölin. Því vil eg svara að gefnu tilefni, að það eru lán í bankanum, sem hafa verið veitt fyrir 1904, og eiga þá ummælin við um þau.

Ef það hefði dunið yfir að Landmandsbankinn hefði sagt Landsbankanum upp, og tilkynt öðrum bönkum, sem Landsbankinn skiftir við, þá hefði það verið reiðarslag eins og þá stóð á.

En það sem hér skiftir mestu máli er, að hér á að fella úrskurð um mál, sem ekki er rannsakað. Málið er borið fram án þess að hafa heyrt álit bankastjórnar Landsbankans.

Það hefir verið talað hér um einsdæmi. Eg ætla að þetta gæti helzt kallast einsdæmi.