26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Jón Jónsson (1. þm. N.-M.):

Málið var á dögunum tekið út af dagskrá til athugunar. Nú er málið komið aftur og heldur nefndin fast við sína fyrri skoðun, um að gjaldið lendi ekki á landssjóði, heldur aðallega á fjáreigendum. Nefndin hefir reyndar ekki haldið fund til að athuga breytingartillögu hv. 2. þm. Árn. (S. S.) um að landssjóður greiði helming baðlyfjakostnaðar, en nefndarmenn hafa þó minst á þetta hver við annan og er mér óhætt að segja, að meiri hlutinn er á móti breytingartillögunni. Þó að nokkuð kunni að mæla með því, að skella þessum kostnaði á landssjóð, er það ekki álitlegt, eins og fjárhagurinn er nú. Þess ber líka að gæta, að ullartollsfrumvarpið gengur ekki fram á þinginu. Þó að kostnaðurinn verði allmikill í heild sinni, er hann alls ekki neitt ægilegur, einkum þegar þess er gætt, að ein böðun er alveg nauðsynleg til þrifa árlega. Eg veit meira að segja til þess, að framsýnir bændur eru til, sem álíta tvær þrifabaðanir á ári nauðsynlegar. Magnús bóndi Sigurðsson á Grund í Eyjafirði hefir sagt mér, að hann baðaði fé sitt tvisvar, bæði að vetrinum og aftur við rúning. Sagðist hann eiga manna vænst fé þar um slóðir. Hann þakkaði þetta aðallega því, að hann hefði baðað féð tvisvar á hverjum vetri. Það gefur líka að skilja, að það hefir mikla þýðingu, að féð sé lúsalaust, þegar það á að fara að safna holdum að sumrinu. Virðist ástæðulítið og vonlaust, að bera fram svona tillögu um aukin útgjöld úr landssjóði, þar sem tillaga frá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) um að landssjóður borgaði helming baðarakostnaðar, var feld. Eg álít, að ekki sé rétt að samþykkja þessa breyt.till., sem hér liggur fyrir.