11.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

75. mál, stjórnarskrármálið

Framsögumaður (Sig. St.):

Það er nú orðið dauft eftir múkinn. Um þessa þingsályktunartillögu, sem hér liggur fyrir, er það að segja, að eins og hinni háttv. deild er kunnugt, þá samþykti háttv. neðri deild á síðasta þingi áskorun til stjórnarinnar um að leggja fyrir næsta þing frumvarp til stjórnarskrárbreytingar. Í þeirri þingsályktunartillögu voru teknar fram þær breytingar, er brýn nauðsyn þótti vera á að fá. Um þetta eru menn sammála af báðum flokkum. Háttv. stjórn hefði nú átt að taka þetta mál til alvarlegrar íhugunar, undirbúa það og leggja frumvarp fyrir þingið. En þessu hefir stjórnin ekki látið verða af, og er það illa farið, því að alþjóð manna á Íslandi er orðin óþolinmóð eftir breytingum þeim á stjórnarskránni, er hún telur bráðnauðsynlegar. Þess er heldur ekki að dyljast, að ef stjórnarskrárfrumvarp hefði legið fyrir þingi, sem vel var undirbúið, hefði verið fljótara að fá málið afgreitt og ekki eyða eins miklum tíma þingsins til þess sem annars mun þurfa. Á síðustu þingmálafundum hefir það komið í ljós, að svo að segja hvert kjördæmi hafi samþykt áskorun um að afgreiða þetta mál á þessu þingi, og á flestum þeirra samþyktar breytingar á stjórnarskránni, sem nauðsynlegar eru taldar. Í þessu sambandi vil eg benda á það, að fundirnir hafa gengið út frá því, að stjórnin legði stjórnarskrárfrumvarp fyrir þingið, en þegar kom til þings, brá mönnum í brún, er þeir sáu að það var ekki. Vér þingmenn, sem sitjum hér á þingbekkjum, getum illa, hinir þjóðkjörnu að minsta kosti, farið héðan burt, ef við höfum ekki lagt fram alla okkar krafta og unnið vel og skörulega að því að þetta mál verði afgreitt.

Þegar nú ekkert frumvarp frá stjórninni lá fyrir, lögðu þingmenn í neðri deild fram tvö stjórnarskrárfrumvörp, annað til stjórnarskrár Íslands, hitt frumvarp til breytingar á stjórnarskránni. Háttv. neðri deild skipaði svo nefnd málinu til undirbúnings. Með þessu hefir háttv. neðri deild gert sitt til að bæta úr því óefni, sem málið var komið í, svo að þingið geti gert sitt til að þetta mál verði afgreitt nú á þessu þingi. Með þingsályktunartillögu þeirri sem hér liggur fyrir er farið fram á að háttv. efri deild samþykki að skipa nefnd til að íhuga stjórnarskipunarlög landsins. Háttv. efri deild hefir áður skipað nefndir til þess að þær gætu sezt á rökstóla með nefndum úr neðri deild, og til þess að þær gætu frekar unnið saman. Það hefir verið gert til þess, að málin þurfi síður að hrekjast milli deilda og til þess að síður yrðu gerðar breytingar á þeim. Það sem vakað hefir fyrir oss flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu er það, að greiða fyrir framgangi þessa máls hér á þinginu, en til þess töldum vér þennan veg heppilegastan. Eg skal svo ekki eyða fleirum orðum um þetta mál, en vona að háttv. deild samþykki tillöguna.