28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Bjarni Jónsson:

Þetta frumv. hefir vakið eftirtekt hér í bænum, því að maður nokkur hér hefir verið að hugsa um að setja upp ölgerðarhús. Hefi eg fengið bréf frá efnafræðingnum um þetta, er eg bað hann að skrifa mér, svo að eg gæti látið það koma nefndinni í hendur. Hefir hún nú gert eftir till. hans breytingar á ítölu landssjóðs í gróðanum, sem eg get vel sætt mig við og fara í þá átt, sem eg hélt fram í ræðu minni um málið.

Eg skal nú þegar geta þess, að eg felli mig alls ekki við 4. gr. frumv. Eg skil ekki í því, að þingið skuli vilja einoka sölu á öli hér í bænum eingöngu. Því að það er jafnrangt, hvort sem litið er til kaupmanna eða kaupanda. Af kaupmönnum bæjarins væri þá tekin mikilsverð réttindi, sem allir aðrir kaupmenn landsins héldi óskertum, og kaupendur hér væri bundnir í ölkaupum sínum, en engir aðrir landshlutar. — Þó telur efnafræðingurinn þessa vernd óþarfa ölgerðinni.

Betra væri og réttara, að leyfið væri veitt öllum bæjar- og sveitafélögum, en ekki einskorðað við bæjarfélagið hér, svo sem eg fór fram á við 2. umr. En úr því sú till. féll, er enginn annar kostur fyrir hendi en að fella alla einkasölu og fella niður 4. gr. frv. Eg sé ekki, að háttv. deild komist hjá því að ráða bót á þessu, enda vona eg að svo verði.