06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Það er alls ekki ætlun mín að vera nú að gera þetta mál að verulegu kappsmáli. Það er hætt við, að frv. verði hvort sem er ekki afgreitt frá þinginu í ár. Það væri raunar hægt með því móti, að háttv. Ed. samþykti frumv. óbreytt frá Nd., en það er eg hræddur um að aldrei verði meðan þetta ákvæði stendur í 6. gr. Mönnum mun virðist það nokkuð viðurhlutamikið, að samþykkja þetta út í bláinn, án þess að vita nokkuð um, út í hvaða kostnað lagt er, því að háttv. flutningsm. þeirrar brtill., sem var samþykt hér við 2. umr. hafa ekki lagt fram neina kostnaðaráætlun, hvorki þá eða nú, þó að nokkur tími hafi liðið í milli. Eg hefði ekkert á móti því, að þetta ákvæði fengi að standa, ef eg væri viss um, að kostnaðaraukinn væri ekki mjög mikill, en að hugga sig við, að við vitum ekkert um það og alt geti reynst vel, er ekki nóg. Það hlýtur að hvíla á þeim, sem ákvæðið báru fram, að sýna sennilega áætlun um kostnaðinn. Fyr en það er gert, er ekki hægt að ganga að því. Eg hefði heldur ekkert á móti ákvæðinu, ef stjórnin mætti skilja það svo, að hér væri að eins um heimild að ræða, sem útilokaði ekki heimildina til þess að leggja minni stöð, eins og þá sem áður stóð í frv. En eg er hræddur um, að svo sé ekki. Þá mætti eins miða við hvaða punkt á hnettinum til þess, sem vera vildi og stjórninni væri heimilt að fara eins skamt og henni sýndist ráðlegt.

Eg verð að skilja ákvæðið svo, að annaðhvert verði að reisa stöð, sem geti sent skeyti alla leið til Vesturheims, eða alls enga. Að öðrum kosti mundi eg, eins og eg hefi sagt, ekkert hafa á móti ákvæðinu.

Eg heyrði ekki alt, sem hv. þm. Dal. (B. J.) sagði, en af því sem eg heyrði, skildist mér það, að hann áliti heppilegra að fara fram hjá Grænlandi, því að Danir gætu sett sig upp á móti því að hafa millistöð þar. Þetta held eg að sé ekki annað en grýla. Tilgangur okkar flutnm. var ekki eiginlega sá, að koma upp loftskeytastöð til þess að komast í samband við önnur lönd, heldur við skip í hafinu við Ísland, er hefðu loftskeytatæki. Það var aðaltilgangurinn. En úr því þessu væri til kostað, þá væri heppilegt, að stöðin næði til vesturstrandar Grænlands, ef ske kynni, að aðrar þjóðir vildu koma upp sambandi við Vesturheim og nota hana sem millistöð. Þetta var ekki út í bláinn hugsað hjá okkur. Það var á döfinni 1906 að koma þessu sambandi á og talsverðar málaleitanir um það, og virtist þá ekkert vera til fyrirstöðu af Dana hálfu. Annars skal eg ekki fara að rifja þetta mál meir upp, en er hræddur um, að við Íslendingar séum ekki menn til þess að standa einir fyrir loftskeytasambandi við Vesturheim. Að minsta kosti þyrfti til þess rækilegan undirbúning. En það getur ekki skaðað að hafa stöð, sem getur sent skeyti til Grænlands, því að eg hefi alt af heyrt um það talað sem þægilega millistöð til þess að sambandið yrði sem öruggast milli Norðurálfu og Vesturheims. Ef um beint samband milli Íslands og Vesturheims væri að ræða, þá held eg, að ekki sé eftir miklu að slægjast fyrir erlendar þjóðir, því að munurinn á vegalengdum yrði þar ekki svo mikill móts við vegalengd á milli Írlands og Vesturheims. Eg vildi að greinin öll yrði feld, ef brtill. mín fær ekki framgang, til þess að von sé um, að frv. geti gengið óbreytt í gegnum Ed. Eg hefi getið þess áður, að jafnvel þótt frv. fái ekki fram að ganga á þessu þingi, þá yrði mikið við það unnið, að Ed. gæfist kostur á að segja álit sitt á því. Það yrði góður undirbúningur fyrir stjórnina til þess að leggja málið fyrir næsta þing.