26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

75. mál, stjórnarskrármálið

Frams.m. (Sigurður Stefánsson):

Eg skal strax taka það fram, að í nefndarálitinu bls. 3 er prentvilla í greininni um skilnað ríkis og kirkju í 4. línu. Þar stendur þó leggur til, í staðinn fyrir þá o. s frv. Í 8. lið er líka prentvilla, fjárlaganefndar, á að vera fjárlaganefndanna.

Eg þykist ekki þurfa að halda langa ræðu; frv. þetta er hingað komið frá hv. neðri deild, eftir rækilegan undirbúning þar. Atriðin eru ekki mörg, sem greinir á um, en þó sum hver harla mikilsverð. En eg skal að eins halda mér við aðalatriðin. Eg skal og taka það fram strax, að þótt nefndin hafi öll skrifað fyrirvaralaust undir nefndarálitið, þá er það ekki af því að allir nefndarmanna séu alveg sammála, en sum ágreiningsatriðin eru þannig vaxin, að búist var við að um þau gæti máske orðið samkomulag. Þetta mikilsverða mál er þegar að nokkru kunnugt orðið. Frá því á síðasta þingi hefir alþjóð manna á landi hér vænt þess að mál þetta yrði undirbúið sem allra bezt af þingi og stjórn. Og má sjá af fjölda þingmálafundargerða, víðsvegar af landinu, að búist var við rækilega undirbúnu frumvarpi, frá hálfu stjórnarinnar, en því miður brást það, og er þingið því óneitanlega miklu ver sett, en ella mundi hafa verið. En þingið leit svo á, að ekki mætti það láta undir höfuð leggjast að framkvæma þá skyldu, er á því hvíldi í máli þessu. Hv. efri deild hefir unnist of stuttur tími til þess að athuga málið sem skyldi — því það vantar alt af mikið, ef undirbúning frá hendi stjórnarinnar vantar.

Þessa skyldu að taka málið til meðferðar taldi þingið sjálfsagða, vegna hinna mörgu radda víðsvegar af landinu, er óskað höfðu þess, að málið fengi nú fram að ganga. Vér höfum yfirlýsing stjórnarinnar fyrir því, að hún muni rjúfa þingið, hvort sem mál þetta fær framgang eða ekki og þjóðin mundi þá hvort sem er hljóta að bera kostnað af aukaþingshaldi, en því æskilegra er að stjórnarskrárbreyting verði afgreidd á þessu þingi; sparaður sá kostnaður, sem leiða mundi af nýju aukaþingi, vegna breytinga á stjórnarskránni, sem sjálfsagt yrði bráðlega farið fram á að gera, ef þetta þing ekki afgreiddi málið.

Eins og nefndarálitið sýnir, voru aðallega 5 atriði um breytingu á stjórnarskránni, sem fram komu á þinginu 1909, og óskað var að tekin væru upp í hana, samkvæmt þingsályktunartillögu neðri deildar. Öll þessi atriði hafa nú verið tekin til athugunar af hv. N.d.

Fyrsta atriðið í þingsályktunartillögunni frá síðasta þingi var að fjölga ráðherrum, og var þinginu í sjálfsvald sett, hvort fjölga skyldi ráðherrum með beinu stjórnarskrárákvæði, eða heimila ráðherrafjölgun með einföldum lögum. Nú hefir hv. neðri deild tekið það beint upp í stjórnarskrárfrumvarpið að ráðherrar skuli vera þrír. Um þetta atriði hefir orðið ágreiningur í nefndinni, og eru nú fram komnar br.till. þess efnis, að þetta atriði skuli ekki sett í stjórnarskrána, heldur heimilað með einföldum lögum.

En meiri hluti nefndarinnar álítur réttara að hafa beint ákvæði um að ráðherrar skuli þrír vera. Og eg vil leyfa mér að benda á, að þótt svo kynni að verða litið á af einstökum mönnum, að verksvið stjórnarinnar væri hvorki víðtækara né umfangsmeira en það, að einn maður gæti annað störfunum, að þá eru þó meiri líkur fyrir því að stjórnarstörfin verði betur af hendi leyst af þremur mönnum heldur en einum, og með því mundi fást meiri festa í stjórnina, sem eg álít bráðnauðsynlegt.

Eins og kunnugt er, var hér skipaður landritari 1903, sem hafa skyldi með höndum stjórn landsins, tímum saman. En sá maður er pólitískt ábyrgðarlaus, og verð eg að telja það mjög óheppilegt. Auk þess er sá embættismaður ekki háður þeim breytingum, sem eiga sér stað um ráðherra.

Landritari getur verið andstæðingur stjórnarinnar. Og getur það í mörgum tilfellum komið sér illa, hversu góður, sem maðurinn annars kann að vera. Þetta eru ærnir agnúar á því fyrirkomulagi sem nú er, og full þörf á að breyta því.

Eins og nú er komið málum vorum, þarf einn maður að hafa ærið víðtæka þekkingu, til þess að geta sem ráðherra verið jafnvígur í öllum þeim málum, sem til hans kasta koma. Og verð eg því að líta svo á, að bæði frá pólitisku og umboðslegu sjónarmiði sé meiri trygging fyrir víðtækri þekking á öllum stjórnmálum, ef ráðherrar eru fleiri en einn; því að betur sjá augu en auga. Og með því mundi og síður hætt við ofmiklu einræði af hálfu stjórnarinnar en ella. En af of miklu einræði eða harðræði getur jafnan stafað hætta og það því fremur sem svo langur tími er á milli reglulegra alþinga hjá oss.

Ef ekki er nema einn ráðherra, getur og orðið mjög erfitt fyrir þingið eða þingflokkana, séu þeir fleiri en tveir, sem vel má búast við að verði, að mynda stjórn, sem styðjist við meiri hluta þingsins. Með því að hafa ráðherrana þrjá, má ætla að meiri festa komist á stjórnina, og stjórnarskifti verði ekki eins tíð. En mjög tíð skifti leiða til ósamræmis og jafnvel skipuleysis í stjórn landsins. Eg veit að þessu fyrirkomulagi fylgir nokkur kostnaður; en gæti það skapað fjölhæfari, gætnari og fastari stjórn, mundi það margborga sig. Sjálfsagt er að leggja niður landritaraembættið, og kostnaðaraukinn yrði þá aðallega við eitt nýtt ráðherraembætti.

Þá kem eg að öðru atriðinu, afnámi konungkjörinna þingmanna. Um það atriði eru allir sammála. En í sambandi við það kemur aftur á móti, hvernig haga skuli til um skipun efri deildar, og kennir þar nokkurs ágreinings. Nefndin í neðri deild, sem hafði mál þetta með höndum leit svo á, að nauðsynlegt væri að efri deild væri skipuð þannig, að þar væri fyrir hendi nægilegt íhaldsafl, til þess að spyrna á móti skyndilegum og oft miður heppilegum hreyfingum, sem upp kunna að koma og æsa hugi manna meira en holt er fyrir þjóðina.

Eg þori að lýsa því yfir fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að hann hefði helzt kosið, að öll efri deild væri kosin með hlutfallskosningum um land alt til 12 ára, eins og frumvarp stjórnarskrárnefndar neðri deildar fór fram á. Með því móti telur meiri hlutinn nokkurn veginn trygging fengna fyrir nauðsynlegu íhaldi og stefnufestu í efri deild. En þar sem engin von var um að fá það samþykt hér í deildinni né í neðri deild, þótti nefndinni réttast að halda því, sem í frumvarpinu stendur, sem sé 9 ára kjörtíma með endurkosningu á fjórðungi deildarmanna þriðja hvert ár. En eg lýsi því hér með yfir, að mér líkar þetta ákvæði ekki svo vel, að eg noti ekki hvert tækifæri sem gefst til að miðla málum og koma þessu í það horf, er eg vildi helzt. Mér þykir, sem sagt, ákjósanlegast, að kjörtímabil efri deildarmanna hefði verið 12 ár. Eg þori raunar varla að segja það, en eg hefði verið ánægður, þótt það hefði verið lengra. Þetta hefði verið ákjósanlegra, þar sem hér er farið fram á mikla bylting í kosningarréttinum. Eg hygg, að þeir sem eru hræddir við, að efri deild verði íhaldssöm, einblíni of mjög á, hvernig hinir konungkjörnu þingmenn hafa lengstum verið kosnir. Þeir voru kosnir af útlendri stjórn og áttu að því leyti ekki að standa þjóðinni reikningsskap gerða sinna. Sá hugsunarháttur er orðinn rótgróinn, að konungkjörnu þingmennirnir séu og hafi verið íhalds og afturhaldssamir, en eg er ekki þeirrar skoðunar og ætla, að þetta álit ríki of mikið og ranglega í hugum manna. Menn óttast því, að þessi langi kjörtími skapi ofmikið íhald í efri deild, en eg lít svo á, sem engin ástæða sé til slíks, þar sem kosið er til hennar af allri þjóðinni og þessir þingmenn öldungis eins fulltrúar þjóðarinnar og þingmenn neðri deildar, og eiga að standa henni reikningsskap ráðsmensku sinnar. Í sambandi við þetta atriði skal eg geta þess, að nefndin hefir leyft sér að leggja til, að sú breyting verði gerð á kosningarrétti til efri deildar, að hann verði bundinn við 30 ár. Þessi önnur breytingartillaga á kosningarréttarákvæðunum er miðuð við það, að nefndin hreyfði ekki við kjörtímabili efri deildar þingmanna, eins og það er ákveðið í frumvarpinu, og hún vonar, að gengið verði að þessu til samkomulags. Samkvæmt frumv. eiga allir 25 ára gamlir karlar og konur að fá kosningarrétt og kjörgengi til alþingis. Hér þykir nefndinni alt of langt farið svona alt í einu, þar sem allri vinnuhjúastétt landsins eru veitt þau réttindi, sem löggjafarvaldið hefir enn ekki viljað veita þessari stétt í þeim málum, sem þó minna máli skifta fyrir þjóðfélagið, sveita og safnaðamálum. Hér er um algerða bylting að ræða, sem veldur því að þeir sem hingað til hafa borið mestar byrðirnar í lands þarfir, bændurnir og aðrir atvinnurekendur eru settir í algerðan minni hluta og valdið fengið í hendur þeim hluta þjóðarinnar, er minstar ber byrðirnar og minst tæki hefir á því að fara með það þjóðinni til gagns. Engin rödd hefir og hingað til heyrst í þessa átt.

Aftur hefir nefndin ekki viljað hreyfa við kosningarákvæðurn frumvarpsins að því er sjálfstætt kvenfólk snertir. Eins og kunnugt er, hafa að undanförnu heyrst allháværar raddir frá kvenþjóðinni um það, að hún vildi verða aðnjótandi sömu réttinda sem karlmenn. Þessar óskir hafa fengið svo góðan byr, að nefndin vildi ekki verða hjáróma við þann lofdýrðarsöng, sem sunginn hefir verið kvenréttindunum, enda þótt sumir líti svo á, að alt gæti staðist í voru kæra landi, þótt blessað kvenfólkið hefði látið sér minna nægja fyrst um sinn.

Eg skal taka það fram, að þótt nefndin vilji ekki í þetta sinn stökkva þetta stóra stökk í rýmkun kosningarréttarins, þá er það ekki sprottið af neinni lítilsvirðing á hjúastéttinni. Henni þótti stökkið of stórt og hún óttaðist, að svo gæti farið, að mönnum þætti eftir á hafa verið farið of langt. Eg hefi heyrt því haldið fram, að það væri ekki ástæða til að veita lausamönnum meiri rétt en vinnufólki og skal eg fúslega játa það. En nú er svo ástatt, að búið er að veita lausamönnum þennan rétt og nefndin vill ekki taka þann rétt af þeim, sem þeim hefir verið gefinn, þótt hún fúslega viðurkenni að lausamannastéttin sé yfirleitt ekki mikið færari til að fara með hann, svo vel fari, en vinnuhjúin. Hinsvegar vildi nefndin hamla því, að þessi réttur væri notaður af þeim, sem eru ekki löglegir lausamenn. Það er kunnugt að fjöldi lausamanna eru það ekki á löglegan hátt. Nefndin vildi tryggja það að þessir kóngsins lausamenn eða landshornamenn, eins og þeir eru kallaðir, yrðu ekki þess réttar aðnjótandi, að þeir geti ekki laumast inn í kosningaklefann og notað rétt, sem þeir ekki hafa, eiga enga heimting á.

Um skilnað ríkis og kirkju er nefndin á sama máli og háttv. neðri deild og þarf ekki að fjölyrða um það. Og enn hefir nefndin bætt inn í grein um eiðfestu konungs, sem neðri deild hafði láðst. Og eg hefi nú gert grein fyrir þeim breytingartillögum nefndarinnar, sem mestu máli skifta.

Nefndin hefir leyft sér að stinga upp á, að 4. gr. stj.skr. sé orðuð nokkuð öðruvísi en nú er.

Þá kem eg að 5. br.till. við 11. grein frumvarpsins, sem hljóðar um breyting á 2. tölul. 18. gr. stjskr. um kjörgengi til alþingis. Eftir frumvarpinu er það bundið því skilyrði, að menn hafi síðasta árið verið heimilisfastir á Íslandi. Í stjórnarskránni nú er kveðið svo á, að maður hafi að minsta kosti verið 5 síðustu árin búsettur í löndum Danakonungs í Norðurálfu. Þessu 5 ára ákvæði vill nefndin halda og binda kjörgengið við þá dvöl á Íslandi. Nefndinni þótti hv. neðri deild hafa farið of langt í þessu, ekki sízt þar sem búast má við, að hingað streymi á næstu árum allmikill fjöldi útlendinga, og hann af misjöfnu tægi. Að vísu má segja með réttu, að þetta ákvæði geti komið illa niður á sumum Íslendingum, er dvalið hafa langvistum ytra, en í það verður ekki horft.

Eg skal ekki segja margt um breytinguna á þingtímanum, sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, enda býst eg við að tveir háttvirtir samnefndarmenn mínir geri grein fyrir þeim ástæðum, sem eru til hennar. Eg er þessari breytingu ekki hlyntur; þó gæti eg eftir atvikum sætt mig við færslu þingtímans til sumarsins, ef við það sparaðist kostnaður við húsbygging fyrir háskólann.

Þá kem eg að 8. br.till. nefndarinnar við 15. gr. Sú grein frumvarpsins inniheldur merkilegt nýmæli, sem þingdeildarmönnum er kunnugt og eg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að hefði verið til góðs, ef það hefði staðið þar, eins og það upphaflega stóð, að stjórnin ein ætti frumkvæðisrétt að breytingartillögum við fjárlögin, sem hafa í för með sér aukin útgjöld. En þessu var breytt í neðri deild, eins og háttvirtir þingdeildarmenn vita, þannig, að fjárlaganefndum beggja þingdeildanna var og veittur þessi réttur, og þótti mér ákvæðinu spilt með þeirri breytingu. Nú á að breyta þessu enn meira, eftir tillögum meiri hluta nefndarinnar, sem vill að meiri eða minni hluti fjárlaganefndanna fái þennan rétt. Eg tek það fram, að mér þykir þessi breyting ill, svo ill, að eg vil heldur að alt þetta nýmæli falli, heldur en að það sé samþykt með þessum viðauka. Fjárlaganefndirnar verða með þessu ákvæði í jafnmörgum hlutum og mennirnir í þeim, og hver nefndarmaður verður með heilan hóp af bitlinga og hrossakaupmönnum að baki sér og öll festa og samræmi í gerðum nefndanna þar með fallin.

Eg vildi óska þess, þótt það kunni að vera ókurteist við nefndina, að þessi breytingartillaga nái ekki fram að ganga.

Þá er ein breytingartillagan við 20. gr. frumvarpsins, að í staðinn fyrir „skóla“ komi barnafræðsla. Nefndin hélt, að það hefði verið meining neðri deildar, en hefir síðar komist að því að svo var eigi — eg mun athuga þessa breyting nánar síðar.

Þá kem eg að breytingum nefndarinnar við 23. gr. Nú er svo ákveðið í frumv., að lögum, sem alþingi samþykkir um sambandið milli Íslands og Danmerkur, skuli skotið til atkvæðis allra kjósenda landsins. Hér er nú farið fram á það, í breytingartillögum nefndarinnar, að gera þetta ákvæði um þjóðaratkvæði miklu víðtækara og sumum nefndarmönnum er þetta mikið áhugamál, en sumum þótti lítil nauðsyn á því, en hinsvegar vildi nefndin ekki gera það að kappsmáli; eins og ákvæðið er orðað er það meinlaust, en að líkindum gagnslítið.

Þá leyfir nefndin sér að fara fram á, að orðalagi 61. gr. stjskr. sé breytt. Neðri deild láðist að gera nauðsynlegar breytingar á henni, sem standa í sambandi við þá breyting, sem gerð hefir verið á skipun deildanna.

Þá er 16. breytingartillagan, sem eg get verið fáorður um. Þar þótti nefndinni ástæða til að prjóna dálítið neðan við frumvarp neðri deildar, af því að henni þótti ákvæði þess ekki nógu ljós.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um málið að þessu sinni, og geymi mér frekari athugasemdir, þar til er eg hefi heyrt flutningsmennina að breytingartillögum þeim, er nú liggja fyrir við frumvarpið, gera grein fyrir þeim.