26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

75. mál, stjórnarskrármálið

Jósep Björnsson:

Eg ætla með örfáum orðum að minnast á br.till. mínar, og hv. þm. Ak. á þskj. 724. Þær eru 4 talsins, en í rauninni eru þær að efni til ekki nema 2. Önnur er sú að við leggjum til að tala þm. í deildunum verði önnur en samþykt hefir verið í frv. Nd., nefnilega að tala þm. í hvorri deild um sig haldist sú sama sem nú er, 26 í Nd. og 14 í Ed. Við teljum þessa skiftingu eðlilegri vegna þess, að með henni verður tala þeirra þm., sem á þingbekkjum sitja, stök, og á það betur við en að hún sé jöfn. Um þetta er frekar það að segja, að við höfum séð okkur fært að leggja þetta til vegna þess að við leggjum jafnframt til að skipun Ed. verði nokkuð á annan veg en samþykt hefir verið í frv. Nd. Aðalástæða Nd. til þess að samþykkja, að í Ed. skyldu sitja 15 þm., mun hafa verið sú, að það stóð betur af sér samkvæmt tillögunni um þrískifting þm. við kosningar; þá var skift um jafnmarga þm. í hvort skiftið.

En nú leggjum við til, að ekki verði nema 10 þm. kosnir hlutfallskosningu til Ed., en að 4 verði valdir úr flokki þeirra þm., sem kosnir verða óhlutbundnum kosningum í kjördæmum landsins á sama hátt og nú á sér stað.

Hv. framsögumaður gat þess, að öll nefndin hefði verið einhuga á því, að nauðsynlegt væri að Ed. yrði stöðvunarafl, þar sem svo mörgum kjósendum verður bætt við. Eg er nefndinni sammála um það en með brtill. okkar þykjumst við ekki hverfa neitt frá þessu. Við teljum það er við leggjum til, að 10 þm. séu kosnir hlutfallskosningu til Ed., eins gott til stöðvunar eins og þó allir Ed.-þm. væru kosnir á þann hátt til 9 ára, með því að við leggjum jafnframt til að þingseta þeirra verði lengri, 12 ár, og að skift sé um helming þeirra í hvort skifti, svo að á 6 ára fresti verði kosnir 5 þm. Þegar þetta er borið saman við tillögu Nd. um 9 ára þingsetu, er leiðir til þess að 5 menn fara frá eftir 3 ár og aðrir 5 eftir 6 ár og síðasti þriðjungurinn eftir 9 ár, þá virðist okkar tillaga vera eðlilegri og engu síður hyggileg að því er snertir þá íhaldsstefnu, sem Ed. er ætlað að hafa. Það er fremur óviðkynnilegt að 5 fyrstu þm. færi frá eftir að að þeir hafa setið að eins á einu þingi, og næstu 5 eftir að hafa setið á 2 þingum og enginn þessara 15 getur setið lengur en á 4 reglulegum þingum, samkvæmt tillögunni um 9 ára þingsetutíma. Við viljum að hinir hlutfallskosnu þm, verði fastari í sessi og sitji á 6 þingum reglulegum. Þegar ennfremur er litið á hlutfallskosningar í heild sinni, hvernig þær muni verka, þá lít eg svo á, að að öllum jafnaði mundu þeir menn, sem sætu í Ed. samkvæmt hlutfallskosningu, verða embættismenn og flestir úr Reykjavík. Eg segi ekki að það væri óheppilegt, þó nokkrir embættismenn skipuðu deildina, en eg tel þó, að gott og hentugt sé, að í þeirri deild, eins og hinni, sitji blendingur manna, menn úr öllum stéttum landsins, því með því yrði fjölbreyttari þekkingu að finna í deildinni. En þetta mundi fremur verða, ef nokkrir væru kosnir upp í Ed. á sama hátt og nú á sér stað. Sömuleiðis verður það að skoðast eðlilegt, að sterkur meiri hluti geti haft áhrif á skipun Ed., þegar svo stendur á, að mikill meiri hluti er ráðandi í landinu, og verði okkar tillaga samþykt, þá er betur séð fyrir þessu en ef hlutfallskosningar einar réðu. Eg held því, að hér sé farin leið, sem báðum flokkum megi allvel líka, bæði þeim sem vilja að Ed verði stöðvunarafl, með því að við leggjum til að kjörtímabil hlutfallskosinna þm. verði lengra en Nd. samþykti, og svo þeim sem vilja að Ed. verði ekki alt of kyrstæð, en til þess miðar sú tillaga, að nokkur hluti hennar verði valinn úr flokki þeirra þm., sem kosnir verða óhlutbundnum kosningum. Eitt atriði vil eg enn taka fram, sem eg veit að kjósendur leggja mikið upp úr, og það er, að ekki er rétt að fækka nema sem allra minst þeim þm., sem kosnir eru óhlutbundnum kosningum. Kjósendur munu vera ófúsir á að fækka mjög mikið þingmönnum kosnum í sérstökum kjördæmum. Sömuleiðis leggja kjósendur mikið uppúr því, að sem flestar stéttir eigi fulltrúa í hvorri deild um sig og meiri líkur eru til að svo verði samkvæmt okkar tillögu. Eg skal svo ekki fjölyrða meir um þessar br.till. Eg vona að hv. deild taki þeim sæmilega vel, þó eg geri mér ekki glæsilegar vonir um að þær verði samþyktar af háttv. deild, þótt eg telji það illa farið, nái þær ekki fram að ganga.

Þá vildi eg minnast á brtill. á þingksj. 754. Þær eru ekki annað en orðabreytingar og leiða af brtill. á þingsk. 749. Þó er ein þeirra efnisbreyting. Það er 2. brtill. við 15. brtill. nefndarinnar snertandi 61. gr. stskr. Með henni er lagt til, að öðru vísi sé farið að en hingað til, þegar gerð er breyting á stjórnarskránni. Í stað þess að rjúfa þing og efla til nýrra kosninga, ætlumst við til, að þegar stskr. er breytt, verði breytingarnar bornar undir kjósendur til samþyktar eða synjunar, þó því að eins að stjórnin sé þeim meðmælt. Okkur þótti sjálfsagt að taka þetta fram, að breytingum skyldi ekki skjóta til kjósendanna, ef stjórnin væri þeim andvíg, því þá mætti líta svo á, að hún mundi ekki vilja flytja þær, og því væri árangurslaust að leggja þær undir atkvæði þjóðarinnar. Það sem mest og bezt mælir með þessu ákvæði er það, að þegar stjórnarskrárbreytingar eru gerðar, þá eru það ekki breytingarnar einar, sem ráða kosningunum, heldur ýms önnur mál. Það er því ekki að búast við, að eins hreinlega verði skorið úr því með því móti, hvort þjóðin vill breytingar þær á stskr., sem fyrir liggja, eða ekki, eins og ef þær einar út af fyrir sig væru lagðar undir atkvæði kjósendanna. Þetta er svo ljóst mál, að ekki ætti að vera ástæða til að fjölyrða um það. Það skal vitanlega játað, að ástand það sem nú er, að leysa upp þingið og stofna til nýrra kosninga, er gott til að tryggja það, að ekki sé hrapað að því að gera breytingu á stjórnarskránni, en mér finst tryggingin engu minni þó að þessi aðferð sé höfð, sem óneitanlega er miklu einfaldari.

Að síðustu skal eg að eins bæta örlitlu við, snertandi brtill. þær, sem eg hefi gerst meðflutningsmaður að ásamt háttv. 5. kgk. á þingsk. 717. Háttv. 5. kgk. talaði svo vel fyrir þeim, að það er harla lítil ástæða að bæta nokkru við það. Þó vildi eg segja eitt, og það er, að mér virðist tvísýni á því, hvort kjósendurnir muni fella sig vel við að tala ráðherranna sé fortakslaust ákveðin í stjórnarskránni. Þótt þjóðin hafi látið uppi að hún teldi fjölgun ráðherra heppilega, sem meðal annars hefir komið fram á þingmálafundunum í vetur, þá hefir hún ekki óskað annars en þess, að opnaður væri vegur til að fjölga þeim — að breyta mætti tölu þeirra með einföldum lögum. Mér finst því auðsætt að sú aðferð er réttust nú, að heimila að breyta tölu ráðherra með einföldum lögum, eftir því sem að reynslan segir til, án þess að breyta þurfi stjórnarskránni, ef reynslan sýnir að ástæða sé til að hafa aðra tölu en þá, sem ákveðin er á henni. Sumir líta svo á, að fjölgun ráðherra bæti mjög úr einræði stjórnarinnar, sem átt geti sér stað, þegar ráðherra er einn, og auki þingræðið. Aðrir líta aftur svo á, að fjölgun ráðherranna auki stjórnræði og minki þingræðið. Um þetta skal eg ekki þrátta.

Eg lít svo á, að það mundi auka þingræðið miklu meir, og koma í veg fyrir marga þá galla, sem eru á því að hafa einn ráðherra, ef þingið væri haldið á hverju ári, heldur en þótt höfð sé ákveðin tala ráðherra.