04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Jónsson (1. þm. S.-M.):

Eg get ekki verið með þessu og ætla því að gera dálitla grein fyrir atkvæði mínu. Fyrir mér vakir engin pólitík, þótt hér hafi verið ætlast til þess, að þetta væri pólitískur títuprjónn. En eg tel það skaða, að nema burtu þessa skyldu, sem nú hvílir á, að senda eintök af öllu, sem hér er prentað, til útlendra bókasafna. Eg veit ekki nokkurn þann stað hér á landi annan en landsbókasafnið, þar sem öllu, sem út er gefið, er safnað og geymt, og þótt það sé allvel varðveitt þar, þá getur þó komið fyrir, að bókunum verði þar ekki óhætt, nægir í því efni að minna á bruna, jarðskjálfta o. s. frv. og sé eg ekki betur, en að vér megum þakka fyrir, að íslenzkar bækur séu geymdar á öðrum öruggum stað, hvað sem upp á kann að koma, sem er í Danmörku og annarsstaðar. Það er aldrei úr vegi að eiga slíkt geymt á fleiri en einum stað; þótt menn þykist búa vel um, geta þó altaf komið slys fyrir á ýmsan hátt, og mun eg því greiða atkv. á móti þessu.